Lifandi Saga

Kirkjan byggði píramída Evrópu 

Þeir eru fáir sem geta gengið fram hjá gotneskri dómkirkju án þess að reigja dolfallnir höfuðið aftur, dáðst að snilligáfu byggingameistara miðalda og furðað sig á því hvernig þeir báru sig að. Svörin felast í nýrri byggingartækni, ótrúlegu striti – og heppni. 

BIRT: 13/10/2023

11. júní árið 1144 var merkisdagur í sögunni – ekki einungis fyrir klaustrið í St-Denis norðan við París þar sem ný klausturkirkja var vígð þennan dag, heldur fyrir gjörvalla Evrópu.

 

Suger ábóti hafði boðið kóngum, aðalsmönnum og erkibiskupum til vígslunnar og allir sem mættir voru horfðu í forundran á þetta nýja meistaraverk, því að kirkjan var byggð með nýjum byltingarkenndum, björtum og fáguðum stíl sem var órafjarri hinum lágreistu og myrku rómönsku kirkjum. 

 

Með því að samþætta nokkrar byggingarfræðilegar uppfinningar hafði Suger skapað fyrstu gotnesku kirkju heims.

 

Fjölmargir af þessum málsmetandi gestum héldu heim frá St-Denis með höfuðið fullt af nýjum hugmyndum. 

Dómkirkjan í Mílanó er stórfenglegt dæmi um gotneskan stíl sem gerði mönnum kleift að byggja risastórar og bjartar kirkjur. 

Alla dreymdi þá um að byggja gotneskar dómkirkjur sem væru stærri, fallegri og tilkomumeiri en allt það sem heimurinn hafði séð til þessa og á næstu árum spruttu upp nýjar dómkirkjur víðsvegar í Evrópu. 

 

Undur í eymdinni 

Jafnvel fyrir auðugustu menn samtímans væri það risavaxið verkefni að byggja gotneska dómkirkju.

 

Og gotnesku dómkirkjurnar voru heldur ekki byggðar í skipulögðum og þróuðum samfélögum okkar tíma – þær voru byggðar á tímum þar sem þriðja hvert barn dó fyrir fimm ára aldur, þar sem meðalaldur íbúa var undir 30 árum og þar sem uppskerubrestir og sjúkdómar þóttu daglegt brauð.

 

Við bestu aðstæður gat uppskeran rétt svo brauðfætt íbúana en ef veðurfarið reyndist óhagstætt var hungursneið allt eins yfirvofandi. 

 

Og jafnvel án hungursins þurftu miðaldabúar að berjast gegn fjölmörgum hættum. Hreysin sem flestir bjuggu í voru með moldargólf og reykurinn úr opnum eldstæðum fyllti lungun á þeim mönnum og húsdýrum sem deildu híbýlum með þeim.

 

Sambland af lágreistum timburhúsum, hálmi á gólfinu og opnum eldstæðum varð til þess að eldsvoðar voru tíðir.

 

Í bæjum þar sem húsin stóðu þétt saman var nánast ómögulegt að slökkva eldinn þegar hann kviknaði.

Nýjar byggingaraðferðir

Nýjungar í byggingarlist gerðu miðaldaarkitektum kleift að byggja risastórar dómkirkjur með mikilli birtu í kirkjurýminu.

Oddbogi 

Oddbogar leystu rómanskan hringboga af hólmi. Þeir gátu borið meiri þyngd og veittu margvíslega möguleika varðandi hæð og breidd rýmisins. 

Rifjahvelfing 

Rifjahvelfingin færði birtu og andrými í kirkjuskipið. Ólíkt massívum tunnuhvelfingum gat rifjahvelfingin hvílt á frístandandi súlum. 

Veggstuðull 

Veggstuðlar virkuðu eins og risastórar viðspyrnur sem studdu við veggmúrana. Fyrir vikið var hægt að byggja mun hærra í loft upp. 

Lélegt og mengað drykkjarvatn olli einnig taugaveiki, kóleru og blóðkreppusótt og skæðar farsóttir sem herjuðu á Evrópu frá því um 1350 drápu milli 33 og 50% íbúa. 

 

Mitt í öllum þessum hörmungum fundu evrópubúar engu að síður þrótt til þess að reisa himinháar dómkirkjur en ein helsta hugmynd Sugers ábóta með hinni nýju gotnesku kirkju var að veita almenningi sýn inn í himnaríki. 

