Lifandi Saga

13 ódauðleg kveðjuorð

Hinstu orð fólks hafa löngum vakið aðdáun meðal eftirlifenda en þegar hins vegar orðin hafa tilheyrt konungum og keisurum gátu þau bæði haft í för með sér borgarastyrjaldir og samsæriskenningar.

BIRT: 07/04/2024

1. „Sá sterkasti“

Alexander mikli var einn fremsti herforingi mannkynssögunnar en 25 ára að aldri hafði hann lagt undir sig gríðarstórt ríki sem teygði anga sína allt frá Makedóníu í vestri yfir til þess sem nú heitir Pakistan í austri.

 

Alexander fagnaði síðustu landvinningunum með heilmiklum hátíðahöldum árið 323 f.Kr. en skömmu seinna veiktist hann af háskalegri hitasótt. Þessi mikli herforingi lést eftir tíu daga veikindi hinn 10. júní en líklegt þykir að banamein hans hafi verið malaría. Þegar hann lá banaleguna var hann umkringdur fremstu hershöfðingjum sínum sem kölluðust „diadochi“ og spurðu þeir hann hver skyldi erfa ríkið eftir hans dag. Herforinginn svaraði um hæl: „Sá sterkasti“.

Þessi brjóstmynd sýnir Alexander mikla skömmu áður en hann gaf upp öndina. Um er að ræða eftirgerð af upprunalegu brjóstmyndinni frá u.þ.b. 200 f.Kr.

Alexander kann einnig að hafa sagt „Hann Kraterus“ en svo hét einn dugmesti hershöfðingi hans. Orðin tvö hljóma mjög svipað á forngrísku og máttvana konungurinn kann að hafa muldrað en svo er einnig hugsanlegt að einhver hinna metnaðargjörnu hershöfðingja hans hafi misskilið hann vísvitandi.

 

Hver svo sem skýringin er, þá leiddu orð hans, svo og metnaðargirni hershöfðingjanna, til 40 ára borgarastyrjaldar sem hafði í för með sér sundrungu þessa gríðarstóra heimsveldis í marga hluta. Sá sem komst næst því að verða arftaki Alexanders var Selevkos 1. Hann fékk yfirráðin yfir stóru svæði sem m.a. teygði sig yfir landsvæðin sem nú heita Íran og Írak og lagði þar grunninn að Selevkídaríkinu.

Til eru margar frásagnir af lífi Arkímedesar til forna en heimildirnar eiga það þó sameiginlegt að flestar voru þær ritaðar eftir andlát uppfinningamannsins.

2. „Snertu ekki hringina mína“

Grikkinn Arkímedes var einn fremsti stærðfræðingur og uppfinningamaður síns tíma. Þegar Rómverjar settust um heimaborg hans, Sýrakus, árið 212 f.Kr., var vélum hans meira að segja beitt gegn innrásarhernum.

 

Þrátt fyrir uppfinningu Arkímedesar misstu Sikileyingar engu að síður höfuðborg sína í hendur óvinarins. Rómversku hermennirnir höfðu fengið skýlaus fyrirmæli um að taka þennan þekkta Grikkja til fanga og alls ekki að drepa hann en Arkímedes neitaði að fylgja þeim. Uppfinningamaðurinn var í miðju kafi að leysa stærðfræðigátu sem fól í sér hringi og sagt er að hann hafi hrópað: „Snertu ekki hringina mína“.

 

Að lokum missti einn hermannanna þolinmæðina og stakk 75 ára gamlan manninn til dauða.

Enn þann dag í dag leikur á huldu hvort Vilhjálmur 2. lét lífið fyrir slysni eða var myrtur.

3. „Skjóttu, Walter, skjóttu, andskotinn hafi það“

Vilhjálmur 2. réð ríkjum í Englandi á árunum 1087-1100. Stjórnartíð hans einkenndist af miklum blóðsúthellingum og farið var að kalla konunginn Vilhjálm rauða eftir að hann fyrirskipaði að skera skyldi augun og eistun af frænda hans eftir misheppnað valdarán.

