Það veldur sársauka að fá salt í sár, vegna þess að salt hefur örvandi áhrif á tilfinningataugar, en þær bregðast við áreiti til að vekja strax athygli heilans á því sem sársaukanum veldur.
Tilfinningataugarnar bregðast við þrýstingi og miklum hitabreytingum ásamt efnabreytingum.
Salt virkjar taugarnar og gerir þær næmari en ella og sársaukinn í sárinu verður því meiri. Chili hefur sama eiginleika og bæði efnin eru notuð í vísindatilraunum til að valda áköfum sársauka, t.d. í vöðvum.
Þessu til viðbótar dregur salt í sig vökva úr frumunum og framkallar þannig mikla breytingu á lífefnaumhverfi þeirra. Þetta getur valdið margs konar óþægindum.