 

Ábótinn hafði eins og flestir aðrir á þessum tíma hugmyndir um að himnaríki hlyti að vera samsett samkvæmt ströngum rúmfræðilegum reglum, fullt af yndislegri birtu og einkennast af skipulagi og samhengi. Þannig skildi kirkjuskipið í nýju dómkirkjunni einnig vera.

 

Miðað við þennan nýja byggingarstíl þótti hin þunglamalega rómanska dómkirkja ömurlega gamaldags og á árunum eftir vígsluna í St-Denis tóku fjölmargir aðrir biskupar að endurbæta rómanskar dómkirkjur sínar.

 

Og þeir létu sér ekki nægja með kirkju á stærð við St-Denis dómkirkjuna. 

 

Dómkirkjur lengdu valdatíma

Hæð kirkjuskipsins, skreytingar turnanna og fagurlega skreyttir gluggar með steindu gleri urðu að stöðutákni meðal biskupa í Frakklandi sem tóku að keppast sín á milli um hver þeirra gæti byggt stærstu og hæstu dómkirkjuna. 

 

Sem dæmi reif erkibiskupinn í Reims niður nýtt fordyri kirkju sinnar svo hann gæti byggt annað sem var stærra en það sem keppinautur hans í Amiens hafði nýverið vígt.

 

Smám saman var þó ekki hægt að afla fjár frá kóngum, aðli og almenningi í byggingarverkefni nema það væri stærra en öll önnur fyrirhuguð, tilbúin eða nýhafin byggingarverk.

 

Biskuparnir á bresku eyjunum tóku einnig þátt í þessu kapphlaupi. Og þrátt fyrir að þar hafi það snúist um að byggja langar en ekki sérlega háar, kirkjur voru dómkirkjurnar þar með sömu fagurfræðilegu hugmyndir um fullkomna rúmfræði eins og hjá Frökkum. 

 

Í dómkirkjunni í Salisbury er t.d. hæðin frá jörðu til toppsins á turninum hin sama og lengd kirkjunnar.

 

Öllum grunni dómkirkjunnar má skipta upp í ferninga sem eru 11,9 m á hlið og nánast allar aðrar mælingar í byggingunni tengjast þessari tölu. 

„Að mæla tá er að mæla risann“
Skáldið Victor Hugo um hlutföll dómkirkju.

Flestar aðrar dómkirkjur eru byggðar eftir sömu grunnreglum en þó ekki með sömu mælieiningum sem má greina hjá hverri kirkjunni af annarri því að það fannst engin sameiginleg mælieining á miðöldum.

 

Þessi endurtekning á hlutföllunum var mikilvæg fyrir arkitektana.

 

Hver einasti hluti byggingarinnar tengist þannig heildarmyndinni – og hver þeirra endurspeglar heild. Franska skáldið Victor Hugo sagði um Notre Dame í París:

 

„Að mæla tá er að mæla risann“ og þessi tækni auðveldaði múrarameistaranum lífið. Þegar hann hafði byggt einn hluta byggingarinnar gat hann með tiltölulega einföldum hætti reiknað út hvernig afgangurinn af kirkjunni skyldi verða. 

 

Þrátt fyrir að gotneskar dómkirkjur séu tilkomumiklar að utanverðu eru háir múrarnir einungis byggðir til að skapa fagurt innra rými. 

 

Þýski listfræðingurinn Otto von Simpson líkti þannig ytra byrði gotneskrar dómkirkju við hráa bakhlið leikmyndar – helstu fegurðina væri að finna innan í kirkjunni.

 

Gotneskur arkitektúr hafði það aðalmarkmið að skapa eins mikla birtu og mögulegt var inni í kirkjunni. 

 

Sérfræðikunnátta við byggingu dómkirkja

Dómkirkjan var iðandi miðpunktur bæjarins

Smíði dómkirkju umbreytti bæjarmyndinni algjörlega í evrópskum miðaldabæjum. Vinnuflokkar sérfræðinga eins og þaksmiða, glerskurðarmeistara og tréskurðarmanna komu jafnan utan að og bættust við herskara af handverksmönnum, smiðum og kaupafólki sem voru við byggingarstaðinn. 

Smíðaefni kom langt að 

Steinarnir í kirkjur komu með kerrum frá steinnámum sem voru oft langt í burtu. Þeir voru hoggnir til á byggingarsvæðinu svo að þeir pössuðu saman og síðan var þeim gaumgæfilega hlaðið upp í múr. 

