Fyrir 4,5 milljörðum ára rakst pláneta á stærð við Mars á hina ungu Jörð. Þessi harði árekstur þeytti miklu magni efnis út á hringlaga braut umhverfis jörðina. Þetta efni rann svo saman og myndaði tunglið.
Þetta hefur verið hin viðtekna kenning um tilurð tunglsins. En málið er ekki svo einfalt, segja nú vísindamenn m.a. hjá Harvardháskóla í BNA.
Þeir hafa sett fram athyglisverða kenningu, sem segir að við áreksturinn hafi hnötturinn ummyndast í gríðarstóran kleinuhring úr fljótandi og gaskenndum bergefnum.
Fljótandi efni varð að tunglinu
Fyrst eftir áreksturinn ríkti gríðarmikill þrýstingur og 3-4.000 stiga hiti í þessu hringskýi. Á einum stað í skýinu tók hið fljótandi efni að draga sig saman í kúlu sem síðar varð að tunglinu.
Á fáeinum árum kólnaði skýið og dróst saman þannig að tunglið lenti á braut utan skýsins, sem svo þéttist enn meira og endurmyndaði jörðina.
Vísindamennirnir segja einkum tvennt styðja þessa hugmynd. Þetta getur skýrt hvers vegna minna er af þeim frumefnum í tunglinu, sem auðveldlega geta tekið á sig gasform.
Ástæðan er þá sú að hitastig í skýinu var of hátt til að gasefnin næðu að þéttast fyrr en eftir að máninn hafði myndast.
Í öðru lagi geta kleinuhringsský myndast við ýmiskonar árekstra milli himinhnatta og það styður við þessa kenningu.
Eldri kenningin gerir ráð fyrir árekstri af alveg sérstakri gerð milli jarðar og hnattar af tiltekinni stærð til að geta skapað það tungl sem við sjáum nú á himni.
Tunglið myndaðist í kleinuhringskýi
Þegar framandi hnöttur skall á jörðinni, leysti hann plánetuna upp og hún varð að glóandi heitu skýi, með svipaða lögun og kleinuhringur. Tunglið myndaðist í skýinu.