Stjörnufræðingurinn Kelsi Singer og teymi hennar frá Southwest Research Institute, SRI, ráku upp stór augu þegar þau rannsökuðu fyrstu nærmyndirnar af Plútó sem geimkanni NASA, New Horizons, tók.
Þar var gerð byltingarkennd uppgötvun og staðfest að það eru íseldfjöll á Plútó.
Þar sem eldfjöll á jörðinni annað hvort spúa eða ýta heitri kviku upp úr iðrum jarðar í formi hrauns, ýta þessi íseldfjöll, einnig kölluð lághitaeldfjöll, upp ís-slöngu sem líkist helst krapaís.
Mynd af Plútó tekin af New Horizons árið 2015. Bláu merkingarnar gætu verið íseldfjöll að sögn vísindamanna frá SRI.
Rannsóknarhópurinn telur að þetta íshraun samanstandi aðallega af vatni blönduðu frostlegi eins og ammoníaki eða metanóli.
„Það er samt erfitt að ímynda sér að það verði fljótandi því það er einfaldlega of kalt,“ útskýrir Kelsi Singer við dagblaðið The Guardian.
„Meðalhitinn á Plútó er um 40 Kelvin (-233 gráður á Celsíus), þannig að þetta er líklega sundurlaust efni eða það getur jafnvel verið fast, eins og jökull sem er traustur en getur samt flotið.“
Nýleg ísgos eldfjalla
Singer og teymi hennar hafa skoðað og greint myndirnar frá ferð New Horizons fram hjá Plútó og hafa þau sérstaklega einbeitt sér að svæði suðvestur af risastórum köfnunarefnisjökli, Sputnik Planitia.
Hér eru fjöllin tvö, Wright Mons og Piccard Mons sem lengi hefur verið grunur um að séu eldfjöll.
Reyndar nær svæðið yfir fjöldann allan af íseldfjöllum, sum þeirra eru allt að 7.000 metrar á hæð og 10 til 150 km á breidd.
Vísindamenn frá SRI telja að eldfjöllin hafi myndast við það að fljótandi efni þrýstist upp úr undirlaginu og myndað hvelfingu á toppnum sem íshraunið rann upp úr.
Hér sést Wright Mons í litum sem talið er að sé íseldfjall. Mynd tekin af New Horizons geimkannanum árið 2015.
Ólíkt annars staðar á Plútó er þetta svæði að mestu laust við gíga sem gefur til kynna að yfirborðið hafi verið mótað tiltölulega nýlega.
Vísindamenn áætla að svæðið sé ekki meira en eins til tveggja milljarða ára gamalt og að sum svæðanna kunni að hafa myndast fyrir aðeins 200 milljónum ára.
Þar sem Plútó er svo kaldur ætti íshraunið alls ekki að geta hreyft sig. Því gæti grjótkjarni Plútó verið heitari en áður var talið.
Singer og teymi hennar vinna nú að því að finna skýringu á því hvað gæti hafa valdið því að þessi eldfjöll gusu.
Íseldvirknin á þessu svæði hlýtur að vera tiltölulega ný í sögu Plútós og gæti bent til þess að innri innviðir Plútós hafi afgangshita eða meiri hita en áður var talið knýja fram slíka eldvirkni,“ sagði Kelsi Singer við Sci-News.com.