Rauðhærðir eru með erfðafræðilega yfirburði

Rauðhærðir eru bráðlátir, viðkvæmir og þola engan sársauka. Enginn hörgull er á sögusögnum en rannsóknir hafa sýnt að „rauðhærða“ genið leiðir af sér mjög sérstaka eiginleika.

BIRT: 11/10/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Julianne Moore, Mick Hucknall, David Caruso og Gillian Anderson ættu öll að standa í þakkarskuld við pínulítinn erfðavísi sem kallast MC1R.

 

Erfðavísir þessi ber nefnilega ábyrgð á rauðum lokkunum sem hafa átt stóran (ef ekki allan) þátt í að þessir þekktu leikarar og söngvarar slógu í gegn í kvikmyndum og á sviði.

 

Fyrrgreindur erfðavísir hefur að öllum líkindum áhrif á annað og meira en háralitinn, ef marka má rannsóknir á sérkennum rauðhærðs fólks.

 

Lifa rauðhærðar, freknóttar konur lengur?

Alls 12.000 rauðhærðar, freknóttar konur voru bornar saman við aðrar 12.000 konur, með „hefðbundið“ norrænt litarhaft, yfir 25 ára tímabil.

 

Rannsóknirnar sem gerðar voru við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, gefa til kynna að rauðhærðar, freknóttar konur hafi forskot á hinar hvað áhrærir meðalævilengd.

 

Dánartíðni rauðhærðu kvennanna er nefnilega átta prósentum lægri en í samanburðarhópnum. Rauðhærðar konur, yfir 54 ára að aldri, munu að meðaltali lifa 3,2 mánuðum lengur en konur úr hinum hópnum, ef marka má niðurstöður rannsóknarinnar.

 

Í samanburðinum er ekki tekið tillit til almenns heilsufars, reykinga, tekna, menntunar og hjúskaparstöðu. Þessar breytur höfðu með öðrum orðum ekki áhrif á samanburðinn. Það átti hins vegar við um getu þeirra rauðhærðu til að framleiða D-vítamín, ef marka má vísindamennina.

 

Fólk með ljósustu húðina, húðgerð 1, er nefnilega betur í stakk búið til að framleiða D-vítamín en aðrir með dekkri húð. Fyrir vikið fær rauðhært, freknótt fólk frekar D-vítamín í líkamann en annað fólk og þetta vítamín skiptir einmitt sköpum fyrir ónæmiskerfi okkar.

 

Það er þó ekki einungis tekið út með sældinni að vera rauðhærður og freknóttur, því rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að umræddum konum var 59% hættara við að látast af völdum húðkrabbameins en öðrum.

Tveir hundraðshlutar eru rauðhærðir

Rautt hár er sjaldséð áheimsvísu. Vísindamenn telja að í mesta lagi tvö prósent heimsbyggðarinnar skarti rauðum lokkum.

Rauðhærðir þola sterkan mat

Rauðhært fólk hefur orð á sér fyrir að þola síður sársauka en aðrir og að þurfa (hugsanlega fyrir bragðið) meiri deyfingu í tengslum við aðgerðir.

 

Tilraunir sem gerðar voru við háskólann í Álaborg í Danmörku árið 2011 leiddu hins vegar í ljós að rauðhærðir bregðast einvörðungu meira við tilteknum sársauka, í líkingu við tannpínu og gífurlegan kulda.

 

Vísindamenn vita enn sem komið er ekki hvers vegna erfðavísir rauða hársins hefur áhrif á sársaukaþröskuldinn.

Erfðavísirinn sem leiðir af sér rautt hár, MC1R, hefur jafnframt öðrum hlutverkum að gegna í líkamanum en hann ákvarðar m.a. hvernig heilinn bregst við sársauka.

 

Ýmsar tilraunir hafa gefið til kynna að rauðhærðir séu viðkvæmari fyrir sársauka þegar þeir snerta eitthvað kalt og að sársaukaþröskuldurinn sé hærri ef þeir brenna sig.

 

Þá er jafnframt erfiðara að deyfa rauðhært fólk og það hefur þörf fyrir aukinn skammt verkjalyfja til að halda verkjum í skefjum.

 

Í tengslum við stungur, þrýsting og sérlega sterka fæðu, þá virðist rauðhært fólk hins vegar hafa aukið viðnámsþol miðað við marga aðra.

Rauðhærðir kunna að vera betri gáfum gæddir

Ef marka má danska vísindamenn virðist MC1R eiga þátt í mikilvægri starfsemi heilans, ásamt undirhópunum MC2R, MC3R og MC4R.

 

Hugsanlegt er að erfðavísirinn sé beinlínis tengdur gáfnafari. Bresk-amerísk rannsókn leiddi í ljós að rauðhærðir eru fjórum sinnum líklegri til að gegna starfi stjórnenda en aðrir á sama sviði.

BIRT: 11/10/2022

HÖFUNDUR: CARSTEN NYMANN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is