Lifandi Saga

Osama bin Laden lýsir yfir heilögu stríði gegn BNA

Osama bin Laden hefði getað lifað í vellystingum en hann kaus þess í stað að heiðra minningu föður síns með því að berjast gegn „óvinum íslams“, sama hvað á bjátaði.

BIRT: 09/03/2023

Hartnær tveggja metra hár, grannvaxinn maður gengur stillilega um meðal særðra sjúklinga á sjúkrahúsinu í Peshawar í Pakistan. Þetta var árið 1983 og særðu mujahedin-stríðsmennirnir höfðu verið í bardaga gegn Rússum. Fullir þakklætis taka þeir við súkkulaði, hnetum og ávísunum frá gestinum sem gengur undir nafninu „miskunnsami Samverjinn“ eða „Sáda-prinsinn“.

 

Maðurinn líkist engan veginn prins í fábrotnum, hvítum kufli sínum með dökkt, sítt alskegg. Hann ber sig heldur ekki eins og prins, heldur lítur álútur niður í gólfið og mælir lágri röddu á meðan hann réttir hverjum og einum gjafirnar ljúfmannlega.

„Við hin stálum oft nesti hvers annars okkur til skemmtunar eða svindluðum í verkefnum, en Osama gerði það aldrei. Hann svindlaði ekki og það var alltaf hægt að treysta honum”.

Gamall skólabróðir Osama bin Laden.

Þessi feimni ungi maður hafði yfirgefið fjölskyldu sína, auðævin og vellystingarnar í heimalandi sínu, Sádi-Arabíu, í því skyni að styðja við bakið á íslömskum hryðjuverkahópum í Afganistan. Ungi maðurinn hafði allt fram til þessa staðið í skugga eldri hálfbræðra sinnar en nú fýsti Osama bin Laden að gera sig gildandi og verja heiður fjölskyldunnar. Hann hugðist berjast gegn trúleysingjum og þessi bráðgeri sádíski drengur var tilbúinn undir það að lýsa stórveldum heimsins stríð á hendur og enda líf sitt sem eftirlýstasti hryðjuverkamaður heims.

 

Faðirinn lagði grunn að auðævunum

Einni kynslóð áður hleypti annar ungur bin Laden heimdraganum, ekki síður ákveðinn í að standa sig í lífinu. Mohammed bin Laden sem síðar meir átti eftir að eignast soninn Osama, hafði alist upp í leirþöktum kofa í hinu fátæka ríki Jemen. Hann var hvorki læs né skrifandi en vel greindur piltur með heillandi framkomu sem kunni að byggja hús.

„Mig langar að verða eins og faðir minn. Ég vil vinna nótt sem nýtan dag, án þess að unna mér hvíldar“.

Osama bin Laden

Mohammed settist að í Sádi-Arabíu og setti á laggirnar múrarafyrirtæki. Dag nokkurn lenti hann fyrir tilviljun á spjalli við voldugasta mann landsins, konunginn sem réði fyrirtæki Mohammeds bin Laden í öll stærstu byggingarverkefnin í Sádi-Arabíu.

 

Osama var 17. sonur múrarans

Næstu tæp 70 árin óx höfuðborg Sádi-Arabíu, Riyadh, frá því að ná yfir 8 ferkílómetra svæði yfir í það að verða alls 1.600 ferkílómetrar á stærð. Verktakafyrirtækið Saudi Binladin Group hafði byggt upp mestalla borgina en þetta var einmitt fyrirtækið sem Mohammed bin Laden á sínum tíma lagði grunn að og starfsemi þess hafði fært fjölskyldunni svo mikil auðævi að hún var nú sú næstríkasta í landinu, næst á eftir konungsfjölskyldunni.

 

Þegar Mohammed bin Laden efnaðist kvæntist hann aftur. Og enn og aftur. Hann eignaðist alls 22 eiginkonur, þó ekki allar í einu, því samkvæmt íslömskum lögum má hver maður einungis eiga fjórar eiginkonur í einu. Fyrir vikið skildi hann reglulega við eiginkonur sínar og skipulagði ný hjónabönd fyrir þær.

 

Eiginkonurnar eignuðust samtals 54 börn. Vinsæll brandari gekk út á það að Mohammed gæti ekki munað nöfn allra barnanna, heldur einungis elstu sonanna.

Sem barn stundaði Osama trú sína af mikilli skyldurækni. Iðjusemi hans og trúrækni gerðu hann síðar meir að mest ógnvekjandi hryðjuverkaleiðtoga heims.

Árið 1956 gekk fimmtugur ættfaðirinn að eiga fallega 22 ára gamla sýrlenska stúlku að nafni A’Alia Ghanem. Ári síðar ól hún honum 17. son hans, Osama. Alia var af fátæku fólki komin og tilheyrði ekki göfugri fjölskyldu. Mohammed skildi meira að segja brátt við hana. Fyrir vikið naut hún ekki mikillar virðingar í stórfjölskyldunni þó svo að hún um tíma byggi í höll tilheyrandi Mohammed og að hann sæi henni farborða líkt og hinum konunum.

 

Lág virðingarstaða móðurinnar einkenndi einnig Osama. Hinir bræðurnir gerðu gys að móður hans, kölluðu hann „þrælsson“ og hann átti enga leikfélaga.

 

Ástandið lagaðist síður en svo þegar móðirin gekk í hjónaband öðru sinni og eignaðist börn með nýja eiginmanninum. Osama flutti með móður sinni en þó svo að stjúpinn reyndist honum vel átti drengurinn engu að síður erfitt uppdráttar. Hann naut lítillar virðingar á nýja heimilinu sem hálfbróðir og barn úr fyrra hjónabandi en var á hinn bóginn jafnframt erfingi að hluta af auðævum Mohammeds bin Laden en auður hans nam mörgum milljörðum.

 

Bruce Lee varð átrúnargoðið

Osama var kyrrlátur og feiminn drengur. Hann var hlýðinn, hjálplegur og mjög náinn móður sinni. Einn nágranna fjölskyldunnar lýsti því seinna hvernig drengurinn sem barn og unglingur hafi notið þess að liggja við fætur móður sinnar og gæla við þá.

 

„Osama vildi ekki leggjast til svefns ef hann hafði hugmynd um að Alia væri hnuggin eða döpur“, sagði nágranni hans, Khaled Batarfi.

