Fyrsti kappleikurinn í amerískum fótbolta (ruðningi) fór fram 6. nóvember 1869 milli liða frá háskólunum Rutgers og Princeton. Ruðningur í þá daga var hins vegar gjörólíkur því sem við þekkjum í dag.
Þegar liðsmennirnir hlupu um á grasflötinni árið 1869 minnti ruðningur öðru fremur á vafasama blöndu af útiknattleiknum rúgbý og evrópskum fótbolta. Hvort lið hafði yfir að ráða 25 leikmönnum sem allir þustu á eftir kringlóttum bolta sem bæði mátti sparka og lemja í.
Næstu árin á eftir tóku margir háskólar upp ruðning, þó hver með sínum reglum og heimaliðið fékk iðulega að ráða því hvaða leikreglur giltu en meðal þess sem þeir réðu var hvort leikmennirnir mættu hlaupa um með boltann í höndunum.
Amerískur fótbolti eða ruðningur eins og við köllum íþróttagreinina líka, var einkar grimmilega leikin íþróttagrein í árdaga og leiddi af sér mörg meiðsl og enn fremur dauðsföll en árið 1905 eru 19 leikmenn sagðir hafa fallið í valinn.
Nýjar reglur
Stigið var mikilvægt skref í átt að nútíma ruðningi árið 1880, þegar Walter Camp við Yale háskóla sem sagður er vera faðir ruðningsins í dag, kom því til leiðar að ýmsum leikreglum var breytt.
Samkvæmt nýju reglunum máttu til dæmis einungis vera ellefu leikmenn á vellinum í senn og Camp kynnti jafnframt til sögunnar þá aðferð að hefja skyldi sóknarlotur með því að kasta boltanum aftur milli fóta sér. Stuttu síðar var nýtt stigakerfi enn fremur innleitt og þar með var ruðningur orðinn að allt annarri íþróttagrein en bæði rúgbý og fótbolti.
Aðaldeild ameríska fótboltans (NFL) var sett á laggirnar árið 1922 og það leiddi til þess að nú var amerískur fótbolti ekki lengur einvörðungu leikinn í háskólunum heldur einnig meðal atvinnumannaliða hingað og þangað í Bandaríkjunum. Á sjöunda áratug 20. aldar var ruðningur orðinn vinsælasta íþróttagreinin í Bandaríkjunum og vinsældirnar jukust til muna þegar árlegu úrslitakeppninni „Super Bowl“ var komið á laggirnar árið 1967.
Í dag er „Super Bowl“ eða „úrslitaleikssunnudagur“ einn helsti íþróttaviðburður heims.