Lifandi Saga

Uppreisn Castros velti einræðisherranum úr sessi

Uppreisnarleiðtoginn Fidel Castro vill hrekja hinn hataða einræðisherra Kúbu, Batista, af valdastóli. Hann hefur baráttuna með aðeins 20 hermenn en þeim fjölgar á skömmum tíma upp í mörg þúsund og á endanum neyðist Batista til að viðurkenna að stjórnartíð hans er á enda runnin.

BIRT: 13/03/2022

Til Kúbu koma breytingar yfirleitt sjóleiðina. Árið 1492 kom Kristófer Kólumbus til Kúbu og hóf þar með nýjan kafla í veraldarsögunni.

 

Árið 1895 sigldi José Martí til Kúbu og hóf styrjöldina sem losaði íbúana undan yfirráðum spænskra nýlenduherra. Og 2. desember 1956 nálgast 82 síðskeggjaðir menn ströndina á lítilli, hriplekri, vélknúinni snekkju.

 

Báturinn heitir Granma og leiðtoginn um borð er Fidel Castro. Snekkjan er illa farin en Fidel Castro og félagar hans ætla sér mikið þrekvirki.

 

Sjö dögum fyrr höfðu þeir siglt af stað frá Mexíkó í þeim tilgangi að hefja byltingu á Kúbu og steypa harðstjóranum Batista.

Einræðisherra Kúbu, Fulgencio Batista, hafði hrifsað völdin í valdaráni hersins 1952.

Ferðin hefur ekki gengið áfallalaust. Sjóferðin var erfið á Granma en snekkjan var aðeins 18 metra löng og ætluð 12 manns.

 

Byltingarmennirnir hlóðu hana alveg að þolmörkum með vopnum og skotfærum. Ferðin sóttist svo hægt að Fidel Castro og félagar hans eru nú tveimur sólarhringum á eftir áætlun.

 

Talstöðin virkar ekki og þeir geta því ekki haft samband við bandamenn sína sem bíða þeirra í landi.

 

Snekkjan er að verða eldsneytislaus og skipstjórinn, Norberto Collado Abreu, ákveður að taka stystu leið að landi: Playa las Coloradas. En það er ekki heppilegur lendingarstaður.

 

Þarna er fenjasvæði, þakið reyrplöntum og örþreyttir hermennirnir geta ekki dregið þungavopnin með sér á land.

 

Þeir gera sér líka ljóst að stjórnarhermenn vita af þeim og yfirgefa því snekkjuna í fljótheitum og hyggjast komast inn í landið, inn að Sierra Maestra-fjöllum við borgina Santiago de Cuba, í fátæku héraði í austurhluta landsins.

 

Hirð Batista lifði í vellystingum

Santiago er næststærsta borg Kúbu en auðævum landsins er misskipt. Í höfuðborginni Havana er læknisþjónusta, skólar og flestir hafa nóg að borða.

 

Peningarnir koma frá bandarískum ferðamönnum sem gista á lúxushótelum og eyða miklum peningum í spilavítum eða í romm og vindla.

 

Ríkisstjórn Batista er ekki einungis í góðum tengslum við bandarísk stjórnvöld, heldur líka við bandaríska undirheima og mafíósinn Meyer Lansky hefur komið upp ámóta lystisemdum í Havana og skemmtiborginni Las Vegas.

 

Bandarískir mafíósar höfðu gert Havana að sannkallaðri ferðamannaparadís fyrir auðuga Bandaríkjamenn.

Í Havana keyra stjórnarliðar um í gljáfægðum amerískum bílum en innar í landinu þræla verkamenn á sykurekrum í bandarískri eigu.

 

Utan höfuðborgarinnar er fátæktin ríkjandi. Fólk sveltur, barnadauði er mikill og flestir þurfa að vinna erfiðisvinnu á sykurekrunum, jafnvel frá barnsaldri.

 

Þeir sem ekki græða peninga undir stjórn Batista eru orðnir afar þreyttir á þessum einræðisherra sem komst á forsetastól í valdaráni hersins 1952.

 

Batista var lýðræðislega kjörinn forseti og fremur vel liðinn 1940-44 og í kosningunum 1952 bauð hann sig fram.

Valdhafar misnotuðu aðstöðu sína

Um áratugaskeið hafði hershöfðinginn Batista verið sterki maðurinn á Kúbu. Hann hafði góð tengsl bæði við bandarísk stjórnvöld og bandaríska mafíósa.

