Verkjalyfið paracetamol fæst án lyfseðils með fjölmörgum vörumerkjum, t.d. undir nöfnunum Panodil og Paratabs. Nú sýnir nýleg rannsókn frá ríkisháskólanum í Ohio í BNA að efni linar ekki aðeins verki, heldur gerir okkur líka dálítið áhættusæknari.
Vísindamennirnir gerðu tilraunir á meira en 500 manns. Helmingur fékk ráðlagðan skammt af paracetamol en hinn helmingurinn fékk lyfleysu. Innan við klukkutíma var svo mælt hversu fúst fólkið væri til að taka áhættu.
Samkvæmt rannsókninni verður t.d. teygjustökk ekki jafn ógnvekjandi eftir að hafa tekið paracetamol.
Þátttakendur voru t.d. látnir blása í blöðru gegn peningaverðlaunum sem hækkuðu eftir því sem blaðran stækkaði en ef hún sprakk fuku verðlaunin. Í ljós kom skýr munur þannig að fólk sem fengið hafði paracetamol blés blöðrurnar meira út.
Líklegri til að leggja allt undir í spilum
Það sýndi sig líka í svörum við spurningum að verkjalyfið gerði þátttakendur viljugri til ógnvekjandi athafna á borð við teygjustökk. Hið sama gilti um tilhneiginguna að leggja allt undir í spilum, svo sem hestaveðhlaupum.
Vísindamennirnir telja að áhrifin geti einnig haft samfélagsleg áhrif. T.d. er fólk með flensu-einkenni líklegt til að taka paracetamol sem er óheppilegt ef það dregur úr skilningi á hættunni á að smita aðra.