Biblíumyndir réðu ríkjum 

Steind gler í ótal litbrigðum sýndu atburði úr Biblíunni. Glermeistarar útbjuggu mörg þúsund fermetra af gleri og röðuðu því síðar saman í gluggana. 

Skúlptúrar í tugatali 

Ufsagrýlur og aðrar skreytingar voru framleiddar allt árið um kring af sérhæfðum myndhöggvurum á verkstæðum nærri dómkirkjunni. Síðan var þeim komið fyrir á kirkjunni – einatt hátt uppi á turnunum. 

Tréstillansar 

Stillansa mátti færa upp með múrverkinu eftir því sem byggingin hækkaði. Oftast voru stillansarnir að innanverðu þar sem mesta vinnan fór fram. 

Hátt í loft upp 

Efst uppi var turninn svo mjór að stillansinn var byggður utan á hann. Þegar turninn var tilbúinn var toppur hans oft meira en 100 metra yfir grunninum. 

Þakrennur með andlit 

Vatnsleiðslur sem leiddu regnvatnið burtu frá stórum þökum voru oft mótuð sem hræðileg skrímsli sem spúðu vatni úr munninum. 

Þungur toppur 

Þakið var klætt með hundruðum tonna af blýi og bygging þess krafðist mörg þúsund tonna af timbri. Tré í meðal annars þak og stillansa var sótt í skóga í nágrenninu. 

Múrverkið var hátt 

Múrinn var yfirleitt massívur eða samanstóð úr tveimur lögum steina. Veggstuðlar gerðu kleift að byggja háa og þunna múra með mörgum gluggum. 

Dómkirkjan var iðandi miðpunktur bæjarins

Smíði dómkirkju umbreytti bæjarmyndinni algjörlega í evrópskum miðaldabæjum. Vinnuflokkar sérfræðinga eins og þaksmiða, glerskurðarmeistara og tréskurðarmanna komu jafnan utan að og bættust við herskara af handverksmönnum, smiðum og kaupafólki sem voru við byggingarstaðinn. 

Smíðaefni kom langt að 

Steinarnir í kirkjur komu með kerrum frá steinnámum sem voru oft langt í burtu. Þeir voru hoggnir til á byggingarsvæðinu svo að þeir pössuðu saman og síðan var þeim gaumgæfilega hlaðið upp í múr. 

Biblíumyndir réðu ríkjum 

Steind gler í ótal litbrigðum sýndu atburði úr Biblíunni. Glermeistarar útbjuggu mörg þúsund fermetra af gleri og röðuðu því síðar saman í gluggana. 

Skúlptúrar í tugatali 

Ufsagrýlur og aðrar skreytingar voru framleiddar allt árið um kring af sérhæfðum myndhöggvurum á verkstæðum nærri dómkirkjunni. Síðan var þeim komið fyrir á kirkjunni – einatt hátt uppi á turnunum. 

Tréstillansar 

Stillansa mátti færa upp með múrverkinu eftir því sem byggingin hækkaði. Oftast voru stillansarnir að innanverðu þar sem mesta vinnan fór fram. 

Hátt í loft upp 

Efst uppi var turninn svo mjór að stillansinn var byggður utan á hann. Þegar turninn var tilbúinn var toppur hans oft meira en 100 metra yfir grunninum. 

Þakrennur með andlit 

Vatnsleiðslur sem leiddu regnvatnið burtu frá stórum þökum voru oft mótuð sem hræðileg skrímsli sem spúðu vatni úr munninum. 

Þungur toppur 

Þakið var klætt með hundruðum tonna af blýi og bygging þess krafðist mörg þúsund tonna af timbri. Tré í meðal annars þak og stillansa var sótt í skóga í nágrenninu. 

Múrverkið var hátt 

Múrinn var yfirleitt massívur eða samanstóð úr tveimur lögum steina. Veggstuðlar gerðu kleift að byggja háa og þunna múra með mörgum gluggum. 

Langur undirbúningur byggingar

Arkitektarnir nýttu sér þrjár arkitektónískar meginreglur til að flytja eins mikið ljós inn í kirkjuna og kostur var: Oddboga, rifjahvelfingu og veggstuðla. 

 

Oddbogar gátu borið miklu meiri þyngd en fyrri hringbogar og gáfu arkitektinum færi á að breyta hlutfallinu milli hæðar bogans og breiddar hans. 

