Lifandi Saga

Kauphallirnar eiga uppruna að rekja til kryddflutninga

B-hlutabréf eru eldri en A-hlutabréf og Indverjar fundu upp víxlana. Saga verðbréfaviðskipta er eldri en okkur grunar.

BIRT: 24/05/2023

Spákaupmenn, kaupréttir og B-hlutabréf – heimur verðbréfa er fullur af hugtökum sem koma frá fornöldum og miðöldum.

 

Jafnvel á tímum krossferðanna var þörf fyrir alþjóðlegan fjármálamarkað.

 

Við köfum ofan í fyrstu hlutabréfin, elstu skuldabréfin og Afríkukóng með svo mikið gull í vasanum að hann varð til þess að verðbólga tók stökk í Miðausturlöndum.

 

Svona voru hlutabréf og öll önnur verðbréf fundin upp:

 

Hlutabréf

Hollenska hlutafélagið VOC var risavaxið fyrirtæki og rak eigin skipasmíðastöð. Höfuðstöðvar fyrirtækisins í Amsterdam sjást hér í bakgrunni.

Hollendingar seldu fyrstir hlutabréf

Strax á dögum Tang-keisaraættarinnar (618-907) notuðu Kínverjar einskonar verðbréf sem geta minnt á hlutabréf. En fyrstu hlutabréfin í því formi sem nú tíðkast voru boðin út í Hollandi á 17. öld. Ástæðurnar voru illviðri og sjóræningjar.

 

Á 16. öld högnuðust Spánverjar og Portúgalir vel á kryddflutningum frá Austurlöndum og Hollendingar vildu fá sneið af þessari köku. Árið 1602 stofnuðu þeir Sameinaða Austur-Indíafélagið (Verenigde Oostindische Compagnie, VOC).

 

Þá höfðu ríkin á Íberíuskaga hátt í hundrað ára reynslu af því að sigla yfir hálfan hnöttinn með kryddjurtir sem voru þyngdar sinnar virði í gulli. Hollendingar gerðu sér strax ljóst að slíkar ferðir yrðu bæði langar og hættulegar og bæði illviðri og sjóræningjar gætu hrifsað af þeim öll verðmætin.

 

Enginn maður var nægilega auðugur til að geta tekið slíka áhættu einn. Lausnin fólst í því að skipta áhættunni á marga.

Hlutabréf VOC eins og þau birtust árið 1606. Þessi hlutur var í eigu Jansz fjölskyldunnar í fjórar kynslóðir.

VOC-hlutabréfin voru seld í Amsterdam og hver sem var gat keypt þau. Rétt eins og nú gáfu öll hlutabréf eignarhlut í fyrirtækinu.

 

Hver hluthafi vonaðist auðvitað til að VOC-skipin sneru heim heilu og höldnu, full af kryddjurtum og félagið gæti greitt hluthöfum sinn hluta hagnaðarins.

 

Ef skipin færust eða farmurinn yrði sjóræningjum að bráð, yrðu hlutabréfin lítils virði og félagið gæti mögulega orðið gjaldþrota. Þar með hefðu hluthafarnir tapað fé sínu. Til allrar lukku gekk kryddverslunin vonum framar.

 

Stofnfé félagsins var 6,4 milljónir hollenskra gyllina en 35 árum síðar sýndu reikningar félagsins eigið fé upp á 78 milljónir. Árið 2023 samsvarar það kringum 2,6 milljörðum evra eða ríflega 400 milljörðum íslenskra króna.

 

Í tæpar tvær aldir borgaði þetta hlutafélag árlega 18% arð. Veislunni lauk ekki fyrr en 1796 þegar félagið varð gjaldþrota bæði vegna spillingar og nýrra óska kaupenda um te og postulín – en á því sviði hafði félagið ekki einkarétt.

Skortsala

Fyrir verðbréfamiðlara táknar björninn hnignun á markaði á meðan nautið stendur fyrir framfarir. Skortsala snýst um að veðja á björninn.

Skortsalan kom fljótt til sögunnar

1609: Flestir sjá kosti þess að kaupa hlutabréf í von um að þau hækki í verði en það er erfiðara að átta sig á skortsölu – sem sé að græða á því að hlutabréf lækki í verði. Það var þó strax árið 1609 sem reiður Hollendingur áttaði sig á þessum möguleika.