 

Skyndilegur endi var bundinn á harðstjórn konungsins 1. ágúst árið 1100 er hann var á veiðum með aðalsmanninum Walter Tirel. Báðir komu þeir auga á hjartardýr og Vilhjálmur hrópaði: „Skjóttu, Walter, skjóttu, andskotinn hafi það“.

 

Aðalsmaðurinn hæfði ekki hjörtinn en svo óheppilega vildi til að ör hans lenti þess í stað beint í brjóstkassa konungsins.

 

Prestar samtímans álitu sem svo að andlátið væri refsing guðs yfir grimmilegum harðstjóra. Sagnfræðingar hafa þó efasemdir um þessa túlkun því Walter Tirel var þekktur fyrir að vera framúrskarandi skytta og ólíklegt þykir að hann geti hafa miðað svo skakkt.

 

Sagnfræðingar hallast því frekar að því að um morð að yfirlögðu ráði hafi verið að ræða.

Nostradamus byggði spádóma sína á sögulegu fordæmi og fyrir vikið vildi hann ekki láta kalla sig spámann.

4. „Á morgun, við sólarupprás, verð ég ekki lengur á meðal manna“

Michel de Nostredame, best þekktur sem Nostradamus, er þekktur fyrir 942 torskilda spádóma sína. Mikil óeining ríkir um sannleiksgildi þeirra en einn spádómanna rættist þó ótvírætt.

 

Hinn 1. júlí árið 1566 mælti Nostradamus svo við ritara sinn: „Á morgun, við sólarupprás, verð ég ekki lengur á meðal manna“.

 

Næsta morgun fannst sjáandinn mikli við hliðina á rúmi sínu. Nostradamus sem þá var 62 ára gamall, hafði alla tíð verið þjakaður af gigt og að lokum dró bjúgur í líkamanum hann til dauða.

Eftir andlát Tychos Brahes notaði lærisveinn hans, Jóhannes Kepler, mælingar meistara síns til að kollvarpa stjörnufræðinni.

5. „Megi ég ekki hafa lifað til einskis“

Að kvöldi þess 13. október árið 1601 gat danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe sem þá var 54 ára að aldri, skyndilega ekki haft þvaglát. Maðurinn kvaldist í nokkra daga en síðustu nóttina á lífi á Tycho að hafa sagt hvað eftir annað í óráði: „Megi ég ekki hafa lifað til einskis“.

 

Ótti hans reyndist ekki eiga við rök að styðjast, því 26 árum eftir andlátið gaf lærisveinn hans, Jóhannes Kepler, út hinar svonefndu „Rúdolfstöflur“ en um var að ræða töflur sem sýna stöðu reikistjarna en útreikningarnir byggja á athugunum Tychos Brahes.

 

Árið 2010 tókst að sanna með rannsókn á beinagrind Tychos Brahes að hann hafði látist af völdum þvagfærasýkingar.

Ned Kelly barðist í þungri málmbrynju sem varði hann gegn riffilskotum. Lögreglumönnum tókst að hæfa Kelly með því að skjóta í fætur hans.

6. „Svona er lífið“

Ned Kelly var sonur írsks refsifanga og varð munaðarlaus aðeins 12 ára að aldri. Hann fetaði fljótt í fótspor föður síns og lifði á því að ræna og rupla í óbyggðum Ástralíu. Kelly var þyrnir í augum bresku nýlenduyfirvaldanna en hann var að lokum tekinn höndum árið 1880 eftir að hafa lifað sem útlagi í tvö ár. Hann var svo dæmdur til dauða fyrir morð á lögreglustjóra.

 

Á leið sinni upp að gálganum þann 11. nóvember 1880 heyrði blaðamaður við dagblaðið Melbourne Kelly segja: „Svona er lífið“ og segja má að hann hafi haft rétt fyrir sér.

