Ónógur svefn skemmir minni þitt, veikir ónæmiskerfið, dregur úr viðbragðsflýti þínum og getur í rauninni verið beinlínis lífshættulegur.
Flestir vita að of lítill svefn er hættulegur heilsu okkar. En vísindamenn eru ennþá að reyna að komast að því hvaða máli svefn skiptir nákvæmlega fyrir heilsuna og hversu margar klukkustundir þú þarft undir sænginni.
Nú hefur ný rannsókn komist einu skrefi nær svarinu. Vísindamenn hafa rannsakað ítarlega heilsu og svefn fimm hundruð þúsund manns til að finna hinn fullkomna svefntíma þeirra sem náð hafa 38 ára aldri.
Svefn heldur heilanum heilbrigðum
Í rannsókninni fóru vísindamenn frá Englandi og Kína yfir svör spurningalista frá fullorðnu fólki á aldrinum 38 til 73 ára. Þátttakendur voru meðal annars spurðir um svefnvenjur, andlega heilsu og hvernig þeim leið almennt.
Einstaklingarnir voru einnig metnir með tilliti til vitsmunalegra hæfileika í ýmsum prófum. Hjá 40.000 þeirra höfðu vísindamenn einnig beinan aðgang að heilaskönnunum og erfðafræðilegum gögnum.
Með hliðsjón af þessu komust þeir að þeirri niðurstöðu að sjö tíma svefn á hverri nóttu sé kjörið hlutfall þegar kemur að því að halda heilanum heilbrigðum og berjast gegn heilasjúkdómum eins og Alzheimer.
Svefn skiptist í fjögur stig
Svefn samanstendur af nokkrum svokölluðum svefnlotum. Svefnlota varir venjulega í 90 mínútur og samanstendur af fjórum svefnstigum:
- Draumsvefn: Í draumsvefni ertu með meðvitund að hluta og vöðvarnir lamaðir.
- Að sofna: Þegar þú sofnar ertu enn með meðvitund að hluta en vöðvarnir eru farnir að slaka á.
- Léttur svefn: Létti svefninn varir lengst yfir nóttina og þú ert núna meðvitundarlaus og vöðvarnir eru algjörlega slakir.
- Djúpsvefn: Nú ertu algjörlega meðvitundarlaus og mjög erfitt að vakna og vöðvarnir eru algjörlega slakir.
Í fyrstu svefnlotum næturinnar varir djúpsvefninn yfirleitt lengur en létti svefninn og draumasvefninn lengur undir morgun.
Of mikill svefn getur líka verið skaðlegur
Það kom á óvart að vísindamennirnir komust einnig að því að bæði meira og minna en sjö tíma svefn á hverri nóttu olli því að þátttakendur stóðu sig verr við ýmsar aðstæður:
Þeir brugðust til dæmis hægar við, voru með lakara minni og urðu almennt síður færir um að leysa vandamál.
Of mikill eða of lítill svefn olli einnig fleiri einkennum kvíða og þunglyndis hjá þátttakendum.
Kekkir skemma heilafrumurnar
Að mati rannsakenda getur svefnleysi þýtt að þú færð of lítið af djúpsvefni, eða svokölluðum NREM svefni, þar sem þig dreymir ekki.
Truflanir í þessum tiltekna fasa svefns eru nátengdar minni okkar og uppsöfnun tiltekins próteins sem kallast beta-amyloid, sem safnast fyrir í kekkjum og getur hafið myndun heilabilunar sem veldur Alzheimer.
Alzheimer eyðileggur heilann á tvo vegu
- Þykkildismyndun í heila: Sérstök prótein sem kallast beta-amyloid safnast fyrir í kekkjum milli heilafruma. Þykkildin eru kölluð amyloidskellur og skemma heilavef.
- Flækjur: Próteinið tau, sem hefur þráðlaga byggingu, flækist í öðrum tau próteinum og myndar “þúfur” inni í taugafrumunum. Þær eyðileggja til dæmis getu taugafruma til að hafa samskipti sín á milli.
Rannsakendur benda einnig á að heilinn getur ekki hreinsað út hin ýmsu úrgangsefni ef þú sefur of lítið – og að það geti valdið eyðileggingu umhverfis heilafrumurnar.
En sama hvað, skilaboðin eru skýr:
"Það er mikilvægt að fá góðan nætursvefn á öllum stigum lífsins, en sérstaklega þegar við eldumst.”
Barbara Sahakian – prófessor í geðlækningum við háskólann í Cambridge