Á miðöldum voru gyðingar rauðhærðir
Um aldaraðir hafa rauðhærðir oft sætt miklu áreiti því þeir líta öðruvísi út en meirihluti manna. Núna eru minna en 2% af íbúum heims með rautt hár.
Margt bendir til að þessi neikvæða afstaða til rauða hársins stafi einkum af því að háraliturinn þótti eitt sérkenni gyðinga.
Eitt sinn töldu flestir kristnir menn að Gyðingar bæru ábyrgð á dauða Jesú og einkum var hatur lagt á Júdas sem sveik Jesú.
Listamenn sýndu því Júdas með rautt hár til þess að draga fram illt innræti hans – þrátt fyrir að Biblían minnist hvergi á háralit Júdasar.
Aðrar persónur í Biblíunni voru einnig sagðar vera með rautt hár. Í myndaröðinni af Adam og Evu sem prýðir Sixtínsku kapelluna, er Eva fyrst með brúnt hár en eftir að hún bítur í forboðna ávöxtinn fær hún rauða lokka.
Rauðhærðir dæmdir fyrir galdra
Á tímum spænska rannsóknarréttarins sem hófst árið 1478 var rautt hár einnig tengt við sjúkdóma og svikula gyðinga. Óvenjulega hátt hlutfall þeirra kvenna sem voru dæmdar fyrir galdra voru með rautt hár.
Drottning gerði rautt hár vinsælt
Rauðhærðir hafa hins vegar einnig verið vinsælir. Þrátt fyrir að enska drottningin Elísabet 1. hafi verið með hárkollu nær allt sitt líf var hún rauðhærð. Hún var svo vinsæl að margar konur lituðu einnig hár sitt rautt meðan hún var við völd.