Læknisfræði

Pasteur bjargaði heiminum frá hundaæði

Óttinn við hundaæði ristir djúpt í okkur öllum. Þessi ólæknandi sjúkdómur hefur fylgt mannkyninu frá því í fornöld. Það var ekki fyrr en á 19. öld sem franskur efnafræðingur gaf öllum þeim von sem bitnir höfðu verið af sýktum hundi.

BIRT: 26/02/2024

Jósef Meister fór að heiman að morgni þess 4. júlí árið 1885, líkt og hann var vanur. Glaður í bragði gekk hann eftir götunni í átt að skólanum sínum í Maisonsgoutte í Alsace-héraði í Frakklandi. Á einu augabragði breyttist tilvera hans öll.

 

Brjálaður hundur með froðufellandi munnvik velti drengnum um koll.

 

Hundurinn glefsaði ítrekað í drenginn sem reyndi í örvæntingu að hylja andlit sitt með höndunum sem best hann gat. Til allrar hamingju hafði múrari einn í grenndinni orðið vitni að árásinni. Hann kom hlaupandi og sló til hundsins með járnstöng og svo fór að lokum að hundurinn sleppti takinu á drengnum.

 

Jósef blæddi og hann var nánast viti sínu fjær af hræðslu og hljóp heim til móður sinnar, Marie Angelique. Hún óttaðist það versta og fór rakleitt með drenginn til læknis. Læknirinn notaði vetnisperoxíð til að sótthreinsa alls 14 sár á fótum og höndum litla drengsins. Hvorki læknirinn né móðirin efuðust hins vegar um hvaða örlög biðu drengsins.

 

Hundurinn væri áreiðanlega haldinn hundaæði, sjúkdómi sem veldur óbærilegum sársauka, krampa, sótthita, vatnshræðslu og vaxandi geðveiki áður en dauðinn, eftir nokkurra daga kvalir, veitti sjúklingnum lausn.

 

Aðeins einn maður gæti, hugsanlega, bjargað Jósef frá þessu banvæna smiti, trúði læknirinn móður drengsins fyrir. Jósef yrði að fara samstundis með lest til Parísar og ganga til fundar við hinn heimsþekkta efnafræðing Louis Pasteur.

Sjúkdómur sem hefur í för með sér ólýsanlegar kvalir – krampa, sótthita, vatnshræðslu og vaxandi geðveiki – allt fram í andlátið.

Gáta bólusetningarinnar leyst

Efnafræðingurinn Louis Pasteur varð fyrst þekktur í heimi vísindanna árið 1862 þegar hann uppgötvaði að vínflaska geymdist miklu lengur en ella væri hún hituð upp í 60 gráður.

 

Lögmálið að baki ferlinu sem farið var að kalla gerilsneyðingu, lengdi ekki einungis líftíma fæðuvara, heldur deyddi að sama skapi sjúkdómsvaldandi og jafnvel banvænar bakteríur á borð við listeríu og salmónellu í m.a. mjólk.

 

Næstu árin á eftir einhenti Pasteur sér í þróun bóluefna. Læknar og aðrir með áþekka menntun höfðu vitað öldum saman að sýkingar sem sjúklingar höfðu jafnað sig af, veittu vörn gegn nýjum sýkingum. Fyrirbærið varð þekkt fyrir alvöru þegar enski læknirinn Edward Jenner árið 1796 bólusetti gegn bólusótt:

 

Hann sýkti sjúkling af hinni tiltölulega meinlausu kúabólu sem gerði það að verkum að sjúklingurinn varð ónæmur gegn hinni raunverulegu bólusótt.

Hundaæði hafði í för með sér hryllilegan dauðdaga. Ef minnsti grunur vaknaði hafði árásargjörnum hundum verið lógað, allt frá því á fornöld.

Þeir smituðu voru kallaðir varúlfar

Þeir sem smitast höfðu af hundaæði voru skelfileg sýn á miðöldum. Breytingin sem varð á fórnarlömbunum leiddi hugann að goðsögnum um varúlfa, úlfmönnum sem breyttust í blóðþyrsta úlfa í fullu tungli.

