Lifandi Saga

Miðaldir: Drekar og rottur báru ábyrgð á barnauppeldi

Sögurnar um rottuveiðarann frá Hameln og Wilhelm Tell voru ekki einungis sagðar til skemmtunar. Þjóðsögur miðalda fólu í sér siðferði sem ætlað var að gera börn og fullorðna að betra fólki.

BIRT: 02/09/2023

Áður en streymisveitur nútímans komu til sögunnar voru góðir sagnamenn í hávegum hafðir. Á markaðsdögum miðalda og við önnur hátíðleg tækifæri komu fram trúbadorar og leikarar farandleikhúsa sem fluttu ævintýralegar frásagnir fyrir áhorfendur.

 

Meginefni þessara frásagna voru oftar en ekki hetjudáðir eða sorglegir viðburðir og átti sumt sér fyrirmyndir í veruleikanum. Sumt átti rætur að rekja til biblíunnar en flestar voru sögurnar uppspuni frá rótum.

 

Margar miðluðu einhvers konar siðferði og bentu á mikilvægi þess að hegða sér sómasamlega. Hér á eftir er að finna yfirlit yfir 10 uppbyggilegar sögur frá miðöldum

 

1. Sunnudagsstarfandi endaði á tunglinu

Miðaldasaga þessi byggir að öllum líkindum á enn eldri frásögn úr Mósebókum.

Karlinn í tunglinu: Frásögn frá 14. öld í Þýskalandi um mikilvægi þess að sækja kirkju.

 

Þjóðsagan: Einn sunnudagsmorgun gekk gamall skógarhöggsmaður út í skóg. Þegar hann hafði safnað saman nægilega mörgum greinum hélt hann heim á leið með byrði sína. Á heimleiðinni mætti hann herramanni sem klæddur var sínum bestu sparifötum. Herramaðurinn stoppaði hinn og spurði furðu lostinn:

 

„Veist þú ekki að það er sunnudagur á jörðinni og að allir eiga að taka hvíld frá störfum?“ Skógarhöggsmaðurinn svaraði borubrattur:

 

„Sunnudagur á jörðu eða mánudagur á himnum, það breytir engu fyrir mig!“ Þá reiddist spariklæddi maðurinn og hrópaði:

 

„Berðu þá byrðar þínar að eilífu. Þar sem þú virðir ei sunnudag á jörðu skaltu eiga eilífan mánudag á himnum. Þú skalt standa á tunglinu sem ógn öllum öðrum sem ekki virða helgidaginn“.

 

Að því búnu hvarf hann. Skyndilega lyftist skógarhöggsmaðurinn upp. Hann lenti á tunglinu og þar mun hann dvelja til eilífðarnóns.

 

Siðferði: Brjótið ekki í bága við kirkjunnar reglur.

 

2. Ókunnur flautari rændi þýskum börnum

Elsta varðveitta sagan um horfnu börnin í bænum Hameln á rætur að rekja aftur til ársins 1430, hér um bil.

Rottuveiðarinn frá Hameln: Saga þessi á rætur að rekja til 13.-15. aldar og sennilegt þykir að hún sé sprottin af raunverulegum atburði þar sem börn hafa horfið, þ.e. barnakrossferðinni árið 1212.

 

Þjóðsagan: Einhverju sinn geisaði mjög alvarleg rottuplága í bænum Hameln í Norður-Þýskalandi. Þegar neyðin var hvað mest kom til bæjarins rottuveiðari sem íbúarnir réðu tafarlaust til starfa. Ókunni maðurinn dró upp úr pússi sínu flautu sem hann blés í þrisvar og söfnuðust þá allar rottur bæjarins saman í kringum hann.

 

Síðan gekk hann út um borgarhliðið með rotturnar í halarófu á eftir sér. Hann leiddi rotturnar niður að á einni og þar drukknuðu þær. Þá neituðu íbúarnir í Hameln hins vegar að greiða uppsett gjald. Rottuveiðarinn sór þess að hefna sín grimmilega og um miðja nótt sneri hann aftur.

 

Börnin í bænum þyrptust saman og eltu hann út úr bænum. Hann leiddi þau að háum klettavegg sem gleypti börnin hvert af öðru.

 

Siðferði: Þú skalt standa við loforð þín.

