Síðbúnar kvöldmáltíðir gera þig þyngri og svangari

Það er kannski ekki svo gáfulegt að ísskápurinn hafi innbyggt ljós. Ný rannsókn sýnir að við verðum svengri og geymum meiri fitu í líkamanum ef við borðum seint á kvöldin.

BIRT: 16/12/2022

LESTÍMI:

2 mínútur

Dýr í náttúrunni borða aðeins þegar þau eru hungruð og þurfa ekki að hafa áhyggjur af þyngd sinni. Því er öðruvísi farið með okkur mannfólkið.

 

Glæný rannsókn frá Bandaríkjunum leiðir í ljós að það versta sem við getum gert er að borða seint á kvöldin.

 

Það hefur áhrif á líkamann á ýmsa mismunandi vegu, t.d. með því að auka matarlystina og breyta fituefnaskiptum okkar, þannig að við í raun aukum hungrið og líkaminn þyngist.

 

Fjórir tímar geta skipt talsverðu máli

Þessi nýlega rannsókn var gerð á 16 einstaklingum á þrítugsaldri sem allir voru þegar með BMI yfir 28 sem er rétt á mörkum þess að vera í mikilli ofþyngd.

 

Markmiðið var að skoða nánar hugsanlegar ástæður sem gætu hjálpað til við að útskýra hvers vegna máltíðir seint á kvöldin auka hættuna á offitu.

 

„Við komumst að því að það munar verulega ef þú borðar fjórum tímum síðar. Þetta á við um hungurstigið, hvernig við brennum kaloríum og hvernig líkaminn geymir fitu,“ útskýrir stjórnandi rannsóknarinnar Nina Vujovic frá Harvard Medical School í Boston í Bandaríkjunum.

 

Blóðprufur og fitumælingar

Allir þátttakendur fylgdu ítarlegu mataræði og þurftu að ljúka tveimur mismunandi tilraunum sem hluta af rannsókninni.

 

Í annarri tilrauninni neyttu þátttakendur máltíðar sinnar á venjulegum tímum sólarhringsins en í hinni var sömu máltíð neytt fjórum tímum síðar.

 

Í ferli þátttakenda var mældur líkamshiti, hungurtilfinning metin, blóðsýni tekin og orkunotkun mæld.

 

Rannsakendur tóku einnig vefjasýni til að sjá hversu mikla fitu þátttakendur í tilrauninni geymdu í líkama sínum.

 

Breytt hungurhormón

Í ljós kom að síðbúnar máltíðir höfðu áhrif á tvö hormón í líkamanum sem hafa afgerandi áhrif á hungur og líkamsþyngd.

 

Eitt hormón er kallað leptín og ýtir undir mettunartilfinningu. Annað hormónið, ghrelín, örvar hungurtilfinninguna.

 

Með því að mæla magn hormónanna tveggja sem og innbyrðis tengsl þeirra gátu rannsakendur séð að síðbúnar máltíðir höfðu slæm áhrif á hormónin sem leiddi til aukinnar hungurtilfinningar þátttakenda.

 

Þessar síðbúnu máltíðir hægðu einnig á kaloríubrennslu þátttakenda, þannig að þeir geymdu meiri fitu. Á sama tíma varð hjá þeim meiri löngun í kjöt og saltan mat. Þörfin fyrir salt jókst um hvorki meira né minna en 80 prósent.

 

Tengsl eru milli offitu og sjúkdóma

Rannsakendur nefna sjálfir ýmsar takmarkanir á rannsókninni, þar á meðal að það hafi verið fáir þátttakendur og að þátttakendur gátu ekki borðað þegar þeir vildu, eins og fólk annars gerir, heldur þurftu þeir að fylgja tímaáætlun.

Engu að síður gefa niðurstöðurnar vísbendingu sem hvetur vísindamenn til að finna fleiri og betri svör.

 

Það er því full ástæða til að kafa frekar ofan í málið, því ofþyngd snýst ekki bara um útlit manneskjunnar.

 

Á heimsvísu eru 650 milljónir offitusjúklinga og það stuðlar að meiriháttar heilsufarsvandamálum og langvinnum sjúkdómum ásamt aukinni hættu á sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum, ákveðnum tegundum krabbameins sem og aukinni dánartíðni tengd COVID-19.

BIRT: 16/12/2022

HÖFUNDUR: BJØRN FALCK MADSEN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.