Í meira en 100 ár hafa tvenn lungu legið í formalíni á læknasögusafninu í Berlín.
Lungun tilheyrðu tveimur ungum hermönnum sem létust úr spænsku veikinni 27. júní 1918 og nú hefur erfðafræðingum tekist að raðgreina þessa gömlu veiru í lungnavefnum.
Veiran var snemmbúið afbrigði og þar með getur veiran í lungum hermannanna veitt nýja þekkingu á þróun spænsku veikinnar.
50 milljónir deyja
Faraldurinn hófst í ársbyrjun 1918 og fyrsta bylgjan var tiltölulega mild en í ágúst tók skæðara afbrigði að breiðast út og kostaði milljónir mannslífa.
Þegar fjórða og síðasta bylgjan lognaðist út 1920 hafði um þriðjungur jarðarbúa smitast og faraldurinn hafði kostað upp undir 50 milljónir manna lífið.
500 milljón manns smitast af spænsku veikinni árin 1918-1920. Tíundi hver lætur lífið.
Þrisvar áður hefur tekist að raðgreina erfðamengi veirunnar en þá úr sýnum sjúklinga sem létust af völdum síðara og banvænna afbrigðisins.
Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þessari nýjustu raðgreiningu. Vefsýni úr fólki sem dó fyrir meira en heilli öld er eðlilega erfitt að finna en vísindamönnunum tókst að hafa uppi á alls 13 sýnum á söfnum og í annars konar varðveislu.
Af þeim reyndust þrjú nothæf, tvö úr hermönnunum og eitt úr 17 ára stúlku sem dó í München einhvern tíma á árinu 1918.
Rannsóknirnar hafa þegar leitt í ljós að veiran var í byrjun ekki tiltakanlega fær um að standast varnir ónæmiskerfisins. Í seinna og banvænna afbrigðinu fundust tvær stökkbreytingar sem auðvelduðu veirunni til muna að sleppa fram hjá ónæmiskerfinu.
Kórónuveiran sem nú er á ferð er reglubundið raðgreind til að fylgjast með tilkomu nýrra afbrigða.