Menning

Beethoven – heyrnarlausi snillingurinn

Ludwig van Beethoven var merkasta tónskáld síns tíma. En sér til skelfingar uppgötvaði hann að heyrn hans var nánast úr sögunni. Hann yfirvegaði að svipta sig lífi en tók þá ákvörðun að halda áfram tónsmíðum, jafnvel löngu eftir að hann var hættur að heyra tónana annars staðar en í sinni eigin ímyndun.

BIRT: 25/02/2023

Glitrandi ljósakrónur dreifa ljósinu yfir fullan sal í Vínarborg. Áhorfendur sitja sem bergnumdir undir tónlistinni. Undir lokin breytist flutningur sinfóníuhljómsveitarinnar skyndilega.

 

Tónaflóðið frá sviðinu hefur fram að þessu borið í sér baráttu og örvæntingu en nú brýst skyndilega fram taumlaus og svífandi gleði. Það er engu líkara en tónskáldið vilji, þrátt fyrir alla erfiðleika og mótlæti lífsins, hylla gleðina yfir því að fá að vera til.

 

Tónsmiðurinn sem jafnframt stjórnar hljómsveitinni og snýr baki í áhorfendur, heyrir hins vegar ekki neitt. Ludwig van Beethoven er algerlega heyrnarlaus.

 

Það er ekki fyrr en síðustu tónarnir hafa dáið út og einhver klappar á öxlina á honum til að minna hann á að snúa sér sem hann sér að áhorfendur hafa risið úr sætum og hylla hann með dynjandi lófataki.

 

Níunda sinfónía Beethovens og hið fræga niðurlag hennar, Óðurinn til gleðinnar, var frumflutt árið 1824. En höfundur þessarar stórfenglegu tónlistar var þó síður en svo í hópi þess fólks sem naut almennt friðsældar og gleði.

 

Samtímaheimildir lýsa honum þvert á móti sem uppstökkum og skapillum og hann hafði nægar ástæður til að vera mjög óhamingjusamur.

 

Ludwig van Beethoven fæddist 16. desember 1770 í Bonn í Þýskalandi. Faðir hans, Johann van Beethoven starfaði við hirð kjörfurstans þar sem söngvari og fiðluleikari. Faðirinn var afar fær tónlistarmaður en átti við áfengisvandamál að stríða.

Þrítugur að aldri tók Beethoven að missa heyrn og síðustu 10 ár ævinnar var hann alveg heyrnarlaus. Sennilega gerðist þetta í kjölfar taugaveiki.

Tók við af Mozart sem undrabarn

Hann eignaðist sjö börn og þrjú þeirra náðu fullorðinsaldri. Með svo fjölmennt heimili átti hann í erfiðleikum með að láta enda ná saman.

 

Hann ákvað að veðja á son sinn Ludwig sem var mjög tónelskur og reyna að gera hann að undrabarni á borð við hinn fræga Mozart.

 

Fyrir bragðið neyddist sonurinn til að spila á píanó allt upp í marga klukkutíma á dag, strax fjögurra ára gamall.

 

Fyrir kom að faðirinn kæmi ölvaður heim af knæpu um miðja nótt og heimtaði að Ludwig kæmi fram úr bólinu til að sýna drykkjubræðrum hans færni sína á píanóinu.

 

Ef drengurinn sló feilnótu hálfsofandi, var hann barinn. Þrátt fyrir þessa miklu hörku varð Ludwig snemma frambærilegur spilari. Hann hélt sína fyrstu opinberu tónleika þegar hann var aðeins sjö ára.

 

Faðirinn laug hins vegar til um aldur hans og sagði hann tveimur árum yngri til að undirstrika enn frekar hvílíkt undrabarn Ludwig litli væri.

 

Spilaði fyrir Mozart

Ludwig fékk líka orgelkennslu og tíu ára var hann orðinn betri orgelleikari en tvítugir samnemendur hans. Hann samdi líka sín eigin orgelverk.