 

3. Vilhjálmur Tell faldi aukalega ör fyrir harðstjórann

Lásboginn var hvað banvænastur allra vopna á miðöldum.

Vilhjálmur Tell: Svissnesku fylkin börðust fyrir sjálfstæði sínu og með frásögn þessari frá 15. öld eignuðust íbúarnir hetju sem þeir gátu sameinast um.

 

Þjóðsagan: Í svissneska bænum Altdorf bjó veiðimaður að nafni Vilhjálmur Tell sem óhlýðnaðist harðráðum fógeta konungsins. Fógetinn sýndi vald sitt með því að hengja hatt sinn á staur í bænum, þar sem öllum þeim er leið áttu fram hjá var ætlað að taka að ofan fyrir hattinum. Þetta neitaði Vilhjálmur að gera. Fyrir vikið var hann handtekinn og þvingaður til að skjóta epli af höfði sonar síns í 120 skrefa fjarlægð.

 

Vilhjálmur var óttasleginn þegar hann spennti lásbogann sinn en honum tókst að skjóta beint í eplið. Önnur ör stakkst fram úr ermi hans og þegar fógetinn spurði út í hana svaraði Vilhjálmur:

 

„Hefði örin deytt son minn var hin örin ætluð þér og sú ör hefði ekki misst marks“. Vilhjálmur Tell slapp síðan úr haldi og drap fógetann með lásboga sínum.

 

Siðferði: Hugrekki felst ekki í að lifa óttalaus, heldur að sigrast á óttanum.

 

4. Guðlastari hlaut stranga refsingu

Þjóðsagan kallaðist á þýsku „gyðingurinn eilífi“. Nasistarnir fengu heiti hennar að láni fyrir eina af áróðursmyndum sínum árið 1940.

Gyðingurinn eilífi: Frá 13. öld og allt fram á miðja 19. öld heyrðust sögur um fólk sem staðhæfði að það hefði hitt „gyðinginn eilífa“.

 

Þjóðsagan: Þegar Jesús bar þungan trékrossinn í átt að Golgatahæð, þar sem átti að krossfesta hann, varð hann örmagna og þurfti að hvíla sig. Þar sem hann stóð og reyndi að ná andanum hrópaði skósmiður einn af gyðingaættum, að nafni Cartaphilus, hæðnislega að honum:

 

„Gakk hraðar, Jesús! Gakk hraðar! Hvað ertu að gaufa?“

 

Jesús svaraði:

 

„Ég mun standa og hvíla mig þennan dag en þú munt eiga að ganga til síðasta dags“.

 

Þar með var Cartaphilus dæmdur til að ráfa um hvíldarlaus allt fram að dómsdegi. Hann reyndi í örvæntingu hvað eftir annað að taka líf sitt en englarnir stöðvuðu hann hverju sinni. Skósmiðurinn iðraðist og hóf að predika guðs orð á göngu sinni.

 

Siðferði: Hæðið aldrei aðra.

 

5. Bitur kirkjuleiðtogi ákallaði Satan

Biskupshúfan var eftirsótt og baráttan um hana gat laðað það versta fram í fólki.

Theófílos: Sagan frá 6. öld um hinn býsanska Theófílos var sennilega kveikjan að Fást eftir Goethe.

 

Þjóðsagan: Erkidjáknanum (varabiskup) Theófílos í Adana var eitt sinn boðið embætti biskups en hann hafnaði því frómur. Þess í stað hlaut annar maður upphefðina og dag einn heyrði hann ljótar sögusagnir um Theófílos. Erkidjákninn missti embættið án þess að til réttarhalda kæmi.

 

Þá reiddist Theófílos svo mjög að hann ákallaði Satan. Erkidjákninn skyldi fá embætti sitt aftur í skiptum fyrir sál sína, lofaði Satan og Theófílos undirritaði samkomulagið með blóði sínu.

 

Næsta dag barst honum afsökunarbeiðni frá biskupnum og hann hlaut embættið á nýjan leik. Brátt varð Theófílos hræddur um sálarheill sína og baðst fyrirgefningar. María mey birtist þá og skammaði hann en veitti honum síðan syndaaflausn. Næsta morgun vaknaði Theófílos með samninginn á bringunni og brenndi hann samstundis. Skömmu síðar varpaði hann öndinni léttar og lést.