Fulgencio Batista y Zaldívar (1901-1973) stóð þegar árið 1933 fyrir valdaráni hersins og varð þá yfirmaður alls heraflans. Eftir þetta var Batista sá sem mestu réði en stjórnaði í gegnum ýmsar ríkisstjórnir. Hann hafði góð tengsl við bæði stjórnvöld og mafíuna í Bandaríkjunum. Á árunum 1940-44 gegndi hann sjálfur embætti forseta. Þegar kom að kosningum 1952 bauð hann sig fram á ný en þegar skoðanakannanir sýndu að hann myndi tapa, rændi herinn völdunum. Árið 1959 flúði hann til Dóminíkanska lýðveldisins og starfaði síðar hjá spænsku tryggingafélagi.

Meyer Lansky (1902-1983) var ásamt Charles „Lucky“ Luciano og Bugsy Siegel meðal þekktustu mafíósa, þegar hann komst í samband við Batista á fjórða áratugnum. Lansky fékk nokkuð frjálsar hendur á Kúbu og reisti þar mörg hótel og spilavíti sem hvort tveggja laðaði auðuga Bandaríkjamenn til Kúbu. Þegar hermenn Fidels Castro nálguðust Havana á gamlársdag 1958 sá Batista til þess að koma Meyer Lansky snarlega úr landi með flugvél.

Skoðanakönnun sem birt var skömmu fyrir kosningar sýndi hins vegar að Batista var ekki vinsælasti frambjóðandinn. Hann skipulagði því valdarán til að komast hjá því að tapa kosningum.

 

Á þessum tíma var Fidel Castro ungur lögfræðingur á lítilli lögmannsstofu í Havana og var sjálfur meðal frambjóðenda.

Fidel Castro var leiðtogi stjórnarandstöðuflokks og frambjóðandi í forsetakosningunum sem Batista kom í veg fyrir með valdaráninu.

Hann var virkur í stjórnarandstöðuflokknum Partido Ortodoxo sem frá 1947 hafði barist gegn útbreiddri spillingu innan ríkiskerfisins og hafði umbætur á kjörum dreifbýlisbúa á stefnuskránni.

 

En valdaránið gerði áætlanir Fidels Castro að engu.

 

Fyrsta tilraunin fór út um þúfur

Í Havana kynntist Fidel Castro fjölmörgum öðrum andstæðingum Batista.

 

Þeir ákváðu að grípa til vopna til að velta einræðisherranum úr sessi og 26. júlí 1953 voru þeir tilbúnir í fyrstu aðgerðina, árás á Moncada-herstöðina í Santiago og minni herstöð í Bayamo.

 

Fidel Castro stóð að byltingartilraun 1952 en hún misheppnaðist algerlega og uppreisnarmennirnir voru teknir til fanga.

Uppreisnarmenn hugðust stela vopnum fyrir komandi baráttu og í dagrenningu létu þeir til skarar skríða. Bæði áhlaupin misheppnuðust gjörsamlega.

 

Uppreisnarmennirnir voru alls 160 og til þeirra sást áður en þeir náðu að gera áhlaup sín sem þeir höfðu reiknað með að kæmu algerlega á óvart. Þeir höfðu einungis létt handvopn og áttu því aldrei möguleika í orrustu gegn hermönnum. Til viðbótar voru þeir miklu fámennari.

 

Stjórnarhermenn drápu alls 61 uppreisnarmann.

 

Aðrir uppreisnarmenn, þeirra á meðal Fidel Castro og bróðir hans Raúl, flýðu og földu sig uppi í torfærum Sierra Maestra-fjöllum, en stjórnarliðar fundu þá fljótlega og tóku til fanga.

 

Það voru einungis persónuleg tengsl sem komu í veg fyrir að Fidel Castro yrði skotinn en í réttarhöldunum sem fylgdu í kjölfarið varði hann sig sjálfur.

 

Áður en dómur féll hélt hann fjögurra klukkustunda ræðu sem síðar varð fræg undir heitinu „Sagan mun sýkna mig“.

Uppreisnarmenn rústuðu einveldinu

Valdarán Batista skapaði honum miklar óvinsældir. Fidel Castro skipulagði andspyrnuhreyfingu og meðal liðsmanna hans var byltingartáknið mikla Che Guevara.