 

Eftir að hafa tapað málaferlum gegn fyrsta hlutafélagi sögunnar, VOC, sór Hollendingurinn Isaac Le Maire (1558-1624) þess dýran eið að hann skyldi hefna sín á félaginu með þaulhugsaðri áætlun – og græða vel á öllu saman.

 

Hann samdi við mörg hundruð fjárfesta um að selja þeim hlutabréf fyrir 145 gyllini hvert (um 2.400 evrur á núvirði) og að kaupendurnir fengju hlutabréfin afhent eftir eitt ár. Svo mikil viðskipti leiddu óhjákvæmilega til þess að hlutabréfin féllu í verði en þar eð kaupendurnir áttu samkvæmt samningunum ekki að fá hlutabréfin afhent fyrr en eftir eitt ár, var Le Maire í rauninni að selja hlutabréf sem hann var ekki búinn að kaupa.

 

Áður en hann fór sjálfur að kaupa hlutabréfin kom hann af stað orðrómi um að skip félagsins hefðu sokkið eitt af öðru og félagið væri að komast í þrot. Þetta trix hans svínvirkaði og hlutabréfin féllu í verði.

Isaac Le Maire stofnaði fyrirtækið Groote Compagnie árið 1609. Ásamt 14 öðrum hollenskum auðmönnum vildi hann geta sér til um gegn VOC hlutabréfunum.

Þessi úthugsaða og snjalla áætlun gekk út á að kaupa hlutabréfin þegar verð þeirra væri allra lægst – t.d. um 45 gyllini – og afhenda þau síðan viðsemjendum sínum með 100 gyllina hagnaði á hvert einasta hlutabréf.

 

Þetta bellibragð kallast nú til dags „shorting“ eða skortsala en uppfinningamanninum til hrellingar fengu forsvarsmenn félagsins hollensk stjórnvöld til að banna sölu hlutabréfa sem maður átti ekki og Le Maire tapaði því fúlgum fjár.

B-hlutabréf

Kinverjar gátu keypt B-hlutabréf fyrir 1400 árum.

B-hlutabréf ættuð frá keisaratímum Kína

Nú eru til hlutabréfaflokkar, t.d. A- og B-hlutabréf. Þá geta t.d. A-hlutabréf gefið fullan atkvæðisrétt en aðrir hlutabréfaflokkar takmarkaðan atkvæðisrétt eða jafnvel engan. Hugmyndina um óvirka hluthafa má rekja langt aftur til keisaratímans í Kína.

 

Á tímum Tang-keisaraættarinnar í Kína (618-907) stunduðu kaupmenn viðskipti með stuðningi óvirkra fjárfesta sem réðu litlu en áttu rétt á hluta hagnaðarins.

Sænski auðjöfurinn Ivar Kreuger (1880-1932) seldi B-hlutabréf. Þau gáfu aðeins 1/1.000 atkvæðisrétt í fyrirtæki hans.

Þetta kerfi var endurbætt á tíma Song-keisaraættarinnar (960-1279) og kaupmenn fengu nánast alveg frjálsar hendur varðandi rekstur sinn. Lögin tryggðu að eignaraðild og rekstur væru alveg aðskilin og sköpuðu þannig nýja stétt kaupmanna sem í rauninni ráku fyrirtæki í eigu annarra.

 

Fjárfestar keyptu sig inn í fyrirtækið og ferðakaupmenn þurftu í rauninni ekkert eigið fé til að komast af stað, heldur aðeins góða hugmynd.

Verðbólga

Mansa Musa ríkti í Malí í 25 ár. Hann lét m.a. reisa hina frægu Djinguereber-mosku fyrir gríðarlegan hagnað sinn af þrælasölu, gullnámum og saltvinnslu.

Eyðslusamur kóngur olli óðaverðbólgu

Mikil verðbólga drepur niður kaupgetu þar eð stöðugt þarf meiri peninga til innkaupa og fátækir verða alltaf verst úti. Þannig var það líka þegar fyrsta skjalfesta dæmið um óðaverðbólgu kom upp í Egyptalandi.

