Nýtt vatnsgel útrýmir lífseigum heilaæxlum

Vísindamönnum hefur tekist að þróa sérstakt vatnsgel – hlaup þar sem vatn er notað til að halda virkum efnum saman – sem getur unnið bug á tiltekinni gerð lífseigra krabbameinsæxla í heila. Reynist nýja aðferðin koma að notum aukast lífslíkur verulega.

BIRT: 03/09/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Með nýju vatnsgeli vonast vísindamenn til að geta læknað þá gerð heilaæxla sem kallast „gliablastoma“ en lífslíkur sjúklinga með þessi æxli hafa verið afar litlar.

 

Vatnsgelinu er sprautað beint í holrúmið sem myndast í skurðaðgerðinni þegar æxlið er fjarlægt.

 

Þetta hlaupkennda efni losar virk efni sem hjálpa líkamanum að takast á við þær krabbafrumur sem iðulega verða eftir í aðliggjandi vef.

 

Reynist þessi aðferð skila góðum árangri getur hún dregið úr þörf fyrir efnameðferð eða geislun eftir aðgerðina og mögulega mætti líka beita henni gegn öðrum erfiðum gerðum krabbameins, svo sem brjóstakrabba.

 

Erfitt að fjarlægja æxlin

Það sem einkum gerir þessi heilaæxli svo erfið viðfangs er að mönnum veitist mjög erfitt að fjarlægja þau í heilu lagi og mikil hætta á að krabbastofnfrumur leynist í heilavef í næsta nágrenni.

 

Í flestum tilvikum lætur krabbameinið aftur á sér kræla aðeins fáeinum mánuðum eftir skurðaðgerðina.

 

Eftir eitt ár eru einungis 25% sjúklinganna enn á lífi og eftir fimm ár er sú tala komin niður í 5%.

 

Útrýmir frumum sem eftir verða

Þegar holrúmið eftir æxlið hefur verið fyllt með hlaupi, tekur það smám saman að losa nanóeindir sem koma sér inn í tiltekna gerð átfrumna ónæmiskerfisins (macrophags) og breytir hegðun þeirra.

 

Þessar tilteknu ónæmisfrumur gegna almennt því hlutverki að útrýma sýkingum og bólgum. Þegar krabbamein er annars vegar, geta þær þó sýnt af sér aðra hegðun. Þær bæla þá ónæmiskerfið og örva vöxt krabbaæxlisins í stað þess að ráðast gegn því.

 

Þegar heilaæxli er fjarlægt með skurðaðgerð veldur aðgerðin bólgum og átfrumurnar streyma úr öllum áttum að skurðsvæðinu.

 

Einmitt þetta nýta nanóeindir úr vatnsgelinu. Segja má að þær endurforriti átfrumurnar þannig að þær halda nú ekki hlífiskildi yfir krabbameinsfrumum heldur ráðast gegn þeim.

 

Reyndist vel í músum

Nanóeindir úr hlaupinu leita markvisst að fjölsykruprótíninu CD133 sem er einkennandi fyrir krabbastofnfrumur. Jafnframt er í nanóeindunum sérstakt mótefni (CD47) sem slekkur á því gangverki sem fær átfrumurnar til að láta krabbafrumur í friði.

 

Nú þegar hafa músatilraunir sýnt að hlaupið getur komið átfrumum til að útrýma krabbastofnfrumum sem leynast enn í heilanum eftir aðgerðina og hefðu að öðrum kosti getað myndað ný æxli.

 

Næsta skref er svo að rannsaka hvort áhrifin séu þau sömu þegar menn eiga í hlut.

BIRT: 03/09/2022

HÖFUNDUR: BJØRN FALCK MADSEN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Wikimedia Commons

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu með áskrifandi að blaðinu?

Áskrifendur geta fengið áskrift af vefnum hér

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is