Það eru ekki bara löglegar og ólöglegar hvalveiðar sem ógna risum hafsins. Ný rannsókn sýnir nefnilega að steypireyðinni stafar mikil ógn af örplasti í heimshöfunum.
Eins og aðrir skíðishvalir nær steypireyðurin fæðunni með því að sía hana úr kjaftfylli af sjó. Það sem eftir verður, þegar sjórinn hefur verið síaður út, er oftast smáfiskur, ljósáta og þörungar – en líka örplast.
Örplast er skilgreint sem þær plastagnir sem eru undir 5 mm á lengd. Á síðari árum hefur krufning hræja stundum leitt í ljós allt að 40 kíló af plasti í maga hvals.
Vísindamenn hjá Stanfordháskóla í Bandaríkjunum hafa nú notað samanburð á fæðuvenjum nærri 200 steypireyða, langreyða og hnúfubaka og þéttni örplasts í Kyrrahafinu undan strönd Bandaríkjanna til að komast að því hvaða hvölum stafi mest ógn af þessum mengunarvaldi.
Hvalategundunum er það sameiginlegt að leita helst að fæðu á 50-250 metra dýpi, enda er þar mest af t.d. ljósátu. Rannsóknirnar sýndu hins vegar að einmitt á þessu dýpi er líka mest af örplasti.
Einnig kom í ljós að steypireyðurin sem étur óheyrilega mikið af ljósátu, fær trúlega í sig allt að 10 milljón örplastflögur á dag en hnúfubakar líklega um 3 milljónir. Í samhenginu gera vísindamennirnir ráð fyrir að 98-99% af plastinu komi frá þeim 10-20 tonnum af fæðu sem hvalirnir kyngja á dag.
„Þetta er mesta daglega magn af örplasti sem áætlað hefur verið á nokkra skepnu fram að þessu,“ segir Matthew Savoca hjá Stanfordháskóla í Kaliforníu.
Hann segir næsta skref í rannsóknunum vera að komast að því hvaða áhrif þessi mikla plastneysla hafi á líkama hvalanna til lengri tíma litið.
Örplastið hefur reyndar síður en svo bara áhrif á sjávardýr. Örplastagnirnar geta verið svo fíngerðar að þær komast gegnum þarmaveggi og líkamsvefi manna.
„Örplast hefur meira að segja fundist í fylgju, brjóstamjólk og blóði,“ segir Matthew Savoca og undirstrikar líka að enn sé fullkomlega óljóst hvernig áhrif örplastið muni hafa á þessi risavöxnu spendýr þegar fram í sækir.