 

Ernesto „Che“ Guevara (1928-1967) var Argentínumaður. Hann ferðaðist um Suður-Ameríku 1951 og sá hversu illa var búið að fólki í þessum heimshluta. Niðurstaða hans var sú að vopnuð bylting væri eina lausnin og þegar hann hitti Fidel Castro í Mexíkó 1955 fann hann málstað sem hann var reiðubúinn að berjast fyrir. Eftir sigurinn á Kúbu var Che um kyrrt í nokkur ár en fór svo til meginlandsins til að berjast með byltingarsinnum í öðrum ríkjum. Bólivískir hermenn tóku hann til fanga 1967 og tóku af lífi án dóms og laga.

Fidel Alejandro Castro Ruz (1927-2016) hafði í bernsku meiri áhuga á íþróttum en bókum en fékk áhuga á stjórnmálum í lögfræðinámi við háskólann í Havana. 1947 gekk hann í flokkinn Partido Ortodoxo sem vildi taka á vaxandi spillingu í landinu. Þegar stofnandi flokksins, Eduardo Chibas, svipti sig lífi í beinni útsendingu í útvarpsviðtali, steig Fidel Castro fram sem frambjóðandi í forsetakosningunum sem Batista kom svo í veg fyrir með valdaráni. Fidel Castro naut almennt vinsælda á Kúbu en árið 2008 dró hann sig í hlé af heilsufarsástæðum.

Í ræðu sinni lýsti hann framtíðarsýn sinni, þar sem verkamenn áttu að fá hluta af arði fyrirtækja og bandarískum sykurplantekrum skyldi skipt milli bændanna.

 

Fidel Castro réttlætti árásirnar á herstöðvarnar með því að Batista væri einræðisherra og hélt því fram að yrði hann fundinn sekur myndi sagan ómerkja þann dóm sem mistök.

 

Þessi vel mælti lögfræðingur slapp við dauðadóm sem vissulega var yfirvofandi en fékk 15 ára fangelsisdóm.

 

Refsinguna átti hann að afplána á eyjunni Isla de Pinos sem nú heitir Isla de la Juventud en eftir tæp tvö ár voru allir uppreisnarmennirnir náðaðir. Castro fór þá strax til Mexíkó.

 

KGB neitaði að aðstoða Fidel Castro

Misheppnuðu árásirnar höfðu kennt Fidel Castro þá lexíu að bylting þarfnaðist betri undirbúnings og hann hófst þegar handa.

 

Byltingarleiðtoginn safnaði um sig hópi skoðanabræðra og nefndi þennan her sinn „Movimentu 26 de Julio“ eða 26. júlí-hreyfinguna, eftir deginum sem áhlaupin voru gerð á herstöðvarnar á Kúbu.

 

Hópurinn komst í samband við uppgjafahermenn sem gátu þjálfað meðlimina í vopnaburði og hermennsku og setti sig líka í samband við útsendara KGB í þeim tilgangi að fá fjárhagsaðstoð til kaupa á vopnum og öðrum búnaði. KGB beit ekki á agnið en byltingarsinnum tókst hins vegar að safna nokkru fé frá brottfluttum Kúbverjum sem bjuggu í Bandaríkjunum.

 

Fidel Castro var ljóst að beinn hernaður gegn öflugum her Batista væri vonlaus. Eina ráðið til að brjóta herstjórnina á bak aftur fólst í skæruhernaði.

 

Rétt valdar aðgerðir ættu með tímanum að valda ótta í stjórnarhernum og auka þrýsting á stjórn Batista.

Fidel Castro ætlaði að fljúga til Kúbu í sjóflugvél en hafði bara efni á gamla vélbátnum Granma.

Byltingarmenn voru sannfærðir um að þeir myndu á skömmum tíma fá mikinn stuðning frá almenningi, einkum í fátæktarhéruðunum á Austur-Kúbu og Fidel Castro tók því að undirbúa ferðina til heimalandsins.

 

Upphaflega var hugmyndin að kaupa Catalina-sjóskíðaflugvél en peningarnir dugðu ekki til og á endanum urðu menn að sætta sig við gömlu snekkjuna Granma.

 

Þann 26. nóvember 1956 var haldið af stað til Kúbu.