 

Þó svo að Kelly hafi látið lífið sem glæpamaður gerðu uppreisn hans og hetjudáðir það að verkum að Ástralar litu á hann sem þjóðartákn.

Þegar María Antoinette var leidd í höggstokkinn árið 1793 hafði heilsu hennar hrakað verulega eftir árin í fangavistinni.

7. „Fyrirgefið mér herra, þetta var ekki viljandi gert.“

Franska byltingin hófst sumarið 1789 og þremur árum síðar tók hið nýstofnaða þjóðþing ákvörðun um að leggja konungdæmið niður. Kóngurinn Loðvík 16. og drottningin María Antoinette voru hneppt í varðhald og ákærð fyrir landráð.

 

Drottningin sem þá var 38 ára að aldri undi sér illa í varðhaldinu, enda vön því að tilheyra efsta lagi þjóðfélagsins. Veikluð, sjúk og gráhærð mætti drottningin í réttarsalinn þar sem hún var dæmd til dauða fyrir að stuðla að gagnbyltingu og landráðum. Sönnunargögnin voru afar veigalítil og drottningin endaði líf sitt sem blóraböggull.

 

Að morgni þess 17. október 1793 var farið með drottninguna dauðadæmdu að fallöxinni. Þrátt fyrir skelfileg örlög sín hélt drottningin reisn sinni alveg fram í andlátið. Þegar hún steig óviljandi á tær böðulsins á hún að hafa stunið upp orðunum: „Fyrirgefið mér herra, þetta var ekki viljandi gert“.

 

Stuttu síðar var drottningin gerð höfðinu styttri í höggstokknum.

Um 17.000 manns voru tekin af lífi í höggstokknum í frönsku byltingunni.

Fleiri kveðjuorð úr höggstokknum

8. „Ég tók líf eins manns til að bjarga hundruð þúsunda“

Charlotte Corday sem myrti byltingarleiðtogann Jean-Paul Marat.

 

9. „Sýnið fólkinu höfuð mitt. Það er þess virði að sjá“

Georges Danton, einn af forsprökkum byltingarinnar. Hann átti sjálfur eftir að enda í höggstokknum þegar hann féll í ónáð hjá nýju byltingarleiðtogunum.

Bardaginn við Spotsylvania Court House var einhver sá alblóðugasti í borgarastyrjöldinni í Ameríku en þar létust meira en 30.000 manns eða særðust.

10. „Þeir gætu ekki hæft fíl úr þessari fjarlægð“

Norðurríkjahershöfðinginn John Sedgwick var virtur maður meðal bæði vina og fjandmanna og hann hafði orð á sér fyrir að vingast við hermenn sína sem kölluðu hann í fullri vinsemd „John frænda“.

 

Hershöfðinginn var fimmtugur þegar hann tók þátt í bardaganum við Spotsylvania Court House hinn 9. maí árið 1864 og þar lét hann lífið. Hann hafði það verkefni að láta reyna á fylkingararm suðurríkjahersins. Þegar Sedgwick veitti því athygli að hermenn hans leituðu skjóls fyrir leyniskyttum suðurríkjahermannanna sem voru í um 900 metra fjarlægð, var hann fullur fyrirlitningar.

 

Sedgwick gekk yfir opið svæðið og mælti: „Karlmenn sem beygja sig undan byssukúlum? Ég skammast mín fyrir ykkur. Þeir gætu ekki hæft fíl úr þessari fjarlægð“.

 

Örfáum sekúndum síðar stakkst byssuskot á kaf inn í höfuð hershöfðingjans, rétt undir vinstra auga.

 

Sedgwick var fyrsti sambandshershöfðinginn sem lét lífið í ameríska borgarastríðinu.

Fimm sjálfboðaliðar tóku Rodgers af lífi og fékk hver þeirra afhentan riffil og 75 dollara að launum.