 

Siðferði: Gerið aldrei samkomulag við ómerkilegt fólk með eigin hagsmuni í huga.

 

6. Kristinn stríðsmaður sneri heiðinni borg til kristinnar trúar

Heilagur Georg og drekinn: Sagan byggir á grískri goðafræði sem felur í sér söguna um Jason sem sigraðist á dreka til þess að geta haft með sér heim Gullna reyfið og Medeu prinsessu.

 

Þjóðsagan: Dreki einn sat um hina heiðnu borg Sílene í Líbýu. Dag hvern urðu íbúarnir að færa drekanum tvær kindur að fórn til þess að hann réðist ekki á þá. Brátt voru engin dýr eftir í borginni og farið var að fórna mannfólki.

 

Dag einn var dóttir konungsins valin með hlutkesti en til allrar hamingju kom riddari að nafni Georg til Sílene þennan sama dag. Þegar hann kom auga á prinsessuna fyrir framan drekann gerði hann krossmark og reið á fullri ferð til móts við skepnuna og barði hana niður.

 

Í skiptum fyrir að borgarbúar snerust til kristinnar trúar hálshjó Georg drekann.

 

Siðferði: Ekkert er ógerlegt þegar góður kristinn stríðsmaður á í hlut.

 

7. Blóð á trýninu dró trygglyndan hund til dauða

Sagan um Llywelyn af Wales og hundinn hans byggir á þjóðsögum annarra Evrópulanda.

Hundur að nafni Gelert: Sagan um prins í Wales á 13. öld byggir á fornri indverskri sögu um hindúaprest sem drepur trygglyndan hund sinn.

 

Þjóðsagan: Prinsinn Llywelyn af Wales átti trygglyndan hund sem kallaðist Gelert en hundurinn hvarf einn góðan veðurdag. Þegar Llywelyn sneri heim eftir veiðar mætti hann hundinum sem stökk í kæti upp á eiganda sinn. Trýnið á honum var hins vegar útatað blóði. Prinsinn hljóp inn í höllina til að aðgæta hvort nokkuð hefði hent nýfæddan son hans.

 

Í barnaherberginu lá vaggan á hliðinni og blóð þakti gólfið. Prinsinn ályktaði sem svo að hundurinn hefði étið son hans og brá sverði sínu.

 

Gelert gaf frá sér langdregið þjáningarýlfur þegar maðurinn drap hann og þá heyrðist skyndilega í grátandi smábarni. Á bak við vögguna lá sonur Llywelyns sprelllifandi og við hlið hans lá úlfur sem bitinn hafði verið á háls. Llywelyn gerði sér þá grein fyrir að Gelert hafði bjargað lífi sonarins. Prinsinn varð svo sakbitinn í kjölfarið að bros lék aldrei um varir hans eftir þetta.

 

Siðferði: Dragið aldrei ályktanir í skyndingu.

Rottur voru grimmileg refsing í mörgum miðaldasögum.

8. Illkvittinn biskup étinn af rottum

Hannó biskup: Margar sögur hafa verið sagðar af biskupum sem voru mjög valdamiklir á miðöldum.

 

Þjóðsagan: Árið 970 geisaði hungursneyð í þýsku borginni Mainz, jafnframt því sem kornbirgðir Hannós biskups jukust stöðugt. Bændur grátbáðu um mat en Hannó sá ekki aumur á þeim.

 

Þess í stað bauð hann þeim út í hlöðuna sína. Fátæklingar streymdu að hvaðanæva frá Mainz en biskupinn lét læsa hliðinu og brenndi þá alla inni. Þegar Hannó virti fyrir sér eldglærurnar mælti hann:

 

„Á þessum slæmu tímum mun landið þakka mér fyrir að losa það við rottur sem ekkert gera annað en að granda korninu“.

 

Næsta dag vaknaði biskupinn í svitakasti í rúmi sínu. Kötturinn hans hvæsti og þegar Hannó leit út um gluggann sá hann þúsundir af rottum nálgast höll hans í árásarham. Ekkert fékk haldið þeim undan og þær fylltu strax svefnherbergi hans. Biskupinn hvarf ofan í rottuhaf og aðeins beinin urðu eftir.