 

Einkenni hundaæðis hræddu því sem næst líftóruna úr fólki á miðöldum. Fjárhundar og varðhundar sem höfðu smitast breyttust frá einum degi til annars úr dyggum förunaut í froðufellandi skrímsli. Ef smitaður hundur svo beit mann tók sá einstaklingur sömu skelfilegu breytingum.

 

Á miðöldum þekkti enginn veirur né byggingu miðtaugakerfisins og fyrir vikið gerði fólk ráð fyrir að sjúkdómurinn væri af yfirskilvitlegum toga.

 

Sagnfræðingar álíta að hundaæði hafi verið orsök þjóðtrúarinnar um varúlfa, þ.e. hugmyndarinnar um að til væri fólk sem breyttist í skelfileg rándýr í fullu tungli sem réðust á menn og dýr.

 

Fyrirbærið var þekkt til forna en gríski sagnfræðingurinn Heródót lýsti því m.a. að á Balkanskaga lifði þjóðflokkur þar sem allir karlmenn breyttust í úlfa einu sinni á ári. Í Egilssögu er sagt frá Kveldúlfi, föður Skallagríms sem var faðir Egils. Á kvöldin rann á Kveldúlf úlfshamur og hann gekk út í myrkrið.

 

Óttinn við hundaæði náði hámarki á miðöldum þegar kirkjan og yfirvöld ákváðu að leita uppi og uppræta úlfmenn. Þúsundir voru ákærðar og dæmdar fyrir að vera varúlfar á árunum 1400-1600.

Pasteur réri að því öllum árum að útbúa bóluefni sem gert gat hænuunga ónæma gegn kóleru. Hann gerði tilraunir með að ná fram ónæmi með því að sprauta í heilbrigða hænuunga hænuseyði sem fól í sér smit sýktra unga.

 

Pasteur til mikillar ánægju veiktust fuglarnir ekki af bólusetningunni og voru meira að segja ónæmir þegar þeir síðar meir aftur voru sprautaðir með kólerubakteríu.

 

Pasteur dró þá ályktun að leyndardómurinn að baki ónæminu fælist í að láta líkamann komast í tæri við veiklaðar bakteríur. Glaður í bragði ákvað hann að ráðast til atlögu við þann sjúkdóm sem mestri skelfingu olli í þá daga, nefnilega hundaæði.

 

Hundaæði ógnaði Frökkum

Hundaæði hafði verið þekkt frá því í fornöld en óttinn við smit hafði þó aldrei verið jafn mikill og á 19. öld í Frakklandi.

 

Fólk huggaði sig ekki við þá staðreynd að aðrir smitsjúkdómar á borð við barnaveiki og taugaveiki drægju langtum fleiri Frakka til dauða en þá 25 sem létust árlega af völdum hundaæðis.

Allt að þúsund manns létu lífið dag hvern á 18. öld. Enskur læknir ákvað að leggja allt í sölurnar í því skyni að finna lækningu en neyddist til að sýkja átta ára gamlan dreng til að komast að raun um hvort meðferðin gagnaðist eður ei.

Það var nefnilega framvinda sjúkdómsins sem gerði það að verkum að óttinn var slíkur sem raun bar vitni. Þeir sem smituðust þurftu nefnilega að undirgangast hræðilegar kvalir. Lækning var ógerleg og verst af öllu var að sjúklingurinn var með fulla meðvitund á meðan hann eða hún beið óumflýjanlegs dauðans.

 

„Með fullri meðvitund sá hann sjálfan sig deyja“, skráði franski læknirinn G.E. Fredet um einn sjúklinga sinna.

 

Iðnvæðingin á 19. öld gerði það að verkum að fólk flutti úr sveitum til bæja og borga og við það fjölgaði jafnframt gæludýrum.

 

Kjölturakkar sem áður höfðu einungis verið á færi yfirstéttarfólks, öðluðust auknar vinsældir innan miðstéttarinnar sem stækkaði ört. Sagnfræðingar gera því skóna að í milljónaborginni París hafi leynst um 100.000 hundar á árunum upp úr 1840.

 

Sorgin og örvæntingin sem fylgdi því að horfa á hjartfólgið gæludýr fjölskyldunnar breytast í froðufellandi óargadýr vék einungis fyrir hræðslunni við að fá sjúkdóminn sjálfur.