 

Aðeins 20 menn stóðu eftir

Samkvæmt áætlun áttu byltingarmenn að koma til Kúbu þegar allsherjarverkfall stæði yfir en sjóferðin reynist nú taka mun lengri tíma en gert var ráð fyrir.

 

Til að komast á leiðarenda hafa byltingarmenn tekið með sér 8.000 lítra af dísilolíu aukalega og til viðbótar er báturinn drekkhlaðinn af mörgum tonnum af vopnum, skotfærum og vistum, auk 82 manna. Granma ristir því nokkuð djúpt.

 

Vélin er ekki aflmeiri en svo að hún á fullt í fangi með að knýja Granma í öldugangi og leiðangurinn nær ekki til Kúbu fyrr en tveimur dögum seinna en Castro hafði reiknað með.

 

Á landi bíða um 50 aðrir stjórnarandstæðingar með jeppa, vörubíla, eldsneyti, mat og vopn en talstöðin um borð virkar ekki nógu vel og byltingarmenn ná því aldrei sambandi til að ákveða staðsetningu til að hittast.

 

Eftir nokkuð svo óreiðukennda lendingu rætist ekki vel úr framhaldinu.

 

Að vísu reynast bændurnir á svæðinu fúsir til hjálpar. Þeir gefa hinum soltnu ferðalöngum mat og vísa þeim til vegar. En þann 5. desember er heppnin ekki lengur með þeim.

 

Leiðsögumaðurinn sem fylgt hefur þeim áleiðis lætur stjórnvöld vita og hermenn Batista finna þá.

 

Myndband: Viðtal við Fidel Castro árið 1959

Án þungavopnanna sem menn höfðu neyðst til að skilja eftir í Granma eru þeir í vonlausri stöðu gegn stjórnarhermönnum. Byltingarmenn leggja á flótta í örvæntingu en stjórnarhermenn skjóta mikinn fjölda þeirra til bana.

 

Margir þeirra sem komast af eru illa sárir og á flóttanum missa þeir sjónar hver á öðrum.

 

Það er ekki fyrr en mörgum dögum síðar sem þeir ná saman aftur og geta nú áttað sig á mannfallinu. Aðeins 20 menn hafa lifað af.

 

Þeirra á meðal eru bræðurnir Fidel og Raúl Castro, náinn vinur þeirra Camilo Cienfuegos og Che Guevara sem hefur fengið skot í fótinn og er illa særður.

 

Byltingarmennirnir hafa nú engan mat, hermenn Batista eru á hælum þeirra og ef þeir finnast verður síðasti vonarneistinn um byltingu á Kúbu þar með endanlega slökktur.

 

En Fidel Castro er óbugandi bjartsýnismaður. „Við vinnum þetta stríð! Baráttan er bara rétt að byrja,“ segir hann við félaga sína.

 

Þessar fámennu leifar hersins halda kyrru fyrir uppi í fjöllunum um hríð og sleikja sárin en á næstu vikum taka nýir liðsmenn að bætast í hópinn.

 

Og innan skamms eru þeir tilbúnir að halda áfram. Hernaðaráætlunin felst í því að ráðast á litlar herstöðvar í fjalllendinu til að stela vopnum og ná svo smám saman undir sig stækkandi svæði.

 

Fyrst ákveða þeir að ráðast á litla varðstöð við La Plata-fljót þar sem hermennirnir eru um 15 talsins.

 

Vopnabirgðir byltingarmannanna sem nú eru orðnir 32 eru 17 rifflar, tvær vélbyssur, ein haglabyssa, nokkrar handsprengjur og nokkrar dínamíttúbur.

 

Varðstöðin er vopnuð vélbyssuhreiðri og hermennirnir 15 hafa allir hálfsjálfvirka M1 Garand-riffla.

 

Þann 17. janúar 1957 skýtur Fidel Castro tveimur runum úr Thompson-vélbyssunni til marks um að árásin sé hafin.

 

Sumir skæruliðarnir hafa aldrei áður haldið á byssu en þeir skjóta allt hvað af tekur á hermennina sem ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið.

 

Samtímis kasta þeir handsprengjum og dínamíti að húsunum í varðstöðinni. Sprengjurnar reynast þó vera ónýtar og hafa engin áhrif en skotvopnin virka vel.

 

Þegar púðurreyknum slotar eftir skothríðina, hafa skæruliðarnir skotið fimm hermenn, tekið þrjá til fanga en hinir sjö eru flúnir.