 

Siðferði: Syndarar fá það sem þeir verðskulda.

9. Riddaraævintýri með spennuívafi

Frásagnir af hetjudáðum riddaranna heilluðu alþýðuna, svo og kóngafólkið. Siðferðið fól það í sér að með kristinni trú og riddaraskap mætti sigrast á hverju sem var.

Lancelot: Skömmin er verst

Tælandi konur, varhugaverðir riddarar og brú úr sverðum, voru nokkrar af þeim áskorunum sem mættu riddaranum Artúri, konungi hringborðsins, þegar hann hugðist frelsa Guinevere drottningu. Það sem niðurlægði hann hvað mest var að þurfa að sitja í vagni dvergs eftir að hesturinn hans drapst.

Degrevant riddari: Hugrekki borgaði sig

Sagan um Degrevant riddara fjallar um stríðsmann sem verður ástfanginn af furstadóttur en faðir hennar bannar þeim að eigast. Í burtreiðum sem fóru fram bar Degrevant hins vegar sigur úr býtum gegn öllum og að lokum varð furstinn að láta undan og leyfa hjónaleysunum að ganga í hjónaband.

Don Kíkóti: Skopstæling markaði endalokin

Riddarasagnir nutu mikilla vinsælda svo öldum skipti en í upphafi 17. aldar hafði rithöfundurinn Miguel de Cervantes fengið sig fullsaddan af þeim. Í skáldsögu sinni „Don Kíkóti“ gerði hann stólpagrín að riddurum og öllu sem þeim tengdist. Í skopstælingunni á riddarasögum miðalda er Don Kíkóti meira að segja látinn ráðast á vindmyllu.

10. Eiginkonan yfirgaf svikarann

Melúsína var fegurri en flestar aðrar konur sex daga vikunnar. Á laugardögum breyttist hún hins vegar.

Melúsína: Algengasta útgáfa þjóðsögunnar á rætur að rekja til 14. aldar. Þar er aðalpersónan hinn fátæki aðalsmaður Raymond.

 

Þjóðsagan: Í skóginum hitti Raymond fagra vatnadís að nafni Melúsína. Hún lofaði að giftast honum með einu skilyrði: Hann mætti aldrei virða hana fyrir sér á laugardögum.

 

Unga fólkið gekk í hjónaband, þau eignuðust börn og stóra höll. Raymond stóð við sinn hluta af sáttmála þeirra hjóna, allt þar til bróðir hans fékk hann til að efast um hvað Melúsína hefði fyrir stafni á laugardögum.

 

Raymond lagðist í leyni og kíkti í gegnum skráargatið á hurð fyrir svefnherbergi eiginkonunnar. Þar sá hann hana fara í bað en í vatninu breyttust fætur hennar í hala, líkt og á vatnaskrímsli.

 

Raymond þagði yfir leyndarmálinu en þegar hjónin misstu einn sona sinna kallaði hann hana í bræði „ógeðfellda slöngu“. Hann iðraðist strax orða sinna en þá var það um seinan. Dísin vissi að hann hefði svikið loforð sitt. Hún hvarf og sást aldrei meir.

 

Siðferði: Standið við loforð ykkar.

Lestu meira um miðaldasögur

W. P. Gerritsen, A.G. van Melle & T.M. Guest: A Dictionary of Medieval Heroes, The Boydell Press, 1998

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: JÓNAS TERNEY ARASON

© JDawnInk/Getty Images,© loki11,© Fototeca Storica Nazionale./Getty Images,© E. Fuchs, Die Juden in der Karikatur, Albert Langen, Verlag, München, 1921,© Shutterstock,© Walters Art Museum,© Royal Collection,© Chris 73,© Apic/Getty Images, © www.history-ua.org/gallery/show.php, © Bridgeman Images, ,© Histoire de la Magie, P. Christian – Furne, Jouvet et Cie, Paris, 1870 p. 421

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

Menning

Saga kaffisins: Hinir syfjuðu loksins bænheyrðir

Lifandi Saga

Hervegir tengdu keisaradæmið saman 

Lifandi Saga

Barsmíðar og sektir Rómverja sköpuðu ósigrandi hersveitir

Lifandi Saga

Leynivopn Rómverja: Virkið var flutt meðferðis

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is