 

Enginn sem umgekkst gæludýr gat verið öruggur, því á fyrstu stigum sjúkdómsins varð hundurinn einfaldlega „óhemju vinalegur og náinn hverjum sem nálgaðist dýrið“, skrifaði G.E. Fredet sem viðvörun.

Hani á öxlinni gat sagt fyrir um afdrif fórnarlambsins. Ef hann galaði var dauðinn vís.

Lækningin fólst í hænum og sjóðheitum nöglum

Læknar hafa gert tilraunir með að lækna hundaæði með öllu mögulegu, allt frá feldtægjum yfir í glóðheitt járn. Árangurinn var því miður enginn.

 

Hundaæði hefur verið þekkt frá því um 2000 f.Kr. og læknar hafa gert tilraunir með að lækna sjúkdóminn allar götur síðan. Til forna var talið að hanar gætu komið upp um hundaæði. Ef hani galaði þar sem hann stóð á öxl sjúklings reyndist sá hinn sami vera veikur. Læknirinn reyndi þá að lækna sjúklinginn með tægjum úr rófu viðkomandi hunds á bitsárið í lækningaskyni.

 

Hinn sýkti gat jafnframt losnað við hundaæðið með því að borða lifur úr drukknuðum hvolpi af sama kyni og sýkti hundurinn ellegar þá að leggja sér til munns heila úr hana, ritaði rómverski sagnfræðingurinn Plíníus eldri.

 

Á miðöldum þrýstu prestar glóðheitu járni, svokölluðum „lykli heilags Húbertusar“, á bitsárið. Aðferðin er tileinkuð Húbertusi biskupi sem var biskup í belgísku borginni Liège á 8. öld og verndardýrlingur sjúklinga sem þjáðust af hundaæði.

 

Prestar reyndu jafnframt að koma í veg fyrir að hundaæði brytist út með því að skera skurð á enni þess smitaða. Í skurðinum komu þeir fyrir þræði úr biskupshempu Húbertusar. Sjúklingurinn taldist svo hafa fengið lækningu eftir að hafa verið með svartar umbúðir á höfðinu í alls níu daga.

 

Glóðheitum nöglum og ennisskurði var beitt á sjúklinga sem veikst höfðu af hundaæði allt fram á 20. öld.

Þar sem sérhvert glefs eða vinalegar sleikjur gátu reynst banvæn, leiddi ótti fólks til þess að ógrynnum eigendalausra hunda var lógað. Hundarnir voru annað hvort skotnir eða eitrað fyrir þeim á götum Parísarborgar.

 

Árið 1879 voru alls 9.479 hundar stórborgarinnar drepnir í svokölluðum hundablóðböðum, ef marka má annála borgarstjórnarinnar.

 

Pasteur hafði enn eina góða ástæðu fyrir því að velja að stunda rannsóknir á bóluefni gegn hundaæði: Gerlafræði var þá enn ný fræðigrein og margir voru efins um þá staðhæfingu Pasteurs að örverur gætu ekki einvörðungu leitt af sér sjúkdóma, heldur jafnframt fyrirbyggt þá.

 

„Hann áleit sem svo að lausn á hundaæðisvandanum myndi verða mannkyninu til blessunar og enn fremur mikill sigur fyrir kenningar hans“, ritaði hinn dyggi aðstoðarmaður Pasteurs, Émile Roux, síðar meir.

 

Rannsóknarstofuvinna var lífshættuleg

Bóluefnið vann Pasteur úr mænunni á kanínum sem sýktar höfðu verið af hundaæði. Með því að þurrka upp sýkta mænuna í lengri og skemmri tíma gerði Pasteur tilraunir með að stjórna styrk smitefnisins.

 

Hann gerði jafnframt tilraunir með að vinna seyti úr munni sýktra lifandi hunda sem komið var með á rannsóknarstofu dýralækningaháskólans í Maison-Alfort.

„Hundurinn var í þann veginn að kafna sökum eigin reiði þegar þeir bundu hann fastan við borðið. Augun voru blóðhlaupin og vöðvarnir í krampakenndu ástandi.“
Þessu lýsti tengdasonur Pastuers, að nafni René Vallery-Radot.