 

Samband hans við föðurinn var hins vegar formfastara, enda hittust þeir sjaldan. Mohammed bin Laden safnaði öðru hvoru öllum börnum sínum í kringum sig til að hlýða þeim yfir í fræðum Kóransins, ellegar hann valdi drengi úr strákahópnum sem hann fór með á byggingarsvæðin til að segja þeim frá framkvæmdunum. Gamall skólafélagi Osama, Jamal Khalifa, sagði drenginn hafa litið mikið upp til föður síns:

 

„Osama varði ekki miklum tíma með föður sínum en heyrði aftur á móti aðra tala um hann og fékk þá hugmynd að faðirinn væri ekki þess konar leiðtogi sem situr við skrifborð og gefur skipanir“.

Ég er sannfærður um að fjölmiðlar skipta sköpum í útbreiðslu íslamska málstaðarins“.

Osama Bin Laden 1989

 

Mohammed bin Laden tók sjálfur þátt í erfiðisvinnunni úti í sjóðheitri eyðimörkinni. Þannig maður vildi sonur hans einnig verða.

 

Önnur af hetjum Osama bin Ladens úr barnæsku var amerísk-kínverski spennumyndaleikarinn Bruce Lee. Drengurinn vissi ekkert skemmtilegra en að horfa á sjónvarp og auk „kung-fu“ myndanna heillaðist hann einnig af kúrekamyndum. Þegar hann eyddi frídögum hjá móðurfólkinu sínu úti á landi lagði hann stund á útreiðar, sund og veiðar.

 

Þegar Osama var u.þ.b. tíu ára að aldri var hann sendur í heimavistarskóla, þar sem nokkrir af bræðrum hans stunduðu einnig nám. Hann var einmana og saknaði móður sinnar og ástandið átti einungis eftir að versna.

 

Flugvél Mohammeds hrapaði

Dag nokkurn í september árið 1967 var Mohammed bin Laden á leið í 23. brúðkaupið sitt í lítilli einkaflugvél. Hann komst aldrei svo langt, því vélin hrapaði og aðeins rándýrt armbandsúrið gaf til kynna brenndar líkamsleifar mannsins.

 

Æðsti maður fjölskyldunnar, elsti sonurinn Salem bin Laden, heimsótti yngri bræður sína í heimavistarskólann. Skólastjórinn, Emile Sawaya, telur hann ekki hafa þekkt bræður sína fyrir:

 

„Það furðulega var að við neyddumst til að kynna bræðurna fyrir hver öðrum. Þeir yngri kysstu hendur Salems“.

Árið 2013 þénaði Saudi Binladin Group m.a. þrjá milljarða Bandaríkjadala á uppbyggingu í Mekka.

Alls 54 börn erfðu mikil auðævi þegar faðir þeirra lést

Synir og dætur Mohammeds bin Laden erfðu gífurleg auðævi eftir framkvæmdaglaðan föðurinn. Peningunum var m.a. varið í kaup á hraðskreiðum bifreiðum og einkaflugvélum.

 

Þegar Mohammed bin Laden lést árið 1967, erfðu 54 barna hans hlut í fjölskyldufyrirtækinu. Synirnir erfðu hver u.þ.b. tvö prósent af hlutabréfum fyrirtækisins en hver dóttir fékk eitt prósent í sinn hlut. Þetta samsvaraði engu að síður tugmilljónum króna.

 

Fyrirtækisfénu var varið í kaup á risavöxnum byggingarreitum og óhemjustórum einbýlishúsum víðs vegar um heiminn. Systkinahópurinn festi enn fremur kaup á alls níu einkaflugvélum fyrir fyrirtækið, Saudi Binladin Group, m.a. þotu af gerðinni Gulfstream IV sem kostaði 25 milljónir Bandaríkjadala. Í öllum flugvélunum var full flugáhöfn sem samanstóð af flugstjórum og flugfreyjum sem tóku á móti farþegunum niðri á flugbrautinni. Fyrirtækið hélt áfram að græða á tá og fingri og ár hvert var greiddur arður til hluteigendanna sem gerði það að verkum að ekkert þeirra þurfti að stunda launaða atvinnu.

 

Bróðir Osamas, Ibrahim, hafði m.a. fest kaup á tveimur Rolls-Royce bifreiðum. Honum var svo annt um bifreiðarnar að það mátti ekki aka þeim í rigningu. Í slæmu veðri tók hann fyrir bragðið Mercedes Benz bifreið á leigu fyrir 350 Bandaríkjadali á dag.

Eftir andlát föðurins varð Osama enn þöglari og feimnari en fyrr. Ári síðar gafst hann upp á heimavistarskólanum og flutti aftur til móður sinnar. Hvort um var að ræða heimþrá, sorg eða eitthvað annað er ekki gott að vita en skólastjórinn hefur seinna sagt svo frá að Osama hafi spjarað sig vel í skólanum og verið góður námsmaður.

 

Hann var næst skráður í eftirsóttan einkaskóla fyrir drengi, Al Thaghr, þar sem nemendurnir gengu í skólabúningum. Þar spjaraði hann sig ljómandi vel og fékk meðalgóðar einkunnir.

 

„Osama hélt sig út af fyrir sig og var mjög alvörugefinn og heiðarlegur. Við hinir stálum oft nestispökkum hver frá öðrum í gamni eða svindluðum á verkefnum en það gerði Osama aldrei. Hann sveikst aldrei undan og honum var fullkomlega treystandi, sagði gamall skólabróðir hans.

 

Skólafríum varið í Evrópu

Osama ferðaðist stöðugt á milli tveggja tilverustiga sem unglingur. Hluta tímans var hann ævintýragjarn og forvitinn drengur sem ferðaðist til Evrópu með fjölskyldu sinni í skólafríum, horfði á amerískar bíómyndir og lék fótbolta. Þar fyrir utan var hann alvörugefinn og óframfærinn piltur sem leitaði sífellt meira á vit trúarinnar, boðaði trúna fyrir öðrum og krafðist þess að skólafélagarnir léku fótbolta í síðbuxum, auk þess sem hann lagði áherslu á að piltar og stúlkur skyldu höfð aðskilin.

Öll bin Laden fjölskyldan fór saman í sumarfrí árið 1971 til Svíþjóðar. Sagnfræðinga greinir á um hvort ungi maðurinn nr. tvö frá hægri geti hafa verið Osama bin Laden.

Sögusagnir herma að hann hafi farið til Beirút í Líbanon og slett úr klaufunum þar líkt og aðrir synir ríka fólksins sem drukku sig fulla, stunduðu spilavítin og leituðu uppi vændiskonur. Að öllum líkindum eiga þessar sögusagnir frekar við um bræður Osamas en hann sjálfan, því eini lösturinn sem hann að lokum leyfði sér var að aka hratt í dýrum bílum. Hann hafði nefnilega, eins og vinir hans orðuðu það, fengið trúarlega köllun og einkum einn tiltekinn maður átti eftir að hafa gífurleg áhrif á þennan unga, áhrifagjarna pilt.