 

Árið 1324 fór konungurinn í Malí, Mansa Musa, í pílagrímsferð. Auðlegð þessa eyðslusama konungs olli gríðarlegri verðbólgu á allri leið hans frá Vestur-Afríku til Mekka.

 

Samkvæmt samtímaheimildum ferðaðist kóngurinn með 60.000 manna fylgdarliði. Þar af voru 12.000 þrælar sem allir báru 1,8 kg gullstengur. Og úlfaldarnir, 80 að tölu, báru hver um sig 100 kg sekki af gullsandi.

Á þessu spænska korti frá árinu 1375 er Mansa Munsa sýndur í hásæti sínu með stórt gyllt konungsepli.

Mansa Musa jós gullinu á báðar hendur á ferð sinni um Norður-Afríku en mest urðu áhrifin af komu hans í Kaíró í Egyptalandi. Þar eyddi kóngurinn í Malí svo miklu gulli að verð á því snarlækkaði.

 

Og þar eð öll greiðslukerfi byggðust á verði gulls, hækkaði verð á korni og annarri fæðu mikið. Úr varð óðaverðbólga sem breiddist út um Mið-Austurlönd, því Kaíró var mikil verslunarmiðstöð.

 

Ef verðbólgan hefði látið staðar numið þegar Mansa Musa var úr augsýn, hefði kreppan ekki orðið mjög alvarleg en næstu 12 árin hélst verð á gulli kringum helming þess sem áður var í þessum löndum.

Bólan

Túlípanamanían var svo útbreidd að nokkrir hollenskir gullaldafræðimenn lýstu áhættusömum vangaveltum.

Túlípanabólan sem sprakk með hvelli

Velmegun skapar fjárfestingaráhuga. Á 17. öld urðu blómlaukar vinsælir til fjárfestinga í Hollandi en það sýndi sig að gróðafíknin skapaði hættu.

 

Hagnaður af kryddverslun gerði Hollendinga ríka. Og með aukinni velmegun fylgdi aukin eftirspurn eftir lúxusvarningi sem auðstéttin gat státað af, t.d. túlípönum.

 

Þessi litríku blóm voru tiltölulega nýkomin til Evrópu austan úr ríki Ottómana og túlípanaverslunin fór úr böndunum. Árið 1636 voru túlípanar komnir í fjórða sæti á lista yfir útflutningsvörur Hollendinga, næstir á eftir brennivíni, saltsíld og ostum.

 

Eftir að túlípanarnir höfðu blómstrað voru laukarnir grafnir upp og seldir. Verðið hækkaði og hækkaði. Áður en yfir lauk var ein karfa af laukum orðin svo verðmæt að fyrir andvirðið mátti kaupa heilt hús í Amsterdam.

Jan Brueghel yngri (1601-1678) var sjónarvottur þegar túlípanakúla Hollands sprakk. Í málverki hans "Allegory of Tulip Mania" eru spákaupmenn sýndir sem apar.

Fjárfestar gátu ekki beðið eftir að fá túlípanalaukana í hendur og tóku því að kaupa réttinn til að kaupa lauka síðar. Seljendur lofuðu þá að afhenda tiltekinn fjölda lauka síðar. Nú kallast þetta framvirk viðskipti og ættu að vera Íslendingum kunn eftir bankahrunið.

 

Þessi framtíðarloforð voru iðulega seld áfram, jafnvel 3-4 sinnum og á síhækkandi verði, án þess að kaupendur fengju afhentan einn einasta lauk.

 

Þetta gat auðvitað ekki gengið til lengdar og í febrúar 1637 hrundi túlípanamarkaðurinn. Orðrómur um að verð myndi fara lækkandi, varð til þess að allir vildu selja en enginn þorði að kaupa. Margir töpuðu miklu og fyrsta fjárfestingarbóla sögunnar sprakk með miklum hvelli.

Skuldabréf

Elstu viðskiptaskjöl sögunnar eru áletraðar leirtöflur. Letrið var rist í mjúkan leir en töflurnar síðan hertar með brennslu.

Skuldabréf urðu frelsun bænda

Skuldabréf eru ein gerð verðbréfa og hægt að selja þau áfram. Hugmyndin gagnaðist Babýloníumönnum í fornöld.

