Search

Loftlagsbreytingar ógna tilvist jökla

Tæplega tíu hundraðshlutar jarðar eru huldir jöklum en hnatthlýnunin veldur því að þessar óheyrilega stóru ísbreiður bráðna nú á ógnarhraða sem haft getur ógnvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir jörðina.

BIRT: 04/08/2022

LESTÍMI:

5 mínútur

HVAÐ ER JÖKULL?

Jöklar eru þykkar ísbreiður sem verða svo þungar að lögun þeirra breytist og þær komast smám saman á hreyfingu.

 

Jöklar hylja í dag hartnær tíu hundraðshluta jarðar en á tímum ísalda áður fyrr huldu jöklar allt að þriðjung af samanlögðu yfirborði jarðar.

 

Ekki er til nein opinber lágmarksstærð á því hvað telst vera jökull en Jarðfræðikönnunarstofnun Bandaríkjanna hefur ákvarðað að minnsta stærð megi nema 0,1 km2.

 

Jöklar geta verið afar ólíkir hvað stærð áhrærir og sumir geta orðið mörg hundruð kílómetrar að lengd.

Jöklar mynda stærsta forðabúr ferskvatns á plánetunni allri, meira en allt vatn í öllum vötnum og ám í heiminum.

Flesta jökla er að finna á Suðurskautslandinu og Grænlandi en risavaxnar ísbreiður er þó að finna í næstum öllum heimsálfum.

 

Pakistan er það land utan Suður- og Norðurheimskautanna sem hefur yfir að ráða hvað flestum jöklum, þ.e. 7.253 alls.

HVERNIG MYNDAST JÖKULL?

Hreyfast um metra á dag

Jöklar myndast og stækka á stöðum þar sem vetrarsnjórinn nær ekki að bráðna yfir sumartímann.

 

Á hverjum nýjum vetri bætist nýtt snjólag við jökulinn og þetta ferli er svo endurtekið öldum saman þar til snjóalögin verða svo þung að snjórinn á botninum þrýstist saman undan eigin þunga og verður að ís.

 

Neðsta lag jökulsins byrjar að fljóta sökum þess að þrýstingurinn frá efri lögunum ýtir og þrýstir á það, auk þess sem hann bræðir það. Þetta veldur því að jökullinn fer að hreyfast hægt og rólega, líkt og um sérlega seigfljótandi vökva væri að ræða.

 

Flestir jöklar hreyfast sem nemur 0,3 til 1 metra á dag og ógerlegt er að greina hreyfinguna með berum augum.

HVAÐA GERÐIR JÖKLA FINNAST?

Ísaldir ólu af sér jökla

Til eru þrjár megingerðir jökla:

 

 • Fjallajökla er að finna í fjalllendi.

 

 • Sjávarfallajökla er að finna við sjóinn þar sem sjávarföllin hrófla við ísnum og hafa í för með sér að það brotnar úr jöklunum.

 

 • Þriðja gerðin nefnist meginlandsjöklar en þeir hylja afar stór landsvæði á Grænlandi og Suðurskautslandinu.

 

Flestir jöklar eiga rætur að rekja til tveggja undanfarinna ísalda sem hófust fyrir annars vegar 2,5 milljón árum og hins vegar 100.000 árum.

 

Nokkrir jöklar í fjöllum mynduðust raunar milli áranna 1350 og 1850 á því sem nefnt hefur verið litla ísöld, þegar meðalhiti jarðar var 1,5 gráðum lægri en í dag.

 

Litla ísöldin myndaðist í kjölfarið á umtalsverðri fækkun svokallaðra sólbletta. Sólblettir eru stormar sem myndast á yfirborði sólar en þeir gefa frá sér mikið magn efnis frá yfirborði sólar sem hefur áhrif á hitastig lofthjúpsins og á sjálft yfirborðið.

 

Á meðan litla ísöldin geisaði stækkuðu jöklarnir í Sviss í svo miklum mæli að flytja þurfti heilu þorpin í burtu.

5 stórir jöklar víðs vegar um heim

Jöklar fyrirfinnast alls staðar í heimi. Hér eru fimm stærstu jöklarnir í fimm ólíkum heimshlutum.

 

 • Lambert Fisher á Suðurskautslandinu. Flatarmál: 70.610 km2

 

 • Vatnajökull. Flatarmál: 8.300 km2

 

 • Bering í Alaska. Flatarmál: 5.000 km2

 

 • Siachen, í Himalajafjöllum. Flatarmál: 2.500 km2

 

 • Jakobshavnsjökull á Grænlandi. Flatarmál: 110.000 km2

Lengsti jökull heims gengur undir heitinu Lambert-Fisher og hann er að finna á Suðurskautslandinu. Jökullinn er alls 400 kílómetrar að lengd og 100 km breiður.