 

Íslam og fótbolti í stundatöflunni

Þegar Osama var í 8. bekk bauð íþróttakennari hans honum að taka þátt í trúarlegum leshring sem kom saman þegar skóla lauk á daginn. Kennarinn var ungur, gáskafullur og vinsæll meðal skólapiltanna en jafnframt meðlimur strangtrúaðrar trúarhreyfingar sem kallaðist „Múslímska bræðralagið“.

 

Annar nemandi hefur sagt svo frá að drengirnir í hópnum hafi fyrst átt að lesa í Kóraninum og leika síðan fótbolta saman. Þegar frá leið fengu drengirnir þó sífellt meiri áhuga á trúarlegu fræðunum og sá sem sagði frá þessu var í lokin farinn að spila fótbolta við sjálfan sig.

 

Þegar lestri Kóransins lauk tók við lærdómur um líf spámannsins Múhameðs og frásagnir kennarans. Kennarinn safnaði drengjunum í kringum sig á gólfinu og kveikti á kerti. Sögur hans gátu verið einkar svakalegar, sagði nemandinn sem heldur vildi leika fótbolta.

Hinum trúlausu skyldi snúið friðsamlega til réttrar trúar. Ef þeir þáðu ekki trúskipti skyldu þeir drepnir í heilögu stríði.

Róttæk íslamstrú mótaði óvin Vesturlanda

Bin Laden-fjölskyldan tilheyrði sérstökum heittrúuðum væng íslamstrúar. Osama hafði fyrir vikið frá blautu barnsbeini hlýtt á boðskap sem ól á hatri hans til Vesturlanda.

 

Hinn ungi Osama hlaut fyrsta lærdóm sinn um trúna frá föður sínum. Trú föðurins einkenndist af sérlega strangri hugmyndafræði innan íslamskrar bókstafstrúar sem kallaðist wahabismi.

 

Söfnuðurinn trúði alfarið á Kóraninn og Hadith-ritin (sagnir um líf Múhameðs spámanns) og töldu að lifa bæri lífinu í algeru samræmi við rit þessi.

 

Fylgjendum þessarar stefnu er gert að lifa einkar fábreytilegu meinlætalífi og helsta markmiðið með lífi þeirra er að breiða út boðskap íslamstrúar og að þéna guði sínum, Alla. Muhammad ibn Abd al Wahhab lagði grunninn að wahabisma á 18. öld. Hann bannaði m.a. tilbeiðslu allra dýrlinga en dýrlingatrú hafði verið afar mikilvægur hluti af íslamstrú til þessa. Hreyfingin óx og breiddist fljótt út á stórum hluta Arabíuskagans, þar sem nú heitir Sádi-Arabía.

 

Mikilvægur þáttur í wahabisma nútímans er að útrýma beri öllum áhrifum í samfélaginu sem ekki eigi sér stoðir í íslam. Fylgjendur trúarhreyfingarinnar eru þeirrar skoðunar að allir aðrir en wahabistar, meira að segja aðrir múslímar, muni enda í helvíti þegar þeir deyja.

Kennarinn á m.a. eitt sinn að hafa sagt frá dreng sem hafði fundið Guð. Þegar drengurinn hugðist fara með bænirnar dró faðirinn ætíð bænateppið undan honum. Þessi hugrakki drengur, líkt og kennarinn sagði hann vera, fann að lokum skammbyssu föður síns, hlóð hana og skaut pabbann.

 

„Guði sé lof! Íslam losnaði úr áþján“, hafði svo kennarinn sagt í lok frásagnarinnar. Fótboltastrákurinn gekk leiðar sinnar og kom aldrei aftur í leshringinn. Osama sat sem fastast.

 

Osama kvæntist fyrir kynlíf

Líkt og flestir aðrir unglingspiltar hafði bin Laden áhuga á stúlkum og kynlífi. Strangar reglurnar bönnuðu honum hins vegar að gera nokkuð í málinu. Eini möguleikinn var að ganga í hjónaband, svo það gerði hann.

 

Þegar Osama var 18 ára gamall bað hann 14 ára gamallar frænku sinnar, að nafni Najwa Ghanem. Hann bar bónorðið raunar upp við fjölskyldu stúlkunnar sem játaðist honum. Stúlkan varð fljótt ófrísk og fæddi honum soninn Abdallah.

 

Eiginmaðurinn nýbakaði hóf að nema hagfræði við háskólann. Flestir bræðra hans fóru til Evrópu eða Ameríku til að stunda nám en Osama valdi að dvelja áfram í Sádi-Arabíu. Hann hafði hins vegar lítinn áhuga á náminu og kaus frekar að verja tíma sínum í störf við fjölskyldufyrirtækið.

 

„Mig langar að verða eins og faðir minn. Ég vil vinna nótt sem nýtan dag, án þess að unna mér hvíldar“, sagði hann.

 

Árið 1978 leyfðu bræður hans honum loks að taka til starfa í fyrirtækinu og létu honum eftir verkefni sem fyrirtækið vann að í grennd við Mekka. Hann átti að jafna út hæðir í því skyni að unnt yrði að reisa hótel og leggja vegi. Osama vann hörðum höndum í fyrirtækinu og hætti að lokum í háskólanum.

,,Ég var aldrei hræddur við að deyja”.

Osama bin Laden um stríðið við Rússa í Afganistan.

Margvíslegir atburðir á sviði stjórnmála höfðu stuðlað að stofnun nýrrar trúarhreyfingar í Sádi-Arabíu og blásið nýju lífi í trúaráhuga Osama. Hann taldi borgarastyrjöldina í Líbanon vera refsingu guðs yfir hinu syndsamlega líferni sem stundað var í Beirút. Launmorðingi myrti Faysal, konung Sádi-Arabíu en morðinginn var ungur frændi konungsins sem var veikur á geði og hafði varið mörgum árum í Bandaríkjunum og fyrir vikið orðinn „vestrænn“ í augum Osama.

 

Egyptar gerðu friðarsamkomulag við erkióvini sína Ísraelsmenn sem olli miklum taugatitringi og undrun um gjörvallan múslímaheim. Í nóvember 1979 mótmæltu herskáir íslamistar sádísku ríkisstjórninni sem uppreisnarseggirnir töldu horfa allt of mikið í vesturátt.

 

„Þetta eru sannir múslímar“, sagði Osama við vin sinn og varð miður sín þegar vopnaðir hermenn konungsins gerðu gagnárás gegn mótmælendunum í Mekka.