 

Skuldabréf eru upprunnin í Mið-Austurlöndum og hugmyndin er orðin 4.400 ára gömul. Elsta þekkta skuldabréfið er leirtafla sem fannst í Nippur í Babýloníu sem var voldugt ríki milli fljótanna Efrat og Tigris, þar sem nú er Írak.

 

Samkvæmt textanum var bóndi einn kvaddur í herinn og þurfti að fá annan til að yrkja jörðina. Nágranni bauðst til að leigja býlið og þeir gerðu samkomulag um hvernig tekjunum skyldi skipt þegar bóndinn sneri aftur.

 

Texti leirtöflunnar skyldar nágrannann til að greiða bóndanum að stríði loknu. En á töflunni gengst tiltekinn kaupmaður líka í ábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar, geti nágranninn ekki staðið við sinn hlut. Með þessari ábyrgð er leirtaflan orðin að alvöru skuldabréfi.

Skuldabréf fjármögnuðu stríð Bandaríkjanna gegn Mexíkó frá 1846 til 1848. Ríkissjóður Bandaríkjanna bauð 6 % í vexti á 20 ára gildistíma skuldabréfsins.

Á síðari tímum eru þau skuldabréf sem ganga kaupum og sölum oftast gefin út af stórfyrirtækjum eða ríki, þegar fjármagna þarf stórframkvæmdir.

 

Hundrað ára stríðið milli Englendinga og Frakka stóð frá 1337 til 1453 og var fjármagnað með svonefndum stríðsskuldabréfum.

 

Meðal fjárfesta nútímans teljast ríkisskuldabréf vera afar öruggar fjárfestingar. Ríkið og þar með allir íbúar landsins ábyrgjast að fjárfestarnir fái höfuðstólinn greiddan ásamt vöxtum á gjalddaga skuldabréfsins sem oft er eftir 5-20 ár.

Víxill

Musterisriddarar vörðu ekki aðeins Jerúsalem gegn herjum múslima. Þeir voru líka hraðbankar fyrir pílagríma og aðra krossfara.

Musterisriddararnir auðguðust á víxlum

Í fornöld tóku indverskir kaupmenn sjaldan mikið reiðufé með sér í langferðir. Þess í stað notuðu þeir svokallaða víxla. Kristnir riddarar nýttu sér hugmyndina og græddu stórfé á víxlaviðskiptum.

 

Víxil mætti kalla ávísanir eldri tíma og þeim var hægt að skipta í reiðufé þegar komið var á áfangastað.

 

Um 300 f.Kr. lögðu indverskir kaupmenn inn reiðufé hjá forverum bankamanna og fengu kvittun fyrir innistæðunni. Á einhverjum fjarlægum stað gátu þeir svo afhent kvittunina öðrum bankamanni og fengið reiðufé í staðinn.

 

Víxlanotkun kostaði umboðslaun en á móti tryggðu þeir handhafann gegn því að tapa stórfé í ræningjahendur, þar eð ræningjar hefðu tæpast tekið þá áhættu að reyna að innleysa víxlana.

Árið 1939 gerði indverski bílainnflytjandinn Narbheram & Co þennan reikning upp á u.þ.b 1000 rúpíur.

Í Evrópu tóku hinir kristnu musterisriddarar upp þessa viðskiptahætti. Í víggirtum köstulum þeirra voru fjármunir tryggilega varðveittir og þar eð þessi riddararegla hafði kastala víða um Evrópu og í Mið-Austurlöndum var unnt að skipta víxlum á mörgum stöðum.

 

Samkvæmt reglum kirkjunnar máttu kristnir menn ekki taka vexti af peningalánum og opinberlega gerðu musterisriddararnir það heldur ekki. Rétt eins og Indverjar tóku þeir hins vegar umboðslaun af pílagrímum og krossferðariddurum á leið til landsins helga með víxla í farteskinu.

 

Víxlar héldu vinsældum sínum og voru algengustu skammtímalánin langt fram eftir 20. öld, allt þar til krítarkort og hraðbankar komu til sögunnar.

Kaupréttur

Þales frá Milet telst meðal viturra manna í fornöld. Og hann virðist alla vega hafa haft gott vit á olífuuppskeru.