 

Rifjahvelfingin átti, ólíkt tunnuhvelfingum rómanskra kirkja, ekki að styðja undir lengd hvelfingarinnar heldur var henni komið fyrir á súlum. Auk þess varð smíði byggingarinnar auðveldari og hægt var að stækka rýmið á breidd og hæð. Fyrir vikið má fá mikið rými milli súlnanna.

 

Veggstuðlar á utanverðri byggingunni gerðu kleift að byggja hærra, gera ytri múrana þynnri og jafnframt gata þá með stórum gluggum.

 

Þakspyrnubogar leiddu þungann frá veggmúr og þaki yfir á veggstuðlana sem eru staðsettir utan við bygginguna og styðja við múrverkið.

Dómkirkjan í Canterbury er 160 metrar á lengd og þar með ein af lengstu kirkjum miðalda. 

Vinnan stöðvaðist marg oft 

Skissur, teikningar og önnur skjöl frá smíði dómkirkjunnar í Canterbury sýna að þrátt fyrir að það hafi tekið heil 343 ár að byggja þessar voldugu kirkju, þá lá öll smíði niðri í meira en helmingi byggingartímans. 

 

– 1175 – 1185

Byggingin byrjaði með hákórnum í austri.

 

– 1218 – 1220

Kapella ábótans.

 

– 1236 – 1238

Súlnagangur og borðstofa munka.

 

– 1304 – 1320

Kórhlið og kapelluhús

 

– 1335

Gluggar í kapellu St. Amsels 

 

– 1341 – 1343

Sjúkrastofa , Table Hall endurbyggð.

 

– 1363 – 1366

Kapella Svarta prinsins og kapella Vorrar frúar.

 

– 1377 – 1468

Grafhvelfing, suðvesturturn, svali, kapella m.m. 

 

– 1490 – 1517 

Miðturn og þakspyrnubogar

Án þeirra myndu þessar háu þunnu kirkjur hrynja niður og veggstuðlar, ásamt þakspyrnubogum og rifjahvelfingum, er fyrst og fremst það sem einkennir gotneskan stíl. 

 

Þessir verkfræðilegu landvinningar minnkuðu þó ekkert þann gríðarlega undirbúning sem þurfti að fara fram.

 

Það þurfti að afla mikilla fjármuna í launakostnað og byggingarefni, kalla til sérhæfða handverksmenn og skipuleggja framvindu byggingarinnar í þaula.

 

Það gat tekið margar kynslóðir að byggja eina dómkirkju og því örðugt fyrir arkitekta að koma hugmyndum sínum áfram til eftirrennara sinna.

 

Einungis brot af íbúum Evrópu kunni að lesa og enn færri að skrifa.

 

Auk þess var pergament afar dýrt og prentun bóka kom ekki fram fyrr en um 1450, þannig að menn þurftu að reiða sig á munnlegar skýringar til að varðveita byggingaráformin. 

 

Skakki turninn í Salisbury

Án nákvæmra teikninga var mikilvægt að hafa reyndan byggingarstjóra á staðnum og ábyrgð hans var mikil.

 

Til þess að byggja gotneska dómkirkju þurfti þúsundir tonna af byggingarefni. Sem dæmi má nefna að í þakið á Salisbury Cathedral fóru 2.800 tonn af timbri.

 

Stærsti bjálkinn er 1,5 metri á þykkt og 25 metra langur. Hann var fluttur drjúga vegalengd frá skógi í nágrenninu á byggingarsvæðið. 

 

Þak kirkjunnar er gert úr blýi og vegur um 400 tonn. Í kirkjunni er einnig að finna um 3.000 fermetra af steindu gleri og mörg hundruð tonn af kalki og sandi þurfti í steinlímið sem heldur þessu öllu saman. 

 

Turninn á dómkirkjunni með sína 123 metra er einn af þeim hæstu sem var byggður á miðöldum og sambland af þyngd sem nemur 7.000 tonnum og óstöðugum jarðlögum hefur orðið til þess að turninn hallar 75 cm til hliðar.

Dómkirkjurnar voru skreyttar með djöfullegum steinþursum sem var kannski ætlað að hræða illa anda. 

Alls voru notuð um 60.000 tonn af kalksteinum og 12.000 tonn af marmara í dómkirkjuna og var þetta sótt með kerru í hinar og þessar steinnámur sem voru sumar í 20 kílómetra fjarlægð frá byggingunni. 

 

Þessir flutningar á steinum kostuðu drjúgan skilding og til þess að auðvelda flutninginn eins og kostur var voru steinarnir gróflega hoggnir til í steinnámunni.