 

Hinn 26. desember þetta ár réðust Sovétríkin inn í Afganistan. Þetta reyndist hinum 22 ára gamla Osama bin Laden ofraun.

 

Nýr vakningarsinni, Abdallah Azzam, hafði kynnt fyrir honum jihad en um var að ræða heilagt stríð gegn þeim vantrúuðu. Þá minntist Osama þess jafnframt að hafa eitt sinn heyrt föður sinn segja við vin sinn að hann myndi verða hamingjusamur „ef bara einn sona minna verði lífi sínu í að berjast gegn óvinum Alla“.

 

Osama bin Laden hafði nú fundið köllun sína.

Al-Qaeda grófu holur

Meðan á stríðinu við Rússa stóð og síðar meir Bandaríkjamenn, voru Osama bin Laden og bandamenn hans langtum verr vopnaðir en andstæðingarnir. Fyrir bragðið stunduðu þeir skæruhernað og staðsettu herstöðvar sínar neðanjarðar. Stöðvarnar voru þannig úr garði gerðar að auðvelt reyndist að verja þær.

Talstöðvarherbergi tryggði samskipti

Þökk sé fjarskiptabúnaði gátu al-Qaeda sveitirnar verið í beinum samskiptum við aðra hryðjuverkahópa, hermenn, svo og bandamenn sína.

Stjórnstöðin var hjarta neðanjarðarganganna

Í þessu rými tóku hryðjuverkaleiðtogarnir ákvarðanir um það hvernig heyja skyldi stríðið gegn innrásarveldinu.

Inngangurinn gegndi hlutverki dauðagildru

Torvelt reyndist að koma auga á opið því það var hulið neti í felulitum. Varðmenn gættu inngangsins dag og nótt og svæðið umhverfis var þéttriðið jarðsprengjum.

Íverustaði mátti nota fyrir trúarlegan lærdóm

Þarna gátu hryðjuverkamennirnir varið frítímanum í að slaka á eða í lestur á Kóraninum og íslömskum kennisetningum.

Ökutæki voru tilbúin

Í stærstu holunum gátu hryðjuverkamennirnir falið ökutæki sem gerðu þeim kleift að yfirgefa búðirnar á skjótan máta.

Púður og byssuskot voru varðveitt neðanjarðar

Falin vopn og skotfæri tryggðu að stríðsmennirnir gátu ráðið við umsátur.

Loftræstiop gegndu hlutverki flóttaleiða

Auk þess að sjá hermönnunum fyrir fersku lofti var loftræstikerfið jafnframt hannað með það fyrir augum að skapa flóttaleiðir.

Al-Qaeda grófu holur

Meðan á stríðinu við Rússa stóð og síðar meir Bandaríkjamenn, voru Osama bin Laden og bandamenn hans langtum verr vopnaðir en andstæðingarnir. Fyrir bragðið stunduðu þeir skæruhernað og staðsettu herstöðvar sínar neðanjarðar. Stöðvarnar voru þannig úr garði gerðar að auðvelt reyndist að verja þær.

Inngangurinn gegndi hlutverki dauðagildru

Torvelt reyndist að koma auga á opið því það var hulið neti í felulitum. Varðmenn gættu inngangsins dag og nótt og svæðið umhverfis var þéttriðið jarðsprengjum.

Talstöðvarherbergi tryggði samskipti

Þökk sé fjarskiptabúnaði gátu al-Qaeda sveitirnar verið í beinum samskiptum við aðra hryðjuverkahópa, hermenn, svo og bandamenn sína.

Stjórnstöðin var hjarta neðanjarðarganganna

Í þessu rými tóku hryðjuverkaleiðtogarnir ákvarðanir um það hvernig heyja skyldi stríðið gegn innrásarveldinu.

Íverustaði mátti nota fyrir trúarlegan lærdóm

Þarna gátu hryðjuverkamennirnir varið frítímanum í að slaka á eða í lestur á Kóraninum og íslömskum kennisetningum.

Ökutæki voru tilbúin

Í stærstu holunum gátu hryðjuverkamennirnir falið ökutæki sem gerðu þeim kleift að yfirgefa búðirnar á skjótan máta.

Púður og byssuskot voru varðveitt neðanjarðar

Falin vopn og skotfæri tryggðu að stríðsmennirnir gátu ráðið við umsátur.

Loftræstiop gegndu hlutverki flóttaleiða

Auk þess að sjá hermönnunum fyrir fersku lofti var loftræstikerfið jafnframt hannað með það fyrir augum að skapa flóttaleiðir.

Efnaðir Sádar fjármögnuðu stríðið

Örfáum dögum eftir innrásina fór Osama til Peshawar í Pakistan sem er rétt við landamærin að Afganistan. Mujahedin-stríðsmennirnir börðust ötullega gegn innrásarhernum en skorti hins vegar bæði fjármuni, útbúnað og vopn. Auðkýfingssonurinn gerði sér strax grein fyrir með hvaða móti hann gæti best rétt fram hjálparhönd, þ.e. með því að verja fé í stríðsreksturinn og færa sér í nyt góð sambönd sín við áhrifamikla aðila.

 

Osama bin Laden hafði sjálfur yfir að ráða því sem samsvaraði um 40 milljörðum íslenskra króna sem hann hafði fengið í arf eftir föður sinn. Þess má einnig geta að hann ferðaðist um til efnaðra múslímskra vina fjölskyldunnar í Sádi-Arabíu í því skyni að afla aukinna fjármuna fyrir baráttuna.

 

Peningarnir streymdu inn. Auk þess að kaupa vopn eyddi hann fé í að reisa búðir fyrir flóttamenn og særða hermenn í Pakistan, auk þess að setja á laggirnar æfingabúðir og neðanjarðarherstöðvar í sjálfu Afganistan. Hann stjórnaði iðulega sjálfur stórum gröfum þegar grafnar voru skotgrafir við víglínuna.

Þegar Sovétmenn réðust inn í Afganistan sinnti Osama bin Laden framan af almannatengslum og söfnun fjár. Það var svo ekki fyrr en árið 1986 sem hann fór að berjast með hersveitum sínum.

Osama hlaut sína eiginlegu eldskírn í bardaganum við Jalalabad árið 1987, þegar hann stóð andspænis Rússum á vígvellinum í fyrsta sinn. Síðar þetta sama ár tók hann þátt í orrustunni við Jaji. Og þar hefði saga Osama bin Ladens hæglega getað endað.

 

„120 mm sprengjuvarpa lenti beint fyrir framan mig“, sagði hann síðar meir. Á þeirri stundu var Sádinn viss um að nú væri komið að endalokunum. Sprengjan sprakk hins vegar ekki.