11. „Hinsta ósk mín … skothelt vesti“

James W. Rodgers starfaði sem öryggisvörður í úrannámu í fylkinu Utah, þegar hann skaut vinnufélaga sinn til bana árið 1957. Rodgers varði sig í réttarhöldunum með því að hann hefði verið haldinn stundarbrjálæði þegar hann framdi verknaðinn, sökum þess að hann væri veikur af sárasótt. Í ljós kom að mennirnir tveir höfðu rifist heiftarlega um hvernig best væri að gera við vélgröfu.

 

Rodgers var dæmdur til dauða og kaus að láta skjóta sig. Þegar hann var leiddur að aftökustaðnum hinn 30. mars árið 1960 mælti hann borubrattur: „Hinsta ósk mín … skothelt vesti“.

 

Ósk hans var ekki uppfyllt og var Rodgers sá síðasti sem tekinn var af lífi áður en hæstiréttur bannaði dauðarefsingar. Þær voru þó leyfðar á nýjan leik árið 1976.

Churchill lærbrotnaði árið 1962. Hann átti mjög erfitt með gang eftir það.

12. „Ég er orðinn þreyttur á öllu“

Winston Churchill er þekktur sem hinn ósigrandi forsætisráðherra Bretlands, sá sem fyllti Breta af baráttuanda gegn nasistunum en hann hlaut m.a. bókmenntaverðlaun Nóbels og var tilnefndur sem heiðursborgari í Bandaríkjunum.

 

Eftir að hafa tapað kosningunum og misst forsætisráðherrastólinn eftir síðari heimsstyrjöld hélt þessi óþreytandi stjórnmálaskörungur engu að síður áfram að leiða íhaldsflokkinn og varð kjörinn forsætisráðherra á árunum 1951-55. Að því loknu fór stjórnmálaleiðtoginn að draga sig smám saman í hlé frá opinberu lífi. Heilsu Churchills hrakaði hratt, ekki hvað síst eftir að hann lamaðist að hluta til öðru megin eftir að hafa fengið heilablóðfall.

 

Churchill sinnti áfram stjórnmálum allt þar til hann náði 89 ára aldri árið 1964 en fór þá orðið sjaldan úr húsi og þjáðist af elliglöpum. Þegar hann svo fékk heilablóðfall í fjórða sinn árið 1965 var augljóst að hann átti ekki langt eftir. Honum tókst að stynja upp við fjölskyldu sína:

 

„Ég er orðinn þreyttur á öllu“. Hann missti síðan meðvitund og rankaði ekki við sér aftur.

Karl Marx lést sem fátækur maður og varð þess aldrei aðnjótandi að sjá hugmyndir sínar öðlast útbreiðslu um heiminn.

13. „Kveðjuorð eru fyrir bjána sem hafa ekki sagt nóg.“

Þýski heimspekingurinn og rithöfundurinn Karl Marx hafði varið ævinni í að setja fram hugmyndafræði kommúnismans og breiða hana út. Þrátt fyrir ógrynni útgefinna greina og rita eyddi Marx ævikvöldinu sem bláfátækur, veikur og geðstirður gamall maður.

 

Þegar þessi 64 ára gamli heimspekingur lá banaleguna árið 1883, með langvinna berkjubólgu, spurði ráðskona hans hvort hann vildi segja eitthvað að lokum og þá hvæsti Marx út úr sér ergilegur:

 

„Kveðjuorð eru fyrir bjána sem hafa ekki sagt nóg.“

 

Áhuginn á kommúnisma jókst eftir andlát Marx og hugmyndir hans öðluðust mikið vægi um gjörvallan heim.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: KIRSTINE VIKTORIA RATTLEFF , BUE KINDTLER-NIELSEN

© Urek Meniashvili & Shutterstock, © Musée d'Art Roger-Quilliot, © Ridpath's Universal History, Copyright 1895, Section XII, page 644, © AKG Images/Imageselect & Shutterstock, © Leemage/Getty Images, © State Library Victoria/Chensiyuan & Shutterstock, © Musée Carnavalet, © Shutterstock, © Henry Groskinsky/Getty Images, © buzzfuse.net & Shutterstock, © Pa/PA Images/Ritzau Scanpix

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is