Af hverju sýnum við tennurnar í brosinu?

Aðrar dýrategundir láta skína í tennurnar til að ógna óvinum. Hver er tilgangurinn með því að sýna tennurnar þegar við brosum?

BIRT: 24/04/2023

LESTÍMI:

< 1 mínúta

Fyrir 5 – 7 milljónum ára skildi leiðir manna og simpansa í þróunarsögunni. Jafnframt varð sú mikilvæga breyting á tönnum forfeðra manna að augntennurnar urðu stórum minni en þær stóru augntennur eða vígtennur sem enn má sjá í öðrum mannapategundum og mörgum öðrum dýrum.

 

Munnurinn breyttist þegar vaxandi heili þurfti meira pláss og með stóru augntönnunum hvarf sú ógn sem í því fólst að láta skína í tennurnar. Segja má að forfeður manna hafi þannig fórnað ákveðnu vopni í skiptum fyrir stærri heila og þann hæfileika að geta gengið uppréttir.

 

Augntennurnar voru ekki lengur ógnvekjandi en í staðinn komu aðrar aðferðir til að ógna andstæðingum, svo sem að taka sér ógnandi stöðu með stein eða barefli að vopni.

 

Eftir að augntennurnar voru ekki lengur þess megnugar að hrekja óvini á flótta, hætti maðurinn einfaldlega að láta skína í tennurnar til að vekja ótta.

 

Forfeður okkar bjuggu þó enn yfir hæfni til að sýna tennurnar, en sú hæfni var nú orðin þýðingarlaus. Þróunin nemur hins vegar aldrei staðar og hæfni sem búið er að þróa á annað borð var ekki lengi látin alveg ónotuð. Þess í stað fundu forfeður manna upp á nýju notagildi fyrir þennan hæfileika.

 

Maðurinn þróaði smám saman flókin svipbrigði og þar á meðal einmitt brosið þar sem látið er skína í tennurnar. Þau fjölbreyttu svipbrigði sem við getum sett á andlitið eru í góðu samræmi við greind okkar og í þessu samhengi gegnir brosið viðamiklu hlutverki.

BIRT: 24/04/2023

HÖFUNDUR: Ritstjórn

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Shutterstock

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.