Táningar reyna að fremja fullkominn glæp 

Tveir auðmannasynir frá Chicago eru helteknir af eftirvæntingu. Þegar skemmdarverk og bílaþjófnaður verða of hversdagsleg ráðgera þeir að fremja hinn fullkomna glæp: Morðmál sem ekki er hægt að leysa.

BIRT: 29/08/2023

LESTÍMI:

5 mínútur

Það reyndist erfiðara að troða líki stráksins niður í holræsið en ungmennin höfðu gert ráð fyrir.

 

Tvímenningarnir höfðu misreiknað sig og þvermál þess reyndist vera minna en þeir ætluðu. Stjarfi var kominn í líkið og djúpt vatnið í holræsinu auðveldaði alls ekki verkið.

 

Að lokum sparkaði Nathan Leopold óþolinmóður líkinu á sinn stað. Nathan klifraði síðan harla ánægður upp til vinar síns, Richard Loeb sem beið spenntur eftir honum. Láglent svæðið umhverfis Wolf Lake í Chicago var baðað í síðdegissólinni en hvergi sást manneskja á ferli.

 

Leopold og Loeb horfðu glaðir í bragði hvor á annan. Þetta var miðvikudaginn þann 21. maí 1924 og þeir höfðu nýverið framið hið fullkomna morð.

Lík 14 ára drengsins fannst í frárennslisröri. Aðeins nokkrum klukkustundum síðar komst morðið á forsíðurnar.

Ofurmaðurinn og fuglafræðingurinn

Ofurmaðurinn og fuglafræðingurinn Nathan sem var aðeins 19 ára gamall og 18 ára gamli Richard, voru tveir fordekraðir auðmannssynir sem báðir bjuggu heima hjá foreldrum sínum í einu besta hverfi Chicago, Kenwood-hverfinu.

 

Þeir voru fáir sem þoldu stærilætið í hinum grobbna Nathan. Hann lagði enga dul á manískan áhuga sinn á Nietzsche og var heltekinn af hugmyndum þýska heimspekingsins um sjálft „ofurmennið“ sem stendur utan við lög og reglur.

 

Samkvæmt Nathan mátti jafnvel réttlæta dráp með siðferðilegum röksemdum. Félagi hans, Richard, var einnig eldklár og m.a. yngstur til að útskrifast frá University of Michigan en var um þessar mundir heillaður af glæpasögum. Einfararnir tveir náðu vel saman í harla uggvekjandi vináttu.

 

Richard var sérstaklega sólginn í áhættu. Frá því að svindla í spilum þróaðist áráttan yfir í skemmdarverk. Nathan dáði Richard og féllst á allt sem hann lagði til. Brátt tóku auðmannssynirnir að eyðileggja og stela bílum. Áhættan sem þeir tóku var sífellt meiri.

 

En þar sem þeir voru aldrei gripnir glóðvolgir við verkin ákváðu þeir Nathan og Richard að hætta öllu til og taka mestu áhættu sem þeir gátu ímyndað sér – þeir ætluðu að fremja morð sem ekki væri hægt að leysa.

 

Í heila sjö mánuði lögðu þeir á ráðin um hið fullkomna morð. Þeir ræddu ítarlega hvern skyldi drepa og hvernig bæri að eyðileggja öll sönnunargögn.

 

Nathan og Richard vildu að morðið fæli í sér sem mestar áskoranir. Fórnarlambið ætti því ekki að vera einhver tilfallandi persóna í fjarlægum bæ, heldur einhver sem stóð þeim nærri.

 

Þegar búið væri að drepa viðkomandi ætluðu þeir að krefjast lausnargjalds af fjölskyldunni með því eina markmiði að fá afbrotið til að virðast vera trúverðugt og auka áhættuna á því að uppgötvast. Þeir fundu síðan fórnarlambið í hinum 14 ára Bobby Franks.

 

Hann bjó einnig í Kenwood-hverfinu og var í raun ungur frændi Richards. Þann 21. maí sáu ungu tvímenningarnir strákinn Bobby einan á ferð úr skóla til heimilis síns. Auðvelt reyndist að lokka drenginn upp í bílinn sem Richard og Nathan höfðu leigt. Þeir höfðu afráðið að keyra Bobby út til Wolf Lake og kyrkja hann í sameiningu til þess að þeir væru báðir jafn sekir um glæpinn.

 

En hlutirnir þróuðust ekki eins og þeir væntu. Þegar Bobby var kominn inn í baksætið á bílnum reyndi Richard að rota hann með meitli en drengurinn veitti mótspyrnu. Richard missti stjórn á sér. Hann lét hvert höggið eftir öðru dynja á höfuðkúpu frænda síns með meitlinum, þar til bíllinn var fullur af blóðslettum og drengurinn líflaus.

Bobby Franks var myrtur af Loeb og Leopold fyrir spennuna.

Gleraugun komu lögreglu á sporið

Áður en Nathan sparkaði líki Bobbys ofan í holræsið við Wolf Lake helltu félagarnir sýru yfir andlit hans og kynfæri svo örðugara yrði að bera kennsl á drenginn, sem og þá staðreynd að hann var umskorinn, rétt eins og þeir sjálfir.

 

Eftir þetta keyrðu félagarnir til Chicago. Á leiðinni keyptu þeir frímerki fyrir bréf um lausnargjaldskröfu, rétt eins og um mannrán væri að ræða. Síðan fóru þeir með blóðug föt Bobbys og sín eigin sem þeir brenndu í kyndiklefanum undir húsi Richards.

 

Þegar búið var að fjarlæga þessi blóðugu sönnunargögn hringdi Nathan til móður Bobbys, Floru Franks og kynnti sig sem Mr. Johnson. Hann sagði henni að sonur hennar væri vel haldinn og að hún myndi síðar fá bréf með kröfu um lausnargjald sem nam 10.000 dölum.

