Hvað er stífkrampi?

Bæði börn og fullorðnir eru bólusett gegn hinum ógnvænlega sjúkdómi sem nefnist stífkrampi og orsakað getur beinbrot, auk þess að stefna lífi þeirra sem veikjast í hættu. Hvað er stífkrampi eiginlega?

BIRT: 12/09/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Hvað er stífkrampi?

Stífkrampi orsakast af sýkingu af völdum bakteríunnar Clostridium tetani. Læknisfræðilegt heiti veikinnar er tetanus, sem er sama orð og enskumælandi fólk notar um sjúkdóminn.

 

Bakterían clostridium tetani losar frá sér eitur, en um er að ræða eiturefni sem kallast tetanospasmin. Eitur þetta veldur truflunum á miðtaugakerfinu, sem sendir rafboð til vöðvanna sem orsaka krampa.

 

Kramparnir geta orðið það miklir að bein brotna og andardráttur stöðvast.

Eitrið bitnar á taugakerfinu

– Hvar

Eiturefnið tetanospasmin finnur sér leið inn í líkamann, t.d. gegnum sár og berst áfram með blóðrásinni eða úttaugakerfinu þar til það kemst alla leið í miðtaugakerfið í heilanum eða mænunni.

 

– Hvað

Eitrið ræðst til atlögu við taugafrumur og þvingar þær til gegndarlausrar virkni. Við þetta verður oförvun í vöðvum líkamans og í þeim myndast mikill krampi. Fyrstu ummerki um stífkrampa eru oft stífur kjálki og enskumælandi fólk kallar sjúkdóminn iðulega „lockjaw“ (læstur kjálki) í hálfkæringi.

 

– Hvernig

Stífkrampa er unnt að fyrirbyggja með því að bólusetja börn og fullorðna en þess bera að geta að þörf er fyrir endurbólusetningu á tíu ára fresti. Bólusetningar hafa gert það að verkum að dánartíðni af völdum stífkrampa hefur minnkað verulega á undanförnum áratugum. Á heimsvísu létust alls 787.000 nýfædd börn af völdum stífkrampa á árinu 1988 en þeim hafði fækkað niður í 34.000 árið 2015.

 

Clostridium tetani er einkum að finna í saur dýra, í jarðvegi og óhreinindum.

 

Þessi allt að 2,5 míkrómetra langa baktería lifir án súrefnis, hún er það sem kallað er loftfælin, og fyrir bragðið verða smit oft í djúpum sárum, það er í súrefnissnauðu umhverfi.

 

Stífkrampi smitast ekki einstaklinga á meðal.

 

Stífkrampi er sjaldséður á Vesturlöndum

Stífkrampi er afar sjaldgæfur á Vesturlöndum og er helsta ástæðan víðtæk bólusetning sem hafist var handa með á árunum eftir 1940.

 

Í þriðja heiminum veikjast hundruð þúsunda af sjúkdóminum ár hvert og þúsundir láta lífið af hans völdum, einkum hvítvoðungar.

 

Stífkrampa má fyrirbyggja með bólusetningum.

 

Fullorðið fólk hefur þörf fyrir örvunarbólusetningu á tíu ára fresti. Ungabörn og lítil börn þarf þó að bólusetja oftar, yfirleitt þrisvar á fyrsta ári og síðan aftur í kringum fimm ára aldurinn.

 

Sjúkdóminn er unnt að meðhöndla með sýklalyfjum, en hann krefst yfirleitt innlagnar á gjörgæsludeild.

BIRT: 12/09/2022

HÖFUNDUR: Ritstjórn

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.