Örtæki fara beint í krabbaæxlið

Vísindamenn vilja nú beita efnameðferð inni í krabbafrumunum sjálfum og nota til þess örtæki í fisklíki, prentuð í fjórvídd.

BIRT: 24/08/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Hárlos, ógleði og mikil þreyta eru fylgifiskar efnameðferðar, enda verða heilbrigðar frumur líka fyrir áhrifum efnanna. Krabbasjúklingar fá því oft óþægilegar aukaverkanir.

 

En nú hafa vísindamenn hjá „American Chemical Society“ þróað örtæki sem geta skilað efnunum beint í krabbafrumurnar en látið heilbrigðar frumur í friði, þannig að sjúklingurinn kemst hjá aukaverkunum.

 

Örtækin eru úr vatnshlaupi og fjórvíð sem merkir að þau eru prentuð í þrívíddarprentara en geta til viðbótar breytt um lögun eða atferli við sérstakar aðstæður. Í þessu tilviki er tækið formað líkt og fiskur en hefur hæfni til að losa nanóagnir úr lyfjaefnum þegar það skynjar breytt pH-gildi við krabbafrumu.

Örtækin eru um 50 míkrómetrar að lengd. Það eru 0,05 millimetrar eða sem svarar helmingi af þykkt pappírsblaðs.

Áður en tækið er virkjað er það sett í upplausn sem gerir það segulmagnað. Vísindamennirnir geta síðan stýrt ferðinni gegnum æðarnar með seglum.

 

Þannig hefur tvennt áhrif á þessi örtæki; segulafl og pH-gildi.

 

Tilraunir hafa verið gerðar í petriskálum. Þar tókst að stýra tækinu gegnum sýndaræð og að hópi krabbafrumna sem voru drepnar með því að losa efnafarminn.

Hér sést örtæki í fiskformi fara um sýndaræð í petriskálinni.

Efnameðferð er samheiti yfir meðhöndlun með frumueitri til að vinna bug á krabbafrumum. Aðferðin var fyrst notuð eftir seinni heimsstyrjöld og nú eru um 50 mismunandi efnameðferðir notaðar við alls um 200 gerðum krabbameina.

 

Efnameðferð er áhrifarík en veldur því miður aukaverkunum. Þær stafa af því að efnunum er beint gegn frumum sem skipta sér hratt sem krabbafrumur gera einmitt.

 

En heilbrigðar frumur í slímhúðum, hárum og húð skipta sér líka hraðar en almennt gildir um frumur líkamans og efnameðferðin bitnar því einnig á þeim.

Vísindamenn hafa þróað þrjú örtæki

Hin fjórvíddarprentuðu örtæki hafa lögun fisks, krabba og fiðrildis.

Krabbi
Fiðrildi
Fiskur

Við tilraunirnar voru notuð þrjú örtæki, eitt með fisklögun, annað í laginu eins og krabbi og það þriðja líktist fiðrildi. Hvert tæki notaði sína aðferð til að halda nanóörðunum og voru öll um 50 míkrómetrar að lengd. Það eru 0,05 millimetrar eða sem svarar þykkt pappírsblaðs.

 

Vísindamennirnir leggja áherslu á að þótt tilraunin hafi gengið að óskum þarf að smækka tækin enn meira til að þau verði nothæf í æðum mannslíkamans í framtíðinni.

BIRT: 24/08/2022

HÖFUNDUR: Denis Rivin

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © American Chemical Society,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.