Þú kannast vafalaust við það hvernig dagleg notkun margra smáforrita í símanum étur svo mikla orku úr rafhlöðunni að síminn þarf að komast í rafmagnsinnstunguna eftir allt of stuttan tíma.
Þessi daglega hleðsla gæti þó bráðum heyrt sögunni til vegna nýrrar flögugerðar með allt annarri hönnun og öðruvísi rafrásum.
Þessi nýja hönnun er unnin hjá IBM og Samsung í sameiningu og framleiðendurnir segja reiknigetuna tvöfaldast en þess á milli má setja símann í mjög orkusparandi dvala. Þeir lofa því að rafhlaðan muni duga í viku í staðinn fyrir einn eða kannski tvo daga eins og nú er.
Nýja flagan fer í framleiðslu hjá Samsung og til að byrja með á að hana nota í netþjóna frá IBM.
Kynningarmyndband IBM og Samsung af nýja VTFET smáranum. 50 milljarðar smára eru á flögunni sem þó er minni en frímerki.
Algjörlega ný gerð af flögu
Þetta litla rafkraftaverk varð að veruleika í rannsóknastofum IBM, þegar mönnum tókst að raða hinum fíngerðu smárum hverjum ofan á annan.
Aðferðin fékk tækniheitið VTFET (Vertical Transport Field Effective Transistors) og öfugt við eldri gerðir þar sem smárunum er raðað hlið við er þeim nú raðað lóðrétt en með því móti má pakka þeim enn þéttar saman.
Hjá IBM hefur þannig tekist að pakka 50 milljörðum smára á VTFET-flögu sem er minni um sig en frímerki.
Auk þess að bæta örgjörvahraðann og spara straum mun þessi nýja tækni líka geta gjörbylt afköstum netþjóna í stórum tölvuskýjum sem nú afgreiða til okkar allt frá samfélagsmiðlum til efnis frá streymisveitum.
Um 30 milljarðar raftækja sem nú þegar tengjast netinu, svo sem sportúr, snjallperur eða snjallhátalarar munu til lengri tíma litið njóta góðs af VTFET-hönnuninni sem áætlað er að muni draga úr raforkunotkuninni um allt að 85%.
Lögmál Moores lýsir því hvernig reiknigeta og fjöldi smára á hverri flögu myndi tvöfaldast annað hvert ár.
Framlengir líf lögmáls Moors
Nýja hönnunin framlengir líka hið svonefnda lögmál Moores.
Verkfræðingurinn Gordon Moore hjá Intel spáði því árið 1965 að reiknigeta og fjöldi smára á hverri flögu myndi tvöfaldast annað hvert ár.
Árið 1975 endurskoðaði hann þessa spá sína og taldi nú að tvöföldunin myndi taka tvö ár.
í næstum hálfa öld frá upphafi tölvutækninnar hefur þetta lögmál staðist í meginatriðum allt til nútímans þegar orðið er tiltölulega einfalt að keyra nokkuð þung forrit í tölvum og símum.
Hefðu bílar þróast á sama hraða og tölvutæknin segja menn hjá Intel að bíll myndi nú kosta um 5 krónur, komast milljón km á einum lítra af bensíni og ná 500.000 km hraða.
Síðasta áratuginn hafa menn keppst við að dæma lögmál Moores úr leik, þar eð smárarnir eru orðnir svo fíngerðir og komnir niður í nanóstærð að það er ekki gerlegt að koma fleiri fyrir á hverri flögu.
Með nýju VTFET-tækninni eru nú horfur á að lögmál Moores muni gilda í mörg ár til viðbótar.