 

Uppskeran reyndist átta M1-Garand-rifflar, ein Thompson-vélbyssa, 1.000 skot og talsvert af vistum. Byltingarherinn hefur nú unnið sinn fyrsta sigur.

 

Batista verður fokreiður þegar hann fréttir að vel smurð stríðsvél hans hafi ekki náð að þurrka út nokkra illa búna uppreisnarmenn í Sierra Maestra.

 

Forsetanum er mæta vel kunnugt að skæruliðarnir eiga allt sitt undir hjálp almennra íbúa og sem hefnd lætur hann flugherinn gera loftárásir á allmörg býli á svæðinu.

 

Það hefur hins vegar þveröfug áhrif. Hefnd Batista eykur stuðning almennings við Fidel Castro.

 

Misheppnað tilræði

Andstaðan gegn Batista breiðist út og líka í höfuðborginni taka íbúarnir að sýna óánægju sína með forsetann.

 

Þann 13. mars 1957 stormar hópur stúdenta við háskólann í Havana að forsetahöllinni í þeim tilgangi að myrða Batista. Aðgerðin er hins vegar illa undirbúin. Stúdentarnir komast inn í höllina en finna ekki íbúð forsetans. Þeir eru síðan ýmist handteknir eða skotnir á staðnum.

 

Leiðtogi hópsins, Jose Antonio Echeverria, hefur á sama tíma komist inn í útvarpsstöð, þar sem hann útvarpar tilkynningu um dauða Batista, fullviss um að tilræðið hafi heppnast. Á endanum tekst tæknimönnum að rjúfa útsendinguna.

 

Á leið frá útvarpsstöðinni lendir Echeverria fyrir tilviljun í árekstri við lögreglubíl og lætur síðan lífið í skotbardaga við lögreglumenn. Örskömmu síðar ber ríkisútvarpið fréttina um dauða Batista til baka.

 

Í Sierra Maestra tekst Fidel Castro og félögum hans mun betur upp.

 

Eftir La Plata-aðgerðina fjölgar mjög hratt í skæruliðahernum og liðsmennirnir verða þekktir sem „Los Barbudos“ eða „Síðskeggjarnir“. Þeir vinna fleiri sigra og bændur vinna markviss skemmdarverk þeim til aðstoðar.

José Martí, hetja sjálfstæðisbaráttunnar, féll í stríðinu við Spánverja.

Saga Kúbu einkenndist af átökum

Áður en Fidel Castro náði völdum var Kúba ekki sjálfstætt ríki nema að nafninu til. Fyrst var landið undir stjórn spænskra nýlenduherra en eftir það höfðu Bandaríkjamenn í raun mest áhrif.

 

Þegar Kólumbus kom til Kúbu 1492 bjuggu margar indíánaþjóðir í landinu en Spánverjar útrýmdu þeim að mestu með harkalegri framgöngu sinni.

 

Sem spænsk nýlenda var Kúba notuð til mikillar framleiðslu á sykurreyr. Vinnuaflið voru þrælar frá Afríku.

 

Á 19. öld var andstaðan gegn spænsku nýlenduherrunum orðin svo útbreidd að uppreisn lá í loftinu og 1895 tók skáldið José Martí forystuna fyrir uppreisn sem naut stuðnings Bandaríkjamanna.

 

Eftir þriggja ára stríð neyddust Spánverjar að yfirgefa landið.

 

Bandaríkjamenn áttu mikilla hagsmuna að gæta á Kúbu og héldu þétt um landsstjórnina gegnum ýmsar ríkisstjórnir á áratugunum sem í hönd fóru.

 

Bandaríkjamenn studdu líka Batista til að halda vinstrisinnum frá völdum en þegar skæruliðar Fidels Castro tóku fyrir alvöru að ógna stjórn Batista, drógu Bandaríkjamenn stuðning sinn til baka.

 

Bandaríkin viðurkenndu stjórn Fidels Castro í upphafi en sambandið kólnaði hratt þegar Castro lagði fram hugmyndir sínar um sósíalistaríki.

 

Árið 1962 setti Bandaríkjastjórn algert viðskiptabann á Kúbu.

Bændur sprengja upp brýr, klippa símalínur og brjóta upp lestarteina. Eyðilegging innviða kemur í veg fyrir birgðaflutninga og aðgerðir hersins og í maí er Fidel Castro tilbúinn í stærri atlögu: árásina á herstöðina í Uvero.