 

Þar vann undirverktaki með sínum mönnum stöðugt að því að höggva til steina og koma þeim fyrir á kerrum.

 

Skriflegar heimildir frá enskri klaustursmíð greina þannig frá að á þremur árum hafi verið sendar 12.000 kerrur á ári frá steinnámu í grendinni.

 

Þetta samsvarar um einni kerru á hverju korteri. Þar sem hægt var að koma því við kusu menn því oft að flytja þessa þungu steina yfir vatn.

 

Canterbury dómkirkjan suðaustur undan London er sem dæmi byggð úr steinum frá Caen í Normandy sem er hinum megin við Ermarsundið. 

 

Verkið tók margar kynslóðir

Við bestu kringumstæður, þar sem farsóttir, hungursneiðar eða styrjaldir seinkuðu ekki byggingarvinnunni, tók það 50 ára stanslaust strit að byggja gotneska dómkirkju. 

 

Yfirleitt var þó byggingartíminn mun lengri, einatt 200 til 300 ár og í sumum tilvikum nánast endalausan tíma.

 

Það tók t.d. heil 632 ár að byggja dómkirkjuna í Köln og ein dómkirkja sem lagður var grunnur að árið 1218 var endanlega fullbyggð árið 1905. 

 

Ástæðan fyrir þessum ótrúlega langa byggingartíma stafar af því að vinna stöðvaðist alfarið á löngum tímabilum. Steinlím þess tíma þurfti nokkur ár til að þorna og það setti byggingartímanum miklar skorður. 

 

Auk þess gat fjárhirslan tæmst og vinna legið niðri í áratugi. Og þegar það komu aftur peningar í kassann þurfti á ný að kalla til handverksmenn, stundum langt að.

 

Flestir sem unnu að smíði dómkirkna bjuggu á viðkomandi stað en öll vinnan fór fram undir handleiðslu sérhæfðra handverksmanna sem hver og einn hafði fimm til sex ófaglærða vinnumenn til aðstoðar.

 

Þessir sérhæfðu handverksmenn voru fagmenn sem vissu vel hvers virði vinna þeirra var. Ef þeir fengu ekki uppsett laun fyrir vinnu sína sögðu þeir samstundis upp starfinu, því þeir vissu vel að þeir gátu alltaf fengið vinnu á byggingarsvæði annarrar dómkirkju einhvers staðar í Evrópu. 

Spánverjar eru ennþá að byggja dómkirkjuna La Sagrada Familia - bygging hennar hófst árið 1882.

Hálfkláruð dómkirkja er kennileiti Barcelona 

Það var ekki bara á árum áður sem það tók langan tíma að byggja dómkirkjur. Í um 140 ár hafa Spánverjar byggt hina risavöxnu dómkirkju La Sagrada Familia í katalónsku borginni Barcelona. 

 

Þegar frá upphafi var þetta umdeild smíð sem margir arkitektar tóku þátt í að gera.

 

Það var fyrst þegar Antoni Gaudí tók til starfa sem byggingin fékk sinn heildarsvip: Risavaxin kirkja með lífrænum formum sem átti að vera með þrjú forhlið – hvert þeirra með fjórum klukkuturnum – og í miðjunni turn sem mun gnæfa 170 metra í loft upp. 

 

Gaudí lést hins vegar sviplega árið 1926 eftir að hafa verið keyrður niður af sporvagni. Gaudí lét þó eftir sig fjölmargar teikningar og líkön af kirkjunni en mest af því glataðist í bruna árið 1936.

 

Síðan hefur smíðin legið niðri á löngum tímum og í dag eru einungis tvö af þremur forhliðum tilbúin. 

Oft ferðuðust heilar fjölskyldur – sem voru sérfræðingar í tilteknu handverki – um Evrópu í þessum erindagjörðum og tóku þátt í að byggja margar mismunandi dómkirkjur.

 

Þessir víðförlu förusveinar eru ein orsök þess að gotneskar dómkirkjur í Evrópu líkjast hver annarri afar mikið. 

 

Það þurfti ekki nema eina handverksfjölskyldu til að yfirgefa byggingarsvæðið til að öll byggingarvinnan færi í baklás, því þrátt fyrir mikilvægi verksins voru ekki sérlega margir sem gátu sinnt því. 

 

Sagnfræðingurinn Richard Jones hefur rannsakað skjöl frá þeim tíma þegar Westminster Abbey var reist og hann hefur komist að því að árið 1253 hafa að meðaltali 300 manns unnið á byggingarsvæðinu.