„Takið eftir þessum, hann á eftir að verða frægur.“

Mozart um hinn unga Beethoven

Sum þessara verka gat hann ekki leikið sjálfur vegna þess að hendurnar voru ekki nógu stórar. Einn kennara hans spurði hvers vegna hann væri að semja verk sem hann gæti ekki spilað sjálfur.

 

„Ég get það þegar ég verð eldri,“ svaraði hann.

 

Faðirinn nýtt sambönd sín til að koma hinum unga Beethoven til Vínarborgar, þar sem hann fékk að spila fyrir sjálfan Mozart, þá 16 ára gamall.

 

Þegar meistarinn heyrði frumsamin tilbrigði Beethovens, vöktu þau hrifningu hans. „Takið eftir þessum, hann á eftir að verða frægur,“ sagði hann.

 

Móðir Beethovens dó ung

En dvöl Beethovens í Vín tók enda eftir aðeins tvær vikur. Hann fékk boð um að móðir hans lægi fyrir dauðanum.

 

Eftir dauða hennar keyrði áfengisneysla föðurins úr öllu hófi og 17 ára gamall var Beethoven farinn að bera fjárhagslega ábyrgð á heimilinu.

 

Með hjálp kjörfurstans og fleiri vel stæðra manna lá leið hans þó aftur til Vínar sem á þessum tíma var höfuðborg hinnar klassísku tónlistar.

 

Tilgangurinn með Vínardvölinni var að læra hjá tónskáldinu Joseph Haydn sem var ein af stórstjörnum þessa tímabils. Að þessu sinni ílentist Beethoven í Vínarborg og naut fljótlega virðingar sem tónlistarmaður og tónskáld.

„Ég heyri tónana í höfðinu“

Hinn heyrnarlausi Beethoven um tónsmíðar sínar.

Framan af fylgdi Beethoven hinni ríkjandi Vínarklassík í tónsmíðum sínum en tók svo smám saman að tileinka sér tilfinningaríkari og sjálfstæðari stíl og varð einn af forvígismönnum rómantíska skeiðsins.

 

Hann var líka nokkuð róttækur í stjórnmálaskoðunum, var mikill aðdáandi Napóleons sem á þessum tíma var í óða önn að leggja undir sig Evrópu.

 

Þegar Beethoven samdi 3. sinfóníu sína sem nefnd var Eroica og frumflutt 1805, hafði hann hugsað sér að tileinka hana þessum dáða byltingarmanni.

 

En þegar hann frétti að Napóelon hefði svikið lýðveldishugsjónina og tekið sér keisaratign, strikaði hann tileinkunina út. Yfirstrikunin er svo harkaleg í handritinu að penninn hefur rifið sig í gegnum pappírinn.

 

Strax árið 1801 hafði Beethoven trúað nánum vini sínum fyrir því að hann ætti við alvarlega heyrnarskerðingu að stríða. Í mjög tilfinningaríku bréfi sem fannst eftir dauða hans, kemur fram að hann íhugaði að svipta sig lífi.

Níunda sinfónían heillaði alla

Richard Wagner

Meistari þýsku óperunnar taldi 9. sinfóníuna merkustu sinfóníu tónlistarsögunnar – og að allar síðari sinfóníur væru marklausar. Alla tíð síðan hefur þessi tónlist markað upphafið að Óperuhátíðinni í Bayreuth.

Mikhail Bakunin

Rússneski anarkistinn Bakunin vildi leysa upp ríkisvaldið og hjónabandið. „Allt er hverfult og heimurinn mun farast, en 9. sinfónían lifir,“ spáði hann.

Niels W. Gade

Yfir sig hrifinn var líka Niels W. Gade, danskt tónskáld sem hætti að semja sinfóníur eftir þá áttundu. „Þá níundu er Beethoven jú búinn að semja,“ sagði hann.

