Svona er Richterskvarðinn

Jarðskjálftar hafa oft verið mældir með tölum á Richterskvarða þó svo nýrri kvarðar hafa í raun tekið yfir. En hvernig er kvarðinn uppbyggður?

BIRT: 02/08/2022

LESTÍMI:

3 mínútur

Hvað þýðir það eiginlega að jarðskjálfti hafi mælst 5,4 á Richter? Hverju jafngildir 5,4 miðað við aðra jarðskjálfta og hvernig er mælt?

 

Margir hafa spurt sig þessara spurninga nú þegar jörð skelfur svo mikið á suðvesturhorni landsins.

 

Hvað er Richterskvarði?

Richterskvarðinn hefur verið notaður um allan heim til að lýsa hversu stór og öflugur jarðskjálfti er. Kvarðinn var þróaður á fjórða áratug síðustu aldar af jarðskjálftafræðingnum Charles Francis Richter.

 

Kvarðinn er notaður til að flokka jarðskjálfta eftir svokallaðri „stærð“ þeirra – þ.e. stærð miðað við aðra skjálfta. Richterskvarðinn mælir styrk titringsins til að ákvarða hversu sterkur skjálftinn er.

 

Hvernig er Richterskvarðinn uppbyggður?

Richterskvarðinn er lógaritmískur kvarði sem byggir á grunntölunni 10. Jarðskjálfti sem mælist 6 á Richter er því tífalt sterkari en skjálfti sem mælist 5. Skjálfti 7 á Richter er því hundrað sinnum sterkari en skjálfti 5 á Richter en jarðskjálfti upp á 8 á Richter er 1.000 sinnum öflugri og svo framvegis.

 

Richter kvarðinn er ákvarðaður með því að lesa sterkustu áhrif jarðskjálfta á jarðskjálftamæla og breyta því í það sem annar jarðskjálftamælir 100 km frá uppruna skjálftans á yfirborði jarðar myndi sýna.

 

Kvarðinn er þekktur um allan heim en nýrri kvarði, svokallaður Vægisstærðarkvarðinn (Moment magnitude-scale)  er notaður við rannsóknir. Hann mælir mun betur orkuna sem losnar við jarðskjálfta.

 

Styrkleikastig  líkjast þeim sem eru á Richter kvarðanum, svo það er ekki mikill munur fyrir okkur venjulega fólkið.

Skjálftamælir mælir hræringarnar frá fjarlægum jarðskjálfta. Hinar mismunandi skjálftabylgjur ná til jarðskjálftamælisins með tímamun sem fer eftir fjarlægðinni að miðju skjálftans.

Hefur Richterskvarðinn mörk?

Það er ekkert fræðilegt þak á hversu öflugir jarðskjálftar geta orðið. En jarðskjálftar yfir 9,5 á Richter eru taldir jarðeðlisfræðilega ómögulegir, þar sem álagið myndi koma af stað skjálfta áður en þeir yrðu svo öflugir.

 

Richterskvarðinn

Richterskvarðinn er oft mældur í heilum tölum og aukastaf. Kvarðinn skiptist þannig:

 

 Styrkur 1-2: Veikur skjálfti án efnisskemmda. Menn finna sjaldnast fyrir honum.

 

Styrkur 3: Ennþá vægur skjálfti en með orku sem samsvarar eldingu.

 

Styrkur 4: Almenningur getur fundið fyrir honum. Möguleiki er á óverulegum skemmdum.

 

Styrkur 5: Hægt er að finna titringinn. Skorsteinar og veikburða byggingar verða fyrir skemmdum.

 

Styrkur 6: Skjálftarnir geta valdið mikilli eyðileggingu, þar sem venjulegar byggingar verða fyrir miklum skemmdum.

 

Styrkur 7: Sterkir jarðskjálftar með mikinn eyðileggingarkraft. Stöðug og sterk mannvirki geta orðið fyrir verulegum skaða.

 

Styrkur 8: Jarðskjálftaþolin mannvirki verða fyrir verulegum skaða. Orkan jafngildir stórri kjarnorkusprengingu.

 

Styrkur 9: Gríðaröflugur, umfangsmikill og eyðileggjandi skjálfti.

Jarðskjálftinn í Indlandshafi árið 2004 mældist 9,0 á Richter. Það hafði afdrifaríkar afleiðingar því svæðið er mjög þéttbýlt.

Stærsti skjálftinn

Öflugasti og stærsti skjálftinn sem mælst hefur á Richter varð undan ströndum Chile 22. maí 1960. Hann mældist um 9,5 á Richter.

 

Miðja skjálftans var 150 kílómetra frá ströndinni á strjálbýlu svæði þannig að „aðeins“ 6.000 manns létu lífið vegna skjálftans og flóðbylgjunnar. Flóðbylgjan barst yfir Kyrrahafið og þegar hún barst til Japans 22 tímum síðar bættust 200 manns til viðbótar við þá sem létust.

 

Jarðskjálftinn í Indlandshafi árið 2004 mældist um það bil 9,0 á Richter sem þýðir í raun að hann var verulega veikari. En þar sem strendur á svæðinu voru þéttbýlar, voru afleiðingarnar mun alvarlegri og um 227.000 manns fórust.

 

Öflugir jarðskjálftar eru sjaldgæfir

Svona öflugir jarðskjálftar eru sem betur fer sjaldgæfir. Frá árinu 1900, þegar kerfisbundnar mælingar hófust, hefur að meðaltali minna en einn jarðskjálfti mælst á ári af stærðinni 8,0 á Richter.

 

Til samanburðar mælast um 150.000 af styrkleika 3,0-8,0 á Richter.

Suður-Evrópu er hættara við öflugum skjálftum vegna nálægðar við mörk Afríkuflekans og Evrasíuflekans.

Hér á landi eru litlar líkur á skjálfta yfir 7 á Richter m.a. vegna þess að jarðskorpan er mjög ung og frekar heit. Stökki hlutur hennar er því mjög þunnur og getur ekki byggt upp mikla spennu.

BIRT: 02/08/2022

HÖFUNDUR: Ritstjórn

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is