 

Í þessari herstöð eru 53 hermenn og aðgerðin því áhættusamari en fyrri smáskærur en leiðtoginn beitir nú 80 vopnuðum skæruliðum. Eftir 20 mínútna skothríð er bardaganum lokið.

 

Hermenn Batista hafa drepið sex skæruliða en sjálfir misst 14 menn. Hinir gefast upp og skæruliðar Castros ræna öllum vopnum og skotfærum.

 

Skæruliðarnir öðluðust trú á sigur

Sigurinn í Uvero var mikilvægur fyrir byltingarmennina. Atlagan var gerð í dagsbirtu. Þetta var bein árás og skotorrusta og skæruliðarnir hafa náð á sitt vald mikilvægum vopnabirgðum.

 

Félagar Fidels Castro eru þegar hér er komið sögu orðnir þreyttir á frumstæðum aðbúnaði í fjöllunum og sífelldum skorti á grundvallarnauðsynjum, svo sem mat og tóbaki en sigurinn í Uvero léttir lundina og skæruliðarnir öðlast nú trú á að sigur á stjórnarhernum sé mögulegur.

Skæruliðarnir bjuggu við afar frumstæðar aðstæður í fjöllunum á austurhluta Kúbu. Þeir voru algerlega háðir hjálp bænda á svæðinu og vopnum sínum höfðu þeir stolið af hermönnum Batista.

Á móti þyngist mórallinn meðal 30.000 hermanna Batista og þeir taka nú að óttast þennan vaxandi skæruliðaher.

 

Forsetinn þorir ekki að taka áhættuna af fleiri ósigrum í Sierra Maestra og skipar her sínum burt af svæðinu. Þannig aukast líka möguleikar hans til að bæla niður mótþróa almennings.

 

Í mörgum borgum og bæjum eru mótmæli gegn Batista orðin að daglegum viðburðum. Mest áberandi er þetta í Santiago þar sem Frank País heldur sig. Hann er leiðtogi 26. júlí-hreyfingarinnar í borginni og leggur mikla vinnu í að tala máli byltingarinnar.

 

País fær stúdenta til að skipuleggja mótmæli og tekst líka að fjölga í skæruliðahernum. Í júlí 1957 er hann nýkominn heim eftir fund með Fidel Castro uppi í fjöllunum en lögreglan hefur nú haft uppi á felustað hans.

 

Lögreglustjórinn José Salas Canizares lætur umkringja hús País. Á síðasta augnabliki tekst honum að flýja ásamt byltingarsinnanum Raúl Pujol sem einnig hefur falið sig í húsinu. Uppljóstrari sér þá forða sér og lætur lögregluna vita.

 

Lögreglumenn Canizares handtaka Frank País og Raúl Pujol og keyra þá í nokkurra gatna fjarlægð. Þar eru þeir látnir krjúpa niður á hnén og báðir teknir af lífi með skoti í hnakkann.

 

Morðin leiða til mikilla mótmæla í Santiago.

 

Íbúarnir efna til allsherjar verkfalls og herinn sem upphaflega myndaði grundvöllinn fyrir valdaráni Batista og hefur fylgt honum gegnum þykkt og þunnt, tekur nú að tvístíga í trúnni á forsetann.

 

Í stórri flotastöð í mikilvægustu hafnarborginni á suðurströnd Kúbu, Cienfugos, kraumar uppreisnarandi því yfirmenn þar eru búnir að fá nóg af því að Batista skuli sí og æ skipa vini sína í æðstu stöður í flotanum án þess að þeir uppfylli nokkrar hæfniskröfur. Og 5. september 1957 brýst þar út uppreisn.

 

Með hjálp frá 26. júlí-hreyfingunni taka hermenn frá flotastöðinni alla borgina herskildi án teljandi vandkvæða. Uppreisnarmenn víggirða hernaðarlega mikilvæga staði og bíða svo aðgerða Batista.

 

Forsetinn sendir fjölmennan her til borgarinnar en fyrsta árásarbylgjan lendir beint inn í fyrirsát og uppreisnarmenn brytja stjórnarhermennina niður.

 

Uppreisnarmenn geta þó ekki varist meginher Batista til lengdar.