 

„Ég óttaðist aldrei dauðann“, staðhæfði hann sjö árum síðar í viðtali um atburðinn.

 

Öfgafullur múslíminn var öðru fremur pirraður á að hafa glatað tækifærinu til að láta lífið í bardaga og vera gerður að píslarvotti. Ári síðar eignaðist Osama rússneskan hríðskotariffil sem varð að einkennismerki hans upp frá því. Hann sagðist sjálfur hafa tekið riffilinn af rússneskum hershöfðingja í Spetsnaz-sérsveitunum. Hershöfðinginn hafði látist í bardaga sem hermenn Osamas höfðu haft betur í.

LESTU EINNIG

Stríðshetjan sneri aftur heim til Sádi-Arabíu

Árið 1988 varð ljóst að nú sæi brátt fyrir endann á stríðinu við Sovétmenn. Osama sem var 31 árs gamall þegar þarna var komið sögu, var þó sannfærður um að enn væri þörf fyrir hann í stríðinu gegn óvinum Íslams. Hann kom því á fót al-Qaeda samtökunum en orðið al-Qaeda táknar „herstöð“ á arabísku. Tilgangur samtakanna var að gegna hlutverki hernaðarsinnaðs aðgerðarhóps sem haldið gæti áfram að berja á fjandmönnum múslíma um gjörvallan heim.

 

Þetta leiddi til uppgjörs við fyrrum lærimeistara hans, Abdallah Azzam. Osama vildi einblína á hnattrænt uppgjör en Azzam hafði hins vegar meiri áhuga á svæðisbundnum átökum í Mið-Austurlöndum. Ári síðar lést lærifaðirinn á einkar voveiflegan hátt í bílslysi ásamt tveimur sonum sínum.

 

Meðan á þessu stóð hélt Osama áfram að byggja upp og styrkja al-Qaeda samtökin af kappi; m.a. betrumbætti hann æfingabúðirnar í Afganistan og lagði grunn að nýjum. Í búðum þessum voru ungir herskáir múslímar sem hötuðu allt vestrænt, þjálfaðir fyrir bardaga og hryðjuverk. Osama hafði sjálfur fengið „þjálfun í að handfjatla sprengiefni í því skyni að sprengja upp fjöll“, líkt og hann sjálfur orðaði það.

Allan níunda áratug 20. aldarinnar sá leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, Osama bin Laden og mujahedin-stríðsmönnum hans fyrir loftvarnabyssum á borð við Stinger-flugskeyti.

Eina krafan sem gerð var til meðlima al-Qaeda var að þeir væru rétttrúaðir múslímar, samkvæmt skoðun Osama.

 

„Við viljum ekki mismuna meðlimum okkar út frá kynþætti eða húðlit. Við störfum með fólki sem ber lotningu fyrir guði og hefur yfir að ráða réttlætiskennd“, lýsti hann yfir.

 

Samtökin hvíldu á fjórum stoðum: Hernaðarlegum, stjórnarfarslegum, trúarlegum og samskiptalegum. Osama taldi síðastnefnda þáttinn ekki hvað síst vera mikilvægan eða eins og hann sagði árið 1989:

 

„Ég er sannfærður um að fjölmiðlarnir skipta meginmáli í útbreiðslu íslamska málstaðarins“.

 

Hann hóf því að gefa út tímaritið „Al Jihad“ sem komið var í dreifingu um mestallan heim, birti nýliðunarmyndbönd, auk ógrynna af viðtölum. Þegar Rússar drógu liðsstyrk sinn út úr Afganistan árið 1989, voru al-Qaeda samtökin þegar orðin ákaflega öflug og Osama hvatti múslímska bræður sína um gjörvallan heim til að „taka þátt í verkefni okkar sem snýst um að draga alls staðar að húni fána hins heilaga stríðs múslíma“.

 

Nú snerist stóra spurningin bara um hvað þetta heilaga stríð ætti að fela í sér.

 

Konurnar máttu ekki hugsa sjálfar

Osama hafði sem ungur maður svarið að hann myndi fylgja dæmi spámannsins og ganga að eiga fjórar konur. Markmiðið var að eignast mörg börn sem flytja skyldu boðskap hans áfram þegar þau yxu úr grasi. Á níunda áratugnum kvæntist hann fyrir vikið þrisvar í viðbót og eignaðist með eiginkonum sínum alls 20 börn. Ríflega helmingur barnanna voru börn fyrstu eiginkonu hans, Najwa  en hún var þunguð meira eða minna í mörg ár eftir giftinguna.

 

Fjölskyldan bjó áfram í Sádi-Arabíu  en sjálfur var Osama á ferð og flugi langtímum saman. Þegar hann var á ferðalögum máttu konurnar ekki yfirgefa heimilið. Osama var strangur eiginmaður og faðir og leit mjög bókstaflega á stöðu sína sem höfuð fjölskyldunnar.

 

Dag einn þegar Najwa lýsti varfærnislega yfir áhyggjum sínum af leyndardómsfullu athæfi eiginmannsins var hann fljótur að stinga upp í hana með því að segja „Najwa, hættu að hugsa!“, sagði hún síðar meir blaðamanninum Jean Sasson sem ritaði bók um fjölskylduna.

„Drengir mínir, við hliðina á moskunni er að finna lista.  Skráið nöfn ykkar á listann ef þið viljið gefa íslam líf ykkar“.

Osama bin Laden við syni sína.

Fjölskyldufaðirinn var mótfallinn nútímaþægindum á borð við loftkælingu og kæliskápa og bannaði fjölskyldunni enn fremur að horfa á sjónvarp. Börnin máttu heldur ekki eignast leikföng, láta kjánalega né segja brandara. Hann barði syni sína reglulega til að aga þá, ellegar fór með þá í langar fjallgöngur án nokkurs drykkjarvatns.

 

Osama hafði þá hugmynd að menn skyldu aðeins drekka væri það alveg nauðsynlegt og hvítvoðungar máttu alls ekki fá vatn úr pela.

 

„Lífið á að vera erfitt og þið styrkist af ströngu uppeldi mínu“, sagði Osama við börn sín þegar þau kvörtuðu við hann.

 

Hatrið í garð Bandaríkjanna óx

Að stríðinu loknu sneri Osama aftur til Sádi-Arabíu sem sannkölluð þjóðhetja. Najwa ritaði síðar meir að allir hefðu verið „undrandi og hrifnir af því að sonur auðmannsins bin Laden hefði sjálfur hætt lífi sínu og limum á vígvellinum“.

