Uppruni reykinga liggur einhvers staðar langt að baki í sögunni. Þannig telja vísindamennirnir að menn hafi á forsögulegum tíma andað að sér reyk til að komast í einhvers konar ofskynjunarvímu t.d. í sambandi við trúarathafnir.
Það er óvíst hvenær menn tóku að reykja tóbak, en hitt er þó ljóst að indíánar urðu fyrstir til þess, því áður en Kólumbus kom til Ameríku óx tóbaksplantan hvergi nema þar.
Elstu fornminjar um tóbaksreykingar eru um 4.700 ára gamlar.
Fornleifafræðingar fundu í Kanada reykjarpípu úr steini frá því í kringum 2700 f.Kr. við uppgröft nálægt borginni Alberta.
Að vísu eru vísindamennirnir ekki sammála um að hve miklu leyti pípan hafi verið notuð til reykinga. Mun yngri fornleifar fundust á brasilísku eyjunni Marjaó.
Hér fundu fornleifafræðingarnir allmargar rörlaga pípur frá því um 1000 f.Kr. og í þessu tilviki eru vísindamennirnir þess fullvissir að pípurnar hafi verið notaðar til tóbaksreykinga.
Maya-indíánar í Mexíkó reyktu líka tóbak fyrir meira en 2.000 árum.
Tóbaksreykingar bárust til Evrópu eftir að Kólumbus uppgötvaði Ameríku árið 1492. Hann sá indíána reykja tóbak og tók tóbaksplöntuna með sér heim til Evrópu.