 

Jafnvel í Afríku er hægt að standa andspænis jökli. Efst uppi á Kilimanjaro er að finna jökul sem er í raun leifar frá jökulhettunni sem eitt sinn var að finna á þessu hæsta fjalli Afríku.

 

Full ástæða er þó til að haska sér ef ætlunin er að berja jökulinn augum.

 

Frá október 1912 og þar til í júní 2011 hafa hartnær 85 hundraðshlutar af ísbreiðunni nefnilega bráðnað. Haldi þróunin áfram með sama hætti gera vísindamenn því skóna að jökullinn verði horfinn árið 2060.

 

Sama máli gegnir um Quelccaya í Andesfjöllum en hann er stærsti jökullinn í hitabeltinu. Álitið er að þessi 17 kílómetra langi jökull verði horfinn fyrir árið 2100 sökum loftlagsbreytinga.

Jöklar í mynd:

 

 

Hvers vegna er ísinn í jöklum blár? Hvernig myndast ísjakar? Og hversu stórir jöklar eru á Mars? Svörin eru hér.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

HVAÐA ÁHRIF HEFUR BRÁÐNUN JÖKLA?

Hopa fimmfalt hraðar í dag

Ár hvert hverfa 369 milljarðar tonna af snjó og ís af jöklum jarðar og þess má geta að þeir hopa nú fimmfalt hraðar en á sjöunda áratugnum. Þetta kemur fram í rannsóknum frá árinu 2019 sem birtar voru í tímaritinu Nature.

 

„Síðustu 30 árin hafa næstum allir jöklar heims minnkað á sama tíma og ástæðan er augljóslega hlýnun jarðar, sé litið til alls heimsins í heild“, segir aðalhvatamaður rannsóknarinnar, Michael Zemp, í viðtali við AP-fréttastofuna. Zemp er forstjóri jöklaeftirlitsstofnunarinnar við háskólann í Zurich.

 

Rannsóknirnar byggja á ljósmyndum sem teknar hafa verið af 19.000 jöklum víðs vegar um heim úr gervihnöttum.

 

Greiningar myndanna hafa leitt í ljós að jöklarnir hopa hraðast í Mið-Evrópu, Kákasusfjöllum, á Nýja-Sjálandi, í vesturhluta Kanada og Bandaríkjunum, auk svæða í grennd við hitabeltið. Að meðaltali hopar einn hundraðshluti jökla ár hvert.

 

MYNDSKEIÐ: Sjáðu hversu hratt jöklar hafa bráðnaða síðustu 48 árin:

Það er ekkert launungarmál að jöklar jarðar bráðna með gífurlegum hraða. En hvað gerist þegar þessi risaísmassi bráðnar? Jöklafræðingur Fairbanks háskólans í Alaska, Mark Fahnestock, birti þetta tilkomumikla ,,timelapse“ myndskeið, sem sýnir hálfrar aldar bráðnun á nokkrum mínútum. Myndskeiðið er samsett úr röð mynda frá gervihnöttum NASA sem hafa fylgst með jörðinni í áratugi. Myndskeiðið sýnir jökla og íshellur frá Alaska, Grænlandi og Suðurskautslandinu frá upphafi áttunda áratugarins til ársins 2019 og ljóst er að ísmassi hefur dregist saman á meirihluta þeirra svæða sem mælst hefur.

Leysingavatn frá jöklunum á sök á um 25-30 prósentum af árlegri hækkun heimshafanna. Þessi síaukna bráðnun gæti haft örlagaríkar afleiðingar á lífið á jörðu.

 

Þegar jöklar bráðna svo hratt sem raun ber vitni hækkar vatnshæð sjávar einnig til muna og til lengri tíma litið gæti skapast hætta á flóðum á tilteknum landsvæðum jarðar.

 

Þá leiðir bráðnun jökla jafnframt af sér gríðarstór stöðuvötn sem einnig stafar flóðahætta af. Ef marka má rannsókn frá árinu 2016 hafa flóð af völdum bráðnandi jökla dregið um 12.000 manns til dauða á heimsvísu. Mið-Asía er það landsvæði sem verst hefur orðið úti.

 

Þar sem ís endurkastar hluta af geislun sólar aftur út í himingeiminn stuðlar bráðnun gríðarstórra ísbreiðanna einnig að hraðari hnatthlýnun.

MYNDSKEIÐ: Hér má sjá íslenska jökulinn Ok hverfa:

BIRT: 04/08/2022

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock, ESA,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is