Brostu til skynjara og samstundis útskýrir snjallsíminn hvað þú varst að borða.
Þetta verður að veruleika með nýþróuðum skynjara, sem mælir magn sérstakra efna, sem við viljum ekki borða of mikið af, svo sem sykur, salt og alkóhól.
Skynjarinn er þróaður af vísindamönnum hjá Tufts-háskóla í BNA. Hann er 2 mm2 og verður settur á tönn. Skynjarinn er gerður líkt og samloka, þar sem miðlagið er úr efni sem drekkur í sig efni úr munnvatni. Gullrammar eru utan og innan á þessu efni.
Þarf ekki rafmagn
Engin rafeindatækni er innbyggð og skynjarinn þarf því ekki straum til að starfa. Til að lesa af honum eru útvarpsbylgjur sendar að honum og endurvarp þeirra skráð.
Hafi efnið í skynjaranum t.d. drukkið í sig salt, endurkastast útvarpsbylgjurnar öðruvísi en ef ekkert salt væri í munninum.
Gullramminn gegnir hlutverki einskonar bergmálstækis, sem styrkir bylgjurnar. Mynstur í endurvarpinu er lesið í sérstökum skynjara og niðurstöðurnar má t.d. senda áfram í snjallsímann.
Vísindamennirnir leggja áherslu á tvo kosti þessarar uppfinningar:
Aðlagast þér
Hún er einföld, litil og auðvelt að koma henni fyrir án þess að nokkur óþægindi stafi af og til viðbótar er hún sveigjanleg.
Sjálft skynefnið í miðjunni getur verið mismunandi og sérhæft til að drekka í sig tiltekin efni, þannig að skynjarann má aðlaga að þörfum hvers og eins.
Um 6000
er fjöldi þeirra bragðlauka sem við höfum í tungunni. Í hverjum bragðlauk eru 5-18 bragðfrumur, sem taka þátt í að greina bragðið.