 

Nú gekk rólegt tímabil í hönd en í ágúst árið 1990 tók forseti Íraks, Saddam Hussein, þá ákvörðun að ráðast inn í nágrannaríki Sádi-Arabíu, Kúveit. Innrásin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti í augum sádísku ríkisstjórnarinnar, því her landsins hafði ekkert bolmagn í Saddam ef hann hygðist ráðast inn í land þeirra líka.

 

Osama fékk áheyrn hjá varnarmálaráðherra landsins, Sultan prins og hélt fyrir hann tilfinningaþrungna ræðu um það hvernig hann með þungavinnuvélum fjölskyldu sinnar gæti grafið skotgrafir og reist risavaxin varnarmannvirki, líkt og hann hefði gert í Afganistan. Sultan prins hlýddi þolinmóður á Osama og þegar hann spurði stríðsherrann ákafa að því hvernig hann hygðist stöðva 4.000 skriðdreka óvinarins í hinni pönnukökuflötu Sádi-Arabíu svaraði Osama bin Laden:

 

„Við berjum á þeim með trú okkar“.

AK-47 – að sögn tekin af látnum rússneskum liðsforingja – varð aðalsmerki Osama bin Ladens.

6 ástæður fyrir hryðjuverkum samkvæmt Osama bin Laden

Leiðtogi al-Qaeda átti ekki í erfiðleikum með að koma með rök fyrir því hvers vegna það væri góð og réttlát hugmynd að stunda hryðjuverk.

 

1- „Bandaríkjaher og bandarískir borgarar í heimalandi spámannsins á Arabíuskaga“. 

 

2- „Bandaríkin halda áfram að vernda og styðja harðstjórnarríki múslima”.

 

3- „Skilyrðislaus og óverðskuldaður stuðningur ríkisstjórnarinnar við Ísrael“.

 

4- „Stuðningur Washington við lönd sem kúga íslam, sérstaklega Rússland, Kína og Indland.

 

5- „Nýting Bandaríkjamanna og vesturlanda á múslimskri olíu, seld undir markaðsverði“.

 

6- „Nærvera Bandaríkjanna í múslimaheiminum utan Arabíuskagans“.

Prinsinn afþakkaði boðið. Þess í stað gerði konungsfjölskyldan í Sádi-Arabíu samkomulag við Bandaríkjamenn sem stuttu síðar sendu 500.000 hermenn til Sádi-Arabíu.

 

Osama fannst hann hafa verið lítilsvirtur og fylltist gremju yfir að trúleysingjar skyldu eiga að verja land hans og þjóð. Hann mótmælti fyrirætlun konungsfjölskyldunnar og trúarleiðtoganna harðlega.

 

„Hvernig datt ykkur í hug að hleypa Bandaríkjamönnum inn í landið?“ spurði hann.

 

Í refsingarskyni var hinum ósátta Osama bannað með öllu að yfirgefa landið. Fyrir tilstuðlan bræðra sinna fékk hann engu að síður leyfi til að takast á hendur stutta ferð til Pakistan. Leiðtogi Al-Qaeda samtakanna hafði hins vegar engin áform um að snúa aftur. Hann skrifaði bréf til Najwa og fyrirskipaði henni að koma á eftir sér um leið og hún gæti:

 

„Skildu ekki eftir svo mikið sem einn disk í Sádi-Arabíu“.

 

Börnin sváfu í holum í jörðinni

Osama, ásamt fjölskyldu sinni, settist að í Súdan þar sem íslamski leiðtoginn, Hasan al-Turabi, tók honum opnum örmum. Osama hófst þegar í stað handa. Hann hafði enn aðgang að bankareikningum sínum í Sádi-Arabíu og varði fénu í að leggja grunn að eigin byggingarfyrirtækjum og setja á laggirnar æfingabúðir þar sem hann hélt áfram að þjálfa hryðjuverkamenn.

 

Honum fannst fjölskylda hans einnig hafa þörf fyrir þjálfun, jafnvel dætrum hans og eiginkonum. Þær urðu að læra að spjara sig í eyðimörkinni. Dag einn ók Osama því allri fjölskyldunni út í einskismannsland. Það eina sem þau höfðu meðferðis voru hakar og skóflur.

„Þökk sé Alla er ég á lífi“.

Osama bin Laden eftir að bandaríkjamenn höfðu reynt að drepa hann árið 1998.

„Á meðan við leggjum stund á þjálfun þurfa allir að takmarka við sig í mat og vatni“, brýndi hann fyrir fjölskyldumeðlimunum og lét síðan drengina grafa ílangar grafir í jörðina á meðan konur og stúlkur urðu vitni að. Hver hola skyldi vera nægilega löng til að maður gæti legið þar endilangur.

 

„Nú eru harðindi framundan og það kemur að því að þið hafið hvorki þak yfir höfuðið né teppi til að breiða yfir ykkur“, predikaði Osama fyrir börnum sínum.

 

Allri fjölskyldunni, meira að segja alminnstu börnunum, var fyrirskipað að leggja sig til svefns hvert í sinni holu.

 

„Mér er kalt“, sagði eitt barnanna óttaslegið.

 

„Breiddu þá gras og mold yfir þig“, svaraði Osama. „Náttúran mun halda á þér hita“.

 

Al-Qaeda lýsti yfir stríði gegn Bandaríkjunum

Osama var nú sannfærður um að Bandaríkin væru helsti óvinur íslams. Hann hóf því að ráðast á Bandaríkjamenn hvar sem hann kom því við. Árið 1992 tók al-Qaeda þátt í árás á bandarískar hersveitir í Jemen og á árunum 1992 til 1994 börðust hermenn hans við Bandaríkjamenn í Sómalíu.

 

Stefna hans í stjórnmálum varð til þess að samstaða systkinanna rofnaði. Hinn 5. mars árið 1994 sendi bin Laden-fjölskyldan frá sér opinbera yfirlýsingu:

 

„Við hörmum, afneitum og fordæmum þær gjörðir sem Osama bin Laden kann að hafa framið og sem við engan veginn umberum, heldur höfnum“.

Bandaríkjamenn urðu fyrir alvarlegum árásum fyrir 11. september

Áður en liðsmenn al-Qaeda flugu inn í tvíburaturnana í New York, höfðu samtökin áður lagt stund á ofbeldisfullar hryðjuverkaárásir gegn Bandaríkjamönnum í öðrum löndum.

