Þegar tekið er óléttupróf mælir það hvort hormónið HCG sé að finna í þvagi konunnar. Hormón þetta myndast af frjóvguðu egginu stuttu eftir að fyrsta frumuskiptingin á sér stað og eggið hefur fest sig í leginu.
Óléttuprófið greinir hormónið með svonefndum einstofna mótefnum sem bera kennsl á og bindast hvort sínum hluta hormónsins. Ein gerð mótefnis binst litarefni og kemur fram á öðrum enda prófunarstrimilsins.
Þessum enda er dýft í þvagið og ef HCG-hormónið fyrirfinnst í því, binst það litamerkta mótefninu. Óháð því hvort mótefnið hefur fundið hormónið eður ei, dregst það upp eftir strimlinum með þvaginu með hárpípukrafti. Á einhverju stigi kemst það upp að prófunarlínu sem þakin er annarri gerð mótefnis sem bundist getur öðrum hluta hormónsins.
Sé konan ólétt hefur hormónið þegar bundist litamerkta mótefninu og samstæðan binst mótefninu í prófunarlínunni. Lituð prófunarlína gefur fyrir vikið til kynna að konan sé þunguð. Sé hún það hins vegar ekki, fer litaða mótefnið fram hjá prófunarlínunni.
Þetta getur jafnframt átt sér stað ef þungunarprófið virkar ekki sem skyldi. Viðmiðunarlína með þriðja mótefninu sem binst litaða mótefninu beint gefur fyrir bragðið til kynna að þvag hafi streymt upp og að óléttuprófið virki eins og því er ætlað.
Hormón gefur til kynna þungun
Þvag þungaðra kvenna inniheldur sérlegt hormón sem óléttupróf gefur til kynna.
- Á enda óléttuprófsáhaldsins er að finna litað mótefni. Mótefni þetta binst hormóninu HCG í þvagi þungaðra kvenna. Hvort tveggja dregst upp í strimilinn með þvaginu.
- Prófunarlínan er þakin öðru mótefni sem binst öðrum hluta hormónsins. Þar sem það binst litaða mótefninu fær línan á sig lit ef um þungun er að ræða.
- Viðmiðunarlínan er þakin enn öðru mótefni sem binst litaða mótefninu. Fái línan á sig lit táknar það að þvagið hafi komist alla leið og að þungunarprófið virki sem skyldi.