 

En áður en Flora Franks og maður hennar fengu bréfið fór áætlun Nathans og Richards úrskeiðis: Klukkan átta næsta morgun var verksmiðjueigandinn Tony Minke á leiðinni heimleiðis eftir göngustígunum meðfram síkinu við Wolf Lake.

 

Í bjartri morgunsólinni sá hann nakinn fótlegg standa upp úr gruggugu holræsinu og kallaði á lögreglu. Fréttin um hið „versta afbrot í sögu Chicago“ var brátt á forsíðum allra blaða í borginni. Þrátt fyrir að ekki væri enn búið að bera kennsl á líkið voru Nathan og Richard uggandi og hættu við að krefjast lausnargjalds.

 

Þeir drógu þó andann öllu léttar þegar kennari við skóla Bobbys var handtekinn. Orðrómur var um að hann væri samkynhneigður og því perri. Lík Bobbys var nakið þegar hann fannst og lögreglan taldi því að um kynferðisafbrot væri að ræða.

 

En rannsóknarlögreglan beindi einnig sjónum sínum að gleraugum sem höfðu fundist fáeinum metrum frá líkinu. Umgjörðin var dýr og sérkennileg. Eftir að hafa spurst fyrir hjá sjóntækjafræðingum borgarinnar kom skjótt í ljós að gleraugu þessi tilheyrðu Nathan Leopold og var hann færður til yfirheyrslu.

 

Bílstjóri Leopold-fjölskyldunnar ber vitni

Nathan viðurkenndi að gleraugun væru hans. En hann útskýrði einnig að fyrir daginn sem morðið var framið, hafði hann verið á svæðinu til að skoða fugla ásamt félaga sínum og hlyti að hafa týnt gleraugunum þá.

 

Félagi hans gat sem betur fer staðfest þessa útskýringu. Nathan tjáði lögreglunni ennfremur að hann og Richard hefðu verið að aka um á morðdeginum í Willies-Night sportbíl Nathans í leit að stúlkum. Allt virtist þetta vera sannleikanum samkvæmt.

 

Ríkissaksóknari Illinois, Robert Crew, var þó fullur grunsemda í garð Nathans og Richards.

 

Tæknilegar rannsóknir sýndu að bæði bréfið um lausnargjaldið, ásamt pappírum sem fundust við rannsókn á herbergi Richards, var ritað á sömu Underwood-ritvélina.

 

Tvímenningarnir höfðu stolið henni í háskólanum í Ann Arbour sem er í sex tíma akstursfjarlægð frá Chicago. En þar sem þeir höfðu losað sig við ritvélina var lögreglan án eiginlegra sönnunargagna.

 

Bæði fjölskylda Loeb og Leopold héldu fram sakleysi sonanna. Í því endamiði sendi faðir Nathans bílstjóra fjölskyldunnar, Sven Englund, til að bera vitni fyrir saksóknarann.

 

Daginn sem morðið var framið hafði Nathan beðið Englund um að kíkja á bremsurnar á rauðum sportbíl sínum. Sá stóð fyrir utan bílskúrinn allan daginn og án hans hefði Nathan – samkvæmt góðhjörtuðum pabba hans – ekki getað komist til Wolf Lake.

 

Crowe hnaut um þessa útskýringu. Þetta stemmdi jú alls ekki við sögu Nathans um að hann og Richard hefðu verið á rúntinum í sama bíl í leit að stúlkum.

 

Nathan fékk að lesa þennan framburð bílstjórans og játaði þá á sig morðið. Hann bætti þó við að það hefði fyrst og fremst verið Richard sem lagði á ráðin um þennan verknað og drepið Bobby.

 

Snemma morguns þann 31. maí hélt Robert Crowe hróðugur út til blaðamanna og tilkynnti þeim að afbrotamennirnir væru nú í fangelsi, einungis 10 dögum eftir að þeir töldu sig hafa framið „hið fullkomna morð“.

 

Nietzsche var kennt um

Lögfræðingur sannfærði kviðdóm um að Loeb og Leopold skyldu ekki dæmdir til dauða.

 

Morðið á Bobby Franks vakti mikla athygli um gjörvöll Bandaríkin og fylgdust menn grannt með réttarhöldunum yfir þeim Nathan Leopold og Richard Loeb. Saksóknarinn Robert Crowe krafðist dauðarefsingar en hinn heimsfrægi lögmaður Clarence Darrow sannfærði í varnarræðu sinni dómarann um að þessir tveir ungu menn ættu betur heima í lífstíðarfangelsi.

 

Hann nýtti sér þá staðreynd að félagarnir voru helteknir af Nietzsche og höfðu þannig komist í tæri við hugmyndir sem þeir gátu ekki sjálfir stjórnað og því bæri ekki að refsa þeim með dauðadómi. Darrow bjó þarna til fordæmi fyrir því að utanaðkomandi þættir geti verið mildandi í morðmálum.

 

Richard Loeb náði að afplána 11 ár í Stateville fangelsinu en þá var hann drepinn af meðfanga þann 28. janúar 1936. Málið var þaggað niður þar sem fanginn kvaðst hafa verið að verja sig undan kynferðislegri áreitni.

 

Nathan Leopold var sleppt fyrir góða hegðun árið 1958 og lifði hann í Puerto Rico þar til hann dó árið 1971.

Lesið meira um Leopold og Loeb

  • Simon Baatz: For the Thrill of it – Leopold, Loeb, and the Murder That Shocked Jazz Age Chicago, Harper Perennial, 2008.

BIRT: 29/08/2023

HÖFUNDUR: HANS HENRIK FAFNER

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Getty Images. © Polfoto/Corbis.

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is