Kaupréttir sýndu gildi heimspekinnar

Kaupréttur er fjármálagerningur sem veitir fjárfesti rétt til að kaupa t.d. hlutabréf á tilteknu verði. Hugtakið á rætur aftur til 635 f.Kr. þegar gríski heimspekingurinn Þales vildi hreinsa nafn sitt.

 

Elsta dæmi sögunnar um kauprétt er að finna meðal Forn-Grikkja. Heimspekingurinn Þales (um 623-545 f.Kr.) á að hafa veðjað á góða olífuuppskeru.

 

Hann aflaði sér heimilda til að nota allar olífupressur í borgríkinu Milet í núverandi Tyrklandi.

Grísk ólífupressa samanstendur af steinhellu með niðurfalli. Ólífurnar í sekkjum voru settar ofan á diskinn og mastraðar með til dæmis þungum steinum þannig að olían seytlaði út.

Þales fékk pressurnar á sanngjörnu verði og gat síðar leigt þær út fyrir miklu hærri upphæð, þegar hann reyndist hafa rétt fyrir sér og olífuuppskeran sló öll met.

 

Sagan kemur frá Aristótelesi sem sagði Þales ekki hafa gert þetta til að græða, heldur til að sýna fram á gagnsemi heimspekinnar.

 

Einn af íbúunum í Þales hafði sem sé lýst því yfir að hann skildi ekki að svo vitur maður sem Þales, skyldi vera svo fátækur.

Kauphöll

Í kauphöllum á miööldum voru ekki seld verðbréf heldur voru seld til dæmis ull í stórum bagga og vín í tunnum.

Markaðstorg urðu að kauphöllum

Alls kyns vörur hafa afar lengi verið keyptar og seldar á markaðstorgum. Verslun með verðbréf fluttist af þessum opna markaði inn í hús og nú eru verðbréf keypt og seld í kauphöllum.

 

Hafnarborgin Brügge í Belgíu var miðstöð verslunar á miðöldum og þangað sóttu kaupmenn víða að úr Evrópu.

 

Á 13. öld rak van der Beurze-fjölskyldan veitingastað í borginni og með því að hlusta eftir tali gesta safnaði fjölskyldan góðri þekkingu og skilningi á framboði, eftirspurn og verðmyndun í viðskiptum.

 

Fjölskyldan gat gefið kaupmönnum góð ráð og gerðist stundum milliliður í stórum viðskiptum. Að lokum hætti fjölskyldan veitingarekstrinum en opnaði þess í stað dyr sínar fyrir kaupmönnum sem gátu hist og stundað viðskipti við stórbættar aðstæður.

Húsið Van Der Beurzerne, fyrsta kauphöll heims er ennþá staðsett í gamla bænum Brugge.

Húsið sem hýsti lengi þessa fyrstu kauphöll sögunnar hefur verið endurnýjað og heitir „Huis ter Beurze.“ Beurze-heitið er víða notað um kauphallir í Evrópu, t.d. á Norðurlöndum þar sem kauphallirnar kallast Börsen eða Børsen.

Lestu meira um verðbréfasögu

David E. Y. Sarna: History of Greed: Financial Fraud from Tulip Mania to Bernie Madoff, Wiley, 2010

 

Ivan Gan: A Short History Of Risk: From Tulip Mania To Crypto Mania, Investproper, 2018.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: JÓNAS TERNEY ARASON , JANNIK PETERSEN

Three Lions/Stringer/Getty Images. © Geheugen van Nederland. © Westfries Archief. © Eva K.. © Public domain. © History archive. © Scan vom EDHAC e.V.. © Bridgeman Images. © Gallica Digital Library. © PTYX. © Dorotheum. © Imageselect. © JHerbstman. © Pictorial Press Ltd/Imageselect. © Central Bank of India. © New York Public Library Science Source. © Jebulon. © History archive. © Chivista.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

Af hverju veldur ofnæmi kláða?

Náttúran

Milljarðar grameðlna hafa lifað á jörðinni

Heilsa

Vísindamenn finna sjálfsmorðshnapp krabbans

Alheimurinn

Ný gerð geimhylkis snýr lendingu alveg á haus

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is