 

Flugherinn er settur af stað og þótt sumir flugmenn varpi sprengjunum í sjóinn til að drepa ekki sína eigin landsmenn, nær stjórnarherinn á endanum að berja niður þessa stóru uppreisn.

 

Síðustu uppreisnarmennirnir verjast í San Lorenzo-skólanum.

 

Fjórum skriðdrekum er stillt upp framan við skólahúsið og skotið á það. Að lokum neyðast uppreisnarmennirnir til uppgjafar. Þegar þeir eru komnir út úr húsinu eru þeir allir skotnir.

 

Bandaríkin drógu sig í hlé

Batista hefur unnið orrustuna en hann er nú á góðri leið með að tapa stríðinu. Bandarísk stjórnvöld höfðu viðurkennt stjórn Batista strax eftir valdaránið 1952 og stutt hann m.a. með hergögnum og menntun starfsliðs.

 

En 1958 átta bandarísk stjórnvöld sig á því að þau séu mögulega að veðja á rangan hest. Stuðningi við Batista er hætt og það er alvarlegur hnekkir fyrir einræðisherrann.

 

Batista gerir lokatilraun til að kveða skæruliðaherinn í kútinn. Aðgerðin fær heitið „Operation Verano“ og hefst sumarið 1958.

Þegar byltingarmenn þurftu að finna sér höfuðstöðvar í Havana varð Hilton-hótelið fyrir valinu. Sumum gestanna þótti það nokkuð fyndið.

Í skæruliðaher Fidels Castro eru ekki nema 2-3.000 hermenn. Batista sendir 12.000 manna her upp í fjalllendið til að berjast við þá.

 

Fjöldinn hefði átt að veita stjórnarhernum mikla yfirburði en í þessum her voru margir nýliðar og skæruliðarnir þekktu fjöllin út og inn þegar hér er komið sögu.

 

Eftir að hafa tvisvar komist í kast við skæruliðana hefur stjórnarherinn misst 126 menn og hershöfðinginn Eulogio Cantillo sem stýrir aðgerðinni, ákveður að draga her sinn til baka.

 

Í herbúðum stjórnarhersins er ekki mikill hugur í mönnum og það er að verða ljóst að Batista getur ekki haldið völdum í landinu.

 

Stjórnarherinn heldur vissulega stöðvum sínum um allt land en er þó í vonlausri stöðu gagnvart skæruliðahernum sem nýtur stuðnings alls almennings.

 

Í nóvember og desember taka skæruliðarnir allar stærstu borgir og bæi og á gamlársdag 1958 viðurkennir Batista ósigur sinn. Valdaræninginn fyllir töskur sínar af peningum og flýr úr landi um þrjúleytið á nýársnótt.

Fidel Castro stjórnaði landinu frá 23. hæðinni á Hilton-hótelinu fyrst eftir valdatökuna. Vel vopnaðir hermenn vöktuðu inngangana.

Síðskeggjar hafa unnið sigur. Fidel Castro lætur fyrst hylla sig í Santiago en fer svo með bílalest í sigurferð alla leið þaðan og til Havana.

 

Í höfuðborginni leggur hann völdin undir sig og hefst strax handa við uppgjörið við stuðningsmenn Batista en hundruð ætlaðra stuðningsmanna hans voru teknir af lífi.

 

Byltingarmennirnir geta nú komið viðamiklum umbótum sínum í framkvæmd en sextíu árum síðar eru eftirmenn þeirra ekki öllu viljugri til breytinga en Batista var á sínum tíma.

Lestu meira um Fidel Castro

Richard Gott: Cuba – A New History, Yale University Press, New Haven, 2004.

 

Paul J. Dosal: Cuba Libre: A Brief History of Cuba, Harlan Davidson, Wheeling, 2006.

 

Clifford Staten: The History of Cuba, Palgrave Macmillan, New York, 2003.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Ebbe Rasch

© Bettmann/Corbis,© Ralph Morse/Getty Images,© Bettmann/Corbis,© Library of Congress,© Alberto Korda & Bettmann/Corbis,© Museo de la Revolución,© Alberto Korda,© Wikimedia Commons,© Ullstein Bild,© Lester Cole/Corbis,© Lester Cole/Corbis,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Vísindamenn finna sjálfsmorðshnapp krabbans

Alheimurinn

Ný gerð geimhylkis snýr lendingu alveg á haus

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is