Ný uppgötvun: Bakteríur í nefi geta valdið Alzheimer

Algeng baktería í nefi getur á nokkrum dögum komist upp í heilann og aukið hættuna á Alzheimer, segja vísindamenn nú. Þeir hyggjast hindra framrás bakteríunnar með bóluefni.

BIRT: 27/04/2022

LESTÍMI:

3 mínútur

Að minnsta kosti 55 milljónir manna á heimsvísu þjást af heilahrörnun. Algengasti heilahrörnunarsjúkdómurinn er Alzheimer og er nú sjöunda algengasta dánarorsökin.

 

Á síðustu árum hafa ýmsar rannsóknir sýnt að t.d. tannholdsbólgur og jafnvel veirusjúkdómar geta ráðist á heilafrumur og aukið hættuna á Alzheimer sem er sökudólgurinn í allt að 70% heilahrörnunartilvika.

 

Og nú sýnir  rannsókn frá árinu 2022 að bakteríur í nefi geta líka komist upp í heila og sett þar af stað þá eyðileggjandi keðjuverkun sem leiðir af sér þennan óhugnanlega sjúkdóm.

Árið 2019 uppgötvuðu vísindamenn að einföld tannholdsbólga geti verið orsök Alzheimers. Nú sýnir ný rannsókn að bakteríur í nefi geta líka verið í þessu hlutverki.

Bakteríur komast um taugarnar

Hinn nýfundni syndaselur er tiltölulega algeng klamydíu-baktería sem er þekkt fyrir að valda ýmsum öndunarfærasýkingum.

 

Stundum finna þessar bakteríur sér leið til heilans og í nýju rannsókninni kortlögðu vísindamennirnir þá leið sem bakteríurnar fóru frá slímhúð í nefi og inn fyrir trausta varnarveggi heilans.

 

Í músatilraunum tókst m.a. að greina hvernig bakterían C. pneumoniae færði sig á aðeins 72 tímum eftir taugaþráðum í nefi og upp í svonefnda lyktartaug í heilanum.

Á myndinni sést lyktartaug músar í smásjá. Bakterían Chlamydia pneumoniae (grænt) sýkir heilafrumur (blátt) og veldur uppsöfnun prótínsins beta amyloid (rautt).

Kleprar skaða taugafrumurnar

Frá lyktartauginni er frjáls aðgangur að heilafrumunum. Og það tók bakteríurnar ekki nema fáeina daga að valda miklum skaða.

 

Í rannsóknarstofunni sáu vísindamennirnir m.a. hvernig sérstakt prótín, kallað beta amyloid, límdist saman og myndaði klepra milli heilafrumna en einmitt það er einkennandi fyrir Alzheimer.

 

Einnig mátti fylgjast með því hvernig bakteríurnar fluttu sig frá lyktartauginni og réðust á svokallaðar tróðfrumur sem mynda eins konar stoðkerfi í heilanum.

 

Þessar stoðfrumur eru meira en helmingur af rúmmáli heilans og verja hann líka yfirleitt fyrir bakteríum. En ef tróðfrumurnar sjálfar sýkjast, t.d. af völdum C. pneumoniae, fara þær í raun að auðvelda bakteríunni að ráðast á og brjóta niður taugafrumurnar í heilanum.

Alzheimer eyðileggur heilann á tvo vegu

Kekkjamyndun í heila:

Sérstök prótín, beta-amyloid kleprast saman og mynda kekki milli heilafrumnanna. Kekkirnir nefnast „amyloid plaques“ og skaða heilavefinn.

 

Afmyndun: Prótínið tau sem er að lögun eins og þráður og virkar sem stoðkerfi heilafrumna, afmyndast og flækist saman við önnur tau-prótín. Þannig ónýtist hæfni frumnanna til að senda boð sín á milli.

Bóluefni eiga að minnka sköddun

Þótt rannsóknin hafi verið gerð á músum telja vísindamennirnir að niðurstöðurnar megi sem best heimfæra upp á mannsheila, þar eð taugafrumur heilans eru eins og geta líka orðið fyrir barðinu á sömu bakteríu.

 

Vísindamenn vinna þess vegna að ýmsum meðferðarúrræðum til að vinna bug á bakteríunni áður en hún nær að herja á allan heilann og draga mjög úr minnishæfni.

 

Einn möguleiki er sá að hjálpa tróðfrumunum að sigrast á bakteríunni með lyfjaefnum eftir að hún hefur komist í heilann.

 

Annan möguleika eru vísindamenn þegar teknir að þróa: Bóluefni gegn klamydíubakteríunni. Þannig mætti koma í veg fyrir að hún kæmist nokkru sinni lengra en í nefið.

BIRT: 27/04/2022

HÖFUNDUR: Nanna Vium

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock, © Griffith University, © National Institutes of Health / Wikimedia Commons

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is