 

Al-Qaeda samtökin breyttust á níunda áratug síðustu aldar og urðu stöðugt herskárri. Árið 1992 höfðu liðsmenn samtakanna reynt að ráða af dögum hermenn bandarískra hersveita á leiðinni til Sómalíu, þar sem hermennirnir höfðu hreiðrað um sig á hóteli í Jemen. Bandaríkjamönnunum tókst að yfirgefa hótelið áður en sprengjurnar sprungu og einungis einn austurrískur ferðamaður lét lífið, svo og starfsmaður hótelsins.

 

Liðsmenn al-Qaeda héldu uppteknum hætti og reyndu að vinna á Bandaríkjamönnum í Sómalíu á árunum 1992 til 1994. Þeim tókst þó ekki að granda vestrænum erkióvinum sínum að neinu marki fyrr en 25. júní árið 1996.

 

Þann dag sprakk sprengja á þeirra vegum í Khobar turnunum í Sádi-Arabíu á meðan bandarískir hermenn dvöldu í byggingunni. Alls 19 Bandaríkjamenn létust og var sprengjuárásin sú árangursríkasta sem beinst hafði að Bandaríkjamönnum til þessa og margar áþekkar árásir fylgdu í kjölfarið.

Alls 213 manns fórust í Nairóbí

Um klukkan hálf ellefu að morgni hins 7. ágúst 1998 sprakk sprengja við bandaríska sendiráðið í höfuðborg Kenía, Nairóbí. Hópur sjálfsmorðshermanna ók vöruflutningabifreiðum fram fyrir byggingu sendiráðsins og sprengdu sprengjur í ökutækjunum. Alls 213 manns fórust og u.þ.b. 4.000 manns særðust í og umhverfis bygginguna.

Sprengja sprakk í sendiráðinu í Tansaníu

Á meðan þetta var að gerast keyrði hópur al-Qaeda liðsmanna upp að bandaríska sendiráðinu í stærstu borg Tansaníu, Dar es Salaam. Sprengingin banaði minnst ellefu manns og særði um 85 að auki. Clinton-stjórnin svaraði sprengjuárásunum með því að sprengja upp al-Qaeda búðir sem talið var að Osama dveldi í. Hann reyndist hins vegar ekki vera þar.

Sprengjuárás á herskip

Al-Qaeda liðar létu aftur til skarar skríða 12. október árið 2000. Að þessu sinni sprengdu þeir upp bandaríska herskipið USS Cole sem lá við festar í hafnarborg Jemen, Aden. Sautján sjóliðar misstu lífið og 30 særðust. Árásin leiddi af sér meira mannfall en orðið hafði á nokkru bandarísku herskipi allar götur frá árinu 1987.

Sérfræðingar staðhæfa engu að síður að fjölskyldan hafi áfram samsinnt og styrkt þennan svarta sauð fjölskyldunnar og að opinbera yfirlýsingin hafi einungis verið til þess fallin að láta fjölskylduna líta betur út.

 

Jafnframt því sem fjölskyldan fordæmdi bin Laden lokaði sádíska ríkisstjórnin öllum bankareikningum hans í landinu. Osama hafði nú svo gott upp úr öllum fyrirtækjarekstri sínum að hann gat haldið uppteknum hætti og árið 1996 lýsti hann stríði á hendur Bandaríkjamönnum.

 

Forseti Súdans sá sig nú knúinn til að vísa Osama úr landi sökum þrýstings frá Bandaríkjamönnum og Sádum. Sagan segir að al-Turabi hafi boðist til að framselja hryðjuverkaleiðtogann til ríkisstjórnar Clintons. Sá síðarnefndi á að hafa hafnað boðinu á þeim grundvelli að hann skorti sönnunargögn ef til réttarhalda kæmi.

 

Osama þurfti því aftur að yfirgefa landið sem hann bjó í. Þegar þarna var komið sögu stóð honum aðeins eitt land til boða, þ.e. Afganistan.

 

Fann köllun sína í Afganistan

„Guð hefur hjálpað mér og nú er ég kominn aftur til Afganistan“, sagði Osama stuttu eftir komuna á flugvöllinn í Jalalabad hinn 18. maí 1996. Þar tóku á móti honum fyrrum liðsmenn mujahedin-hreyfingarinnar sem hann barðist með í stríðinu gegn Rússum.

 

Það reyndist al-Qaeda samtökunum erfiður biti að kyngja að þurfa að hverfa á brott úr Súdan í svo miklum flýti. Osama lét þetta þó ekki of mikið á sig fá heldur kom samstundis á beinum tengslum við æfingabúðirnar sem hann hafði sett á laggirnar í Afganistan í stríðinu gegn Rússum.

 

Frítíma sínum varði hann í bænastundir og dvaldi jafnframt með fjölskyldu sinni. Abdullah, einn af nágrönnum bin Laden fjölskyldunnar á þessum tíma lýsti Osama bin Laden síðar meir sem „einkar friðsamlegum manni“ sem hafi einna helst minnt á „helgan mann“.

 

Eftir því sem árin liður varð Osama stöðugt áhugasamari um að lifa einföldu og frumstæðu lífi. Segja má að ystu öfgum í þessu líferni hafi verið náð þegar hann flutti með fjölskylduna upp í Tóra Bóra-fjöllin. Þar bjuggu þau í steinkofum með stráþökum og rúðulausum gluggum. Á heimili auðkýfingsins var hvorki rafmagn né vatn.

Markmið árásarinna á World Trade Center var að draga Bandaríkjamenn inn í langt og erfitt stríð í Miðausturlöndum.

Konurnar hlýddu honum í blindni og kvörtuðu aldrei, hvorki þegar þær þurftu að þvo þvott í jökulköldu vatni, fengu of lítið að borða, né heldur þegar hann barði syni þeirra eða gifti dæturnar öðrum þegar þær náðu 12 ára aldri.

 

Dag einn safnaði Osama sonum sínum í kringum sig í bænum Kandahar en svo sagði sonur hans Ómar seinna frá.

 

„Setjist niður. Ég þarf að segja ykkur svolítið“, sagði faðirinn við drengina og benti þeim að setjast sem þeir og gerðu, hamingjusamir yfir að fá loks athygli föðurins.

 

„Drengir mínir, við hliðina á moskunni er að finna lista. Listinn er yfir góða múslíma sem vilja skrá sig af fúsum og frjálsum vilja í sjálfsmorðssveitirnar. Skráið nöfn ykkar á listann ef þið viljið gefa íslam líf ykkar“.

 

Sér til mikillar skelfingar sá hinn 16 ára gamli Ómar einn af yngri bræðrum sínum standa upp í hrifningu og hlaupa í átt að moskunni. Sjálfur safnaði hann kjarki og hrópaði:

 

„Faðir, hvernig getur þú beðið okkur, syni þína, um þetta?“

 

Osama horfði á hann og svaraði kuldalega: „Ómar, þú skiptir ekki meira máli í hjarta mínu en aðrir drengir og menn í þessu landi“.