 

 

Johannes Brahms

Þýski tónsmiðurinn Brahms var kallaður arftaki Beethovens. „Ég fyrirlít Beethoven!“ á hann að hafa sagt.

Victor Hugo

Hinn frægi franski rithöfundur Victor Hugo skrifaði: „Í tónlist Beethovens þekkir draumóramaðurinn drauma sína, sjómaðurinn þekkir stormana og úlfurinn skógana.

 

Martin Luther King

Bandaríski mannréttindabaráttumaðurinn: „Sá sem hefur framfæri sitt af því að sópa götur ætti að sópa eins og Beethoven skrifaði tónlist.“

Hélt heyrnarleysinu leyndu

Framan af hélt Beethoven heyrnarleysi sínu leyndu. Af því leiddi að hann einangraðist félagslega og fólk túlkaði skort hans á viðbrögðum iðulega sem drambsemi.

 

Um 1818 var hann orðinn alveg heyrnarlaus og varð að notast við pappír og penna til tjáskipta við fólk. En þótt hann gæti ekki lengur spilað sjálfur hélt hann áfram að semja tónlist. „Ég heyri tónana í höfðinu,“ sagði hann.

 

Þrátt fyrir að eiga góðu gengi að fagna sem tónskáld var Beethoven einmana maður. Hann felldi hug til ýmissa kvenna en ekkert af ástarsamböndum hans leiddi til hjónabands.

„Klappið, vinir! Grínið er búið“

Beethoven í banalegunni.

Það er t.d. vitað að fertugur að aldri bað hann 22 ára tónlistarnema en fékk synjun. Í samtímaheimildum er honum gjarnan lýst sem klaufalegum, óþrifalegum og tötralega klæddum.

 

Þar bætist svo við hið alkunna slæma skap hans, og því var einveran e.t.v. ekki svo skrýtin. En í staðinn gat hann sett alla ástríðu sína í tónlistina.

 

Eignaðist son fyrir rétti

Þegar bróðir Beethovens, Kaspar Karl, dó 1915 krafðist Beethoven þess fyrir rétti að fá forræði yfir Karli, syni hans.

 

Hann hélt því fram að móðir drengsins væri ófær um að sjá fyrir honum og fékk sér dæmt forræði.

 

Hann setti drenginn í heimavistarskóla og veitti honum strangt og harkalegt uppeldi. Árið 1826 fór svo að Karl reyndi að svipta sig lífi. Hann lifði af en sagðist hafa skotið sig vegna þess að föðurbróðirinn „þjáði hann of mikið“.

 

Eftir sjálfsvígstilraunina dvaldi Beethoven með bróðursyni sínum úti í sveit um tíma. Hann var þá þegar orðinn veiklaður og á ferðalaginu til baka til Vínarborgar fékk hann lungnabólgu sem dró hann til dauða.

 

Þegar endalokin nálguðust komu nokkrir vinir hans og heimsóttu hann á sóttarsænginni. Þegar þeir bjuggust til brottfarar á hinn deyjandi meistari að hafa sagt: „Klappið, vinir! Grínið er búið.“

Danski málarinn Wenzel Tornøe er sagður hafa málað þessa mynd eftir sögunni um Beethoven og Elise. Málverkið er á listasafninu í Borgundarhólmi.

Tilurð meistaraverksins er enn ráðgáta

Allir sem læra á píanó kynnast „Für Elise“, rómantísku lagi sem Beethoven samdi um 1810. Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um hver þessi Elise var.

 

Sagt er að Beethoven hafi verið á heimleið gegnum úthverfi Vínarborgar og heyrt eigið verk spilað óhönduglega í gegnum garðdyr sem stóðu opnar.

 

Hálfpirraður gekk hann á hljóðið til að sjá hver spilaði, hann barði að dyrum og sá unga konu sitja við píanó. Fyrst þá uppgötvaði hann að stúlkan var blind. Beethoven fylltist meðaumkun og bauðst til að spila fyrir hana.