 

Við þessa tölu má bæta verkamönnum í steinnámunum og alla þá sem fluttu byggingarefni til viðkomandi staðar.

 

Þar sem Westminster Abbey naut stuðnings konungsfjölskyldunnar hafa líklega verið næg efni til að ráða fleiri verkefni þar heldur en á mörgum öðrum stöðum. 

 

Vinnan takmarkaðist að miklu leiti af árstíðunum. Mest var unnið frá 1. apríl til 1. október. Þá gátu verkamenn unnið utandyra.

 

Á vetrum var múrverkið þakið með taði og hálmi því að rakt steinlímið mátti ekki frjósa. Þess í stað var tíminn notaður innandyra við að vinna ýmis konar skraut í kirkjuna. 

 

Fúsk einkennir margar kirkjur

Þrátt fyrir iðni handverksmanna og nákvæma skipulagningu arkitekta var stundum fúskað í handverkinu, rétt eins og á sér stað við byggingarvinnu okkar tíma.

 

Ábótinn Suger hafði þá bjargföstu trú að rúmfræði væri hin eina sanna leið til að smíða góða byggingu.

 

Rúmfræðin væri guðdómleg og ef allir fylgdu reglum hennar við bygginguna yrði byggingin stöndug og góð.

 

Ef finna mátti einhverja veikleika í henni hlaut það að stafa af röngum útreikningum.

Arkitektar nýttu sér rúmfræðilegar grunnreglur og líkanagerð við smíði dómkirkna miðalda. 

Þessi blinda trú á rúmfræðina og lítil þekking á burðarþolsfræði leiddi til þess að margir múrveggir ultu um koll, turnar hrundu niður og þök sömuleiðis. 

 

Samkvæmt franska miðaldasagnfræðingnum George Duby hafa slík hrun átt sér stað í um tæpum fimmtungi allra dómkirkna sem byggðar voru á miðöldum. 

 

Í þessum hópi má finna t.d. dómkirkjuna í Beauvais í Frakklandi sem er hæsta gotneska dómkirkjan sem byggð hefur verið.

 

Hluti af kórnum hrundi saman árið 1282 og 1571 hrundi 89 metra hár turn hennar og því er þessi gamla miðaldakirkja nú turnlaus. 

 

Dómkirkjurnar mótuðu Evrópu

Þrátt fyrir að einstakar dómkirkjur hafi ekki lifað af ýmsar hremmingar, standa flestar þeirra sem betur fer ennþá sem stórkostleg eftirmæli um þær þrengingar sem menn þurftu að fara í gegnum til að geta byggt kirkjurnar. 

 

En dómkirkjurnar gegndu líka öðru mikilvægu hlutverki. Sóknarbörnin gátu flúið amstur og erfiði hversdagsins til að öðlast friðsæla stund og dálitla innsýn í himnaríki, þegar þau héldu inn í fullbúnar kirkjurnar.

 

Bygging þeirra þýddi kannski meira fyrir miðaldamanninn heldur en hann kannski gerði sér grein fyrir. 

 

Þessar miklu byggingar sameinuðu íbúa bæjanna í ríkum mæli. Það að hver kynslóðin á fætur annarri hafi fórnað svo miklum tíma og orku í að byggja kirkju efldi samfélagstengsl innan og milli kynslóðanna.

 

Evrópsk menning bjó þannig til dómkirkjur en dómkirkjurnar áttu sinn þátt í að búa til evrópska menningu.

 

Þess vegna eru þessar makalausu byggingar ekki bara metnaðarfullir minnisvarðar – dómkirkjurnar eru jafn mikilvægur hluti sögu okkar eins og pýramídarnir eru fyrir Egypta.

Lestu meira um dómkirkjur Evrópu

  • Elizabeth O’Reilly: How France Built Her Cathedrals, Harper & Brothers, 1921
  •  
  • S. Jenkins: England’s Cathedrals, Little, Brown Book Group, 2016

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: EBBE RASCH

© Shutterstock, Micael Rix,© Corbis/Getty Images,© MEPL/Ritzau Scanpix,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

Maðurinn

Af hverju þreytumst við í hita?

Menning og saga

Hvað varð um Nefertítí drottningu?

Alheimurinn

NASA uppgötvar dularfullan hlut sem er 27.000 sinnum stærri en jörðin – hreyfist á 1,6 milljón km/klst.

Maðurinn

Lyktin afhjúpar öll þín leyndarmál: Lyktin er hið nýja fingrafar

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is