 

Osama sprengdi sig aftur inn í sviðsljósið

Flóttinn til Afganistan átti eftir að koma sér vel fyrir al-Qaeda og Osama bin Laden. Í Súdan höfðu Bandaríkjamenn getað fylgst grannt með honum, þökk sé aðstoð al-Turabi en talibanarnir í Afganistan höfðu hins vegar engan veginn í hyggju að liðsinna Bandaríkjamönnum með neitt slíkt.

 

Í raun og veru má segja að Osama hafi horfið úr augsýn Bandaríkjamanna. Þetta auðveldaði honum til muna að undirbúa næsta leik. Íslamska talibana-stjórnin sem stýrt var af Mullah Omar, tilnefndi Osama sem fursta. Innan íslamskrar lögsögu táknaði þetta að hann gat kallað sig þjóðarleiðtoga, t.d. leiðtoga í íslömsku kalífadæmi.

 

Vegna þessarar nýju virðingarstöðu sem þjóðarleiðtogi uxu hann og al-Qaeda samtökin að virðingu í augum annarra íslamskra samtaka í Mið-Austurlöndum. Ein þessara samtaka var hópurinn „Heilaga egypsk-íslamska stríðið“. Stjórnendur hópsins vildu koma höggstað á Bandaríkin í hefndarskyni fyrir að Bandaríkjamenn höfðu hneppt marga meðlimi þeirra í varðhald.

 

Egyptarnir höfðu sjálfir yfir fé að ráða og þurftu því einungis á aðstoð Osama að halda í tengslum við sprengjuframleiðslu og undirbúning hryðjuverkaárása.

Bandaríkjamenn gerðu skyndiárásina á bækistöðvar Osama bin Ladens í Pakistan án þess að upplýsa ríkisstjórn landsins um það áður.

Bandaríkjamenn réðust inn á heimili bin Ladens

Skömmu fyrir miðnætti 2. maí 2011 hrintu bandarísku sérsveitirnar í framkvæmd „Aðgerð Neptune Spear“ sem hafði það markmið að granda Osama bin Laden.

 

Tveimur þyrlum af gerðinni Black Hawk var flogið lágflugi til að þær sæjust ekki í ratsjám á meðan tveimur stærri þyrlum með aukinn liðsafla var lent skammt frá bækistöð bin Ladens í borginni Abottabad.

 

Til allrar óhamingju lenti spaði annarrar Black Hawk-þyrlunnar utan í vegg hússins og flugmaðurinn neyddist til að nauðlenda. Hin þyrlan lenti samkvæmt áætlun og sérsveitarmennirnir um borð klifruðu yfir múrana.

 

Um leið og þeir voru komnir inn á herstöðina tryggðu hermennirnir að allar byggingar væru öruggar. Allt þetta átti sér stað í niðamyrkri því útsendarar höfðu skorið í sundur allar rafmagnsleiðslur rétt áður.

 

Að lokum ruddust hermennirnir inn í aðalbygginguna. Á þriðju hæð rákust þeir á Osama bin Laden sem þeir skutu til bana laust eftir miðnætti. Hermennirnir höfðu líkið með sér til bandarískrar herstöðvar í Afganistan. Að líkskoðun lokinni var honum komið fyrir í votri gröf á hafi úti.

Eftir að hafa varið mörgum árum í þýðingarlitlar árásir á Bandaríkjamenn í ýmsum aðgerðum var Osama nú sannfærður um að unnt yrði að bera sigur úr býtum gegn Bandaríkjunum ef honum tækist að narra þá til að ráðast inn í Afganistan.

 

Slík innrás myndi safna gjörvöllum múslímaheiminum í sameiginlegri andstöðu gegn Bandaríkjamönnum, var hann fullviss um. Langvarandi, þreytandi stríðsrekstur myndi tæma sjóði Bandaríkjamanna og þvinga stórveldið til uppgjafar.

 

Til þess að þetta gengi eftir yrði hann að ráðast á Bandaríkin „þar sem þeir síst eiga von á því“, líkt og hann þreyttist ekki á að segja.

 

Hinn 7. ágúst 1998 sprengdu meðlimir sjálfsmorðssveita sjálfa sig í loft upp fyrir framan bandaríska sendiráðið í höfuðborg Kenýa, Nairóbí, svo og í stórborginni Dar es Salaam í Tansaníu.

 

Bandaríkjamenn bitu hins vegar ekki á agnið. Þess í stað sendu þeir stímflaugar á þær æfingabúðir sem þeir héldu að Osama dveldi í í Afganistan. Hann var hins vegar ekki í búðunum þá stundina. Stuttu síðar sendi leiðtogi al-Qaeda eftirfarandi skilaboð til gjörvalls heimsins:

 

„Þökk sé Alla er ég á lífi“.

 

Bandaríkin höfðu þá ekki heyrt í hinsta sinn frá helsta óvini sínum, Osama bin Laden. Í því skyni að narra Bandaríkjamenn til þátttöku í langvarandi og lýjandi stríðsrekstri varð hann að koma við kaunin á stórveldinu þar sem það sveið hvað mest.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Andreas Abildgaard & Marianne Dalsgaard

GEtty Images,© Ritzau Scanpix, Shutterstock,© Dalmas/Ritzau Scanpix,© Shutterstock & University of Washington,© Montage: Essam Draz/Balkis Press/Sipa Press & Shutterstock,© Shutterstock/Ritzau Scanpix,© U.S. Department of Defense,© Robert Giroux/Staff/Getty Images,© U.S. Department of Defense & Shutterstock,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Nýtt lyf við getuleysi: Eitruð könguló getur bjargað kynlífi þínu 

Alheimurinn

Ofurleiðaraefni að finna í loftsteinum

Lifandi Saga

Krossferðaherinn sigraður með timburvögnum

Lifandi Saga

Kína verður aldrei aftur auðmýkt

Tækni

Hvers vegna sofum við?

Heilsa

Létt þjálfun er áhrifaríkari

Maðurinn

Fimm hollráð vísindamanna: Þannig má breyta leiða í styrk

Tækni

Sólarsellur flytja út í geim 

Heilsa

Algengt meðferðarúrræði fyrir konur á breytingaskeiði er talið hafa í för með sér alvarlegar aukaverkanir

Maðurinn

Er skaðlegt að halda sér vakandi alla nóttina?

Heilsa

Yfirsýn: Svona bjargar blóðið þér

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is