Mánuðum saman stunduðu Pasteur og aðstoðarmenn hans sleitulaust þetta hættusama starf sem krafðist nálægðar við dýrin:

 

„Hundurinn var í þann veg að kafna sökum eigin reiði þegar þeir bundu hann fastan við borðið. Augun voru blóðhlaupin og vöðvarnir í krampakenndu ástandi. Herra Pasteur beygði sig yfir hundinn og var ekki nema hársbreidd frá froðufellandi haus dýrsins á meðan hann tók sýni úr munnvatninu með mjórri pípu“. Þessu lýsti tengdasonur Pastuers, að nafni René Vallery-Radot.

 

Andstætt við fyrri tilraunir hafði Pasteur ekki tök á að meta styrk bóluefnisins með því að virða það fyrir sér í smásjá sinni. Hundaæði stafar nefnilega ekki af gerlum, heldur veiru en slíkar örverur voru með öllu óþekktar í þá daga.

 

Veirur eru 10 milljón sinnum smærri en við á um bakteríur og voru fyrir bragðið með öllu ósýnilegar í smásjám þess tíma. Eini möguleikinn sem Pasteur hafði var að prófa sig áfram með því að sýkja tilraunahunda með sífellt nýrri og öflugri hundaæðisörverugróðri. Árið 1885 var hann loks orðinn sáttur.

Veiruna er m.a. að finna í óheyrilegu magni af munnvatni sem er eitt af einkennum hundaæðis.

Dauðinn óumflýjanlegur

Kvalafull krampaköst, óbærilegur þorsti og ofskynjanir. Sjúklingar sem smitast hafa af veirunni sem veldur hundaæði ganga í gegnum óbærilegar kvalir. Enn þann dag í dag er engin lækning til við sjúkdóminum eftir að hann hefur brotist út.

 

  • Smittíminn nemur 3-6 vikum

Þegar fórnarlambið hefur orðið fyrir biti kann viðkomandi að fá höfuðverk, sótthita og finna fyrir hitaviðkvæmni. Einkennin eru ekki frábrugðin því sem við á eftir venjulegt hundsbit. Fyrir bragðið eru fórnarlömbin yfirleitt algerlega grunlaus um að þau hafi smitast af hundaæði. Þegar hér er komið sögu er yfirleitt hægt að bjarga lífi fórnarlambsins með bólusetningu gegn sjúkdóminum.

 

Einkenni smits gera að öllu jöfnu vart við sig eftir 3 til 6 vikna smittíma en í sumum tilvikum geta þó liðið nokkur ár áður en sjúkdómurinn gerir vart við sig.

 

  • Sjálfur sjúkdómurinn

Sjúkdómurinn brýst út þegar veiran ræðst til atlögu við miðtaugakerfið. Þetta sést m.a. á því að vöðvar í hand- og fótleggjum lamast. Margir sjúklingar fá sársaukafullan krampa í kyngingarvöðvana og geta því ekki drukkið þrátt fyrir óbærilegan þorsta. Aukin munnvatnsmyndun gerir það jafnframt að verkum að froða myndast í munnvikunum.

 

Þessi mikla vökvamyndun gagnast veirunni til að lifa. Veira af völdum hundaæðis smitast nefnilega með munnvatni og froðan auðveldar veirunni að berast áfram í nýjan hýsil.

 

Bólusetning gerir ekkert gagn ef sjúkdómurinn hefur þegar brotist út.

 

  • Dauðinn bíður

Örfáum vikum eftir að sjúkdómurinn gerir vart við sig aukast krampaköstin og lömunin versnar. Öndunin líður fyrir og sjúklingar eiga í basli með að draga andann. Á þessu stigi eru sjúklingar farnir að sjá ofsjónir sem hefur í för með sér kvíða, óróleika og reiði.

 

Sjúklingarnir eru iðulega með fulla meðvitund síðustu dagana áður en sjúkdómurinn dregur þá til dauða. Einungis þeir lánsömu missa meðvitund.

