Meðal kappakstursáhugamanna hefur lengi ríkt áhugi á því hvað skipti mestu máli til að ná árangri í Formúlu 1. Nú hafa vísindamenn gengið í málið.
„Það hefur lengi verið nokkuð almennt álit að bíllinn og liðið standi fyrir um 80% af árangrinum en aðeins 20% séu undir ökuþórnum komin en við höfum nú komist að þeirri niðurstöðu að málið sé ekki svo einfalt. Samskipti bílstjórans og liðsins vega um 30-40% en afgangurinn ræðst af ýmsum þáttum í hverjum kappakstri fyrir sig,“ segir Duane Rockerbie, prófessor við Lethbrigdeháskóla í Kanada sem er aðalhöfundur niðurstöðugreinarinnar.
Ökuþórinn reyndist líka gera miklu meira en að bara koma bílnum alla leið yfir marklínuna – hann skilar líka til liðsins afar mikilvægum upplýsingum um bílinn. Framlag þeirra sem sitja undir stýri hefur þannig verið vanmetið.
Ekki beint samhengi
Rannsóknin byggði á árangri í Formúlu 1 á árunum 2012-2019. Fjárhagsaðstæður liðanna í Formúlu 1 reyndust einnig hafa mikla þýðingu.
Það lið sem hafði best fjárráð hafði jafnframt bestu aðstæðurnar til að ráða bestu bílstjórana og nota bestu efnin í bílasmíðina. Á hinn bóginn fannst ekki beint samhengi milli peningaeyðslu og árangurs.
En þeir bílstjórar sem komust að hjá bestu liðunum reyndust líka líklegastir til að ná góðum árangri.