 

Við píanóið spilaði hann nokkuð frjálsleg tilbrigði og þegar hann kom heim segir sagan að hann hafi skrifað nóturnar upp. Þegar örkin fannst svo mörgum árum síðar kom í ljós að hann hafði skrifað tileinkun á blaðið: „Til Elísu þann 27. apríl, til minningar um L. v. Beethoven“.

 

Hvort sagan er sönn veit enginn því enginn hefur enn í dag uppgötvað hver þessi Elise hefði getað verið.

 

Mögulega gæti Elise verið ein þeirra fjölmörgu kvenna sem Beethoven varð ástfanginn af um ævina. Efst á þeim lista er hin 22 ára Therese Malfatti sem á þessum árum var að læra á píanó hjá Beethoven. Sagt er að hann hafi beðið hennar en hún hafnað honum.

 

„Mundu mig – enginn óskar meiri hamingju í lífinu en ég,“ skrifaði hinn sorgmæddi tónsmiður í bréfi til hennar vorið 1810.

 

Sjónarvottar héldu því reyndar fram að staðið hefði „Til Therese“ á upprunalega nótnablaðinu (sem nú er glatað) en tónlistarsagnfræðingar vísa því á bug og benda á að Beethoven hafi á þessum árum t.d. einnig verið hrifinn af hinni ungu óperusöngkonu Elisabeth Röckel.

 

En sú tenging gekk heldur ekki upp: Elisabeth giftist vini Beethovens, tónskáldinu Johann Nepomuk Hummel. Þar að auki gekk hún undir gælunafninu „Betty“.

 

Enn sem komið er hefur aðeins fundist ein Elise: 13 ára stúlka, Elise Barensfeld sem kom til Vínarborgar til að læra söng. En ekki er gert ráð fyrir að Beethoven hafi borið rómantískar tilfinningar till hennar.

 

Piparsveinninn Beethoven var nánast orðinn örvæntingarfullur. Svo mikil var löngun hans til að stofna fjölskyldu. En harkalegt skaplyndi hans virðist hafa bægt öllum hugsanlegum eiginkonuefnum frá.

 

Eftir dauða Beethovens fannst leynihólf í skrifborði hans. Þar leyndust þrjú ástarbréf en þeim fylgdu hvork nöfn né svo mikið sem ártöl. Í einu þeirra skrifar Beethoven:

 

„Góðan dag 7. júlí – meðan ég ligg hér í rúminu leita hugsanir mínar til þín. Alheill get ég aðeins lifað með þér – eða alls ekki …“

Rómantískt lag og leikandi létt – en samt býr „Für Elise“ yfir harmleik.

20.000 fylgdu Beethoven til grafar

Þann 26. mars 1827 dó Ludwig van Beethoven, 56 ára gamall. Við jarðarför hans nokkrum dögum síðar bar austurríska tónskáldið Franz Schubert kyndil fyrir líkfylgdinni.

 

20.000 manns fylgdu meistaranum til grafar. Beethoven arfleiddi bróðurson sinn Karl að jarðneskum eigum sínum en tónlistararfur hans féll öllu mannkyninu í skaut.

 

Mörg verka hans eru enn meðal þekktustu og mest leiknu tónverka, t.d. hin þekkta píanósónata „Appasionata“ og hin dramatíska 5. sinfónía, einng nefnd „örlagasinfónían“.

 

Og fæstir píanónemendur komast hjá að spila þetta litla lag, Für Elise“ sem er auðvelt í flutningi en samt svo fallegt. Í rauninni heitir það „Bagatel í a-moll“.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Sara Griberg & Torsten Weper

© Beethoven-Haus Bonn,Source/Imageselect & Shutterstock,© imageselect & Lebrecht Music Arts/Bridgeman Images,© imageselect & Lebrecht Music Arts/Bridgeman Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.