Þegar hér var komið sögu mynduðu tilraunahundarnir ekki einvörðungu ónæmi gegn hundaæði, heldur gátu þeir einnig komist hjá því að sýkjast, jafnvel þótt þeir hefðu verið bitnir, ef bara þeir fengju sprautu í tæka tíð.

 

„Ég hef enn ekki vogað mér að meðhöndla fólk sem bitið hefur verið af hundi sem haldinn er hundaæði en sá tími mun koma fyrr en varir og ég hef mestan hug á að byrja á sjálfum mér“, ritaði Pasteur hinn 28. mars árið 1885.

 

„Ég er nefnilega orðinn býsna öruggur með niðurstöður mínar“, bætti efnafræðingurinn við.

 

Stofnun ætlað að ráða niðurlögum hundaæðis

Pasteur vannst hins vegar ekki tími til að gera tilraunir með bóluefnið á sjálfum sér því örfáum mánuðum síðar, þ.e. 6. júlí árið 1885, kvöddu Jósef Meister og móðir hans dyra á rannsóknarstofunni við Rue d’Ulm í París.

 

Ferðalagið þangað hafði tekið mæðginin heila tvo sólarhringa og þau höfðu enga hugmynd um hvað biði þeirra. Pasteur lét strax til skarar skríða.

 

Klukkan átta að kvöldi þess 6. júlí 1885 sprautaði hann daufri upplausn af hundaæðissmiti í húðfellingu á maga drengsins. Bóluefnið innihélt mænu úr kanínu sem drepist hafði úr hundaæði örfáum vikum áður.

Næstu daga á eftir var Jósef Meister sprautaður með stöðugt stærri skömmtum af smitefninu og að lokum sprautaði læknirinn hann með ferskum og fyrir vikið, einkar smitnæmum, skammti af veirunni.

 

Sprautuskammturinn hefði sýkt hvaða ómeðhöndlaða einstakling sem er samstundis. Jósef Meister lifði þetta af, án nokkurra einkenna.

 

“Loks hefur tekist að finna lækningu gegn vatnsfælni (hundaæði, ritstj.), þessum skelfilega sjúkdómi sem engin meðhöndlun hefur gagnast gegn til þessa“, sagði læknirinn Alfred Vulpian þegar Pasteur örfáum mánuðum síðar kynnti rannsóknir sínar fyrir frönsku vísindaakademíunni.

 

Árið 1887 setti Pasteur á laggirnar stofnun þar sem unnið er áfram að þróun og dreifingu bóluefna. Enn er þó ekki unnt að lækna fólk sem veikst hefur af hundaæði, einungis þá sem hafa komist í snertingu við sýkilinn en stofnunin hefur engu að síður gert það mikið gagn að sjúkdóminum hefur nánast verið útrýmt í öllum hinum vestræna heimi.

 

Meðal starfsmanna sem áttu þátt í velgengni þessari var Jósef Meister. Hann starfaði sem húsvörður hjá stofnuninni allt til dauðadags árið 1940.

Lestu meira um hundaæði

Bill Wasik: Rabid – A Cultural History of the World’s Most Diabolical Virus, Viking, 2012

 

Gerald L. Geison: The Private Science of Louis Pasteur, Princeton, 1995

 

René Vallery-Radot: The Life of Louis Pasteur, Constable & Co., 1911

 

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN

© Shutterstock & Wikimedia Commons

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Tækni

Minnislisti nördanna: Búnaður

Tækni

Nú fá róbótar siðferðilegan áttavita

Heilsa

Ný tækni vekur latar sáðfrumur

Jörðin

Glóandi sprengingar skapa hljóðhöggbylgjur

Maðurinn

Þess vegna bragðast ávaxtasafi ekki vel eftir að þú burstar tennur

Maðurinn

Þjálfið heilann: Málgreind

Lifandi Saga

Hver var fyrstur dæmdur fyrir stríðsglæpi? 

Maðurinn

Heilinn sér andlit alls staðar og meðhöndlar þau öll eins

Náttúran

90 sekúndur til dómsdags: Viðbúin gegn hamförunum?

Náttúran

Vísindamenn undrandi: Svona myndast stærstu sandöldur heims

Náttúran

Stiklað á stóru um lotukerfið á 10 mínútum

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is