Lifandi Saga

Caravaggio – Málari og morðingi

Rétt eins og Michelangelo og da Vinci var Caravaggio málari með snilligáfu. En hann átti sér líka mun myrkari hlið. Hvert sem hann flúði, þar tók blóðið að streyma.

BIRT: 24/08/2022

Í ljósaskiptunum búa tveir menn sig undir að heyja einvígi á tennisvellinum fyrir framan Flórenshöllina í miðborg Rómar. Dagurinn er 28. maí 1606 og vígamennirnir eru mættir með sverð sín og einvígisvotta.

 

Til vinstri stendur dáðasti listmálari borgarinnar, Caravaggio en andspænis honum er yfirstéttarborgarinn og gangsterinn Ranuccio Tomassoni.

 

Mennirnir tveir bera rótgróið hatur hvor til annars og draga nú sverð sín úr slíðrum, það blikar á sverðin í síðustu kvöldsólargeislunum en bardaginn reynist fljótlega ójafn. Caravaggio er þrekvaxinn, hraður í hreyfingum og virðist fullkomlega óttalaus.

 

Tomassoni á fullt í fangi með að verjast en andstæðingurinn stígur nær honum eftir hvert högg. Þegar hann reynir að víkja sér undan höggi, hrasar hann og fellur. Örlagarík mistök. Caravaggio stígur eldsnöggt fram og stingur sverðinu í nárann á andstæðingi sínum.

 

Tomassoni æpir upp af sársauka en það stöðvar ekki listmálarann. Í bræðiskastinu dregur hann sverðið úr sárinu og reiðir aftur til höggs.

Á endurreisnartímanum var talið til siðs að ítalskir karlmenn vörðu heiður sinn. Í einvíginu þurfti andstæðingurinn hins vegar ekki endilega að deyja til að veita hinum brotlega uppreist æru.

Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem málarinn lendir í blóðugum átökum. Hvað eftir annað koma hin myrku djúp skapgerðar hans honum í vandræði og á endanum eiga þau eftir að gera út af við einn allra snjallasta og skapandi listamann sögunnar.

 

Caravaggio flúði kýlapest

Caravaggio fæddist árið 1571 á degi sem á þeirri tíð var einn merkasti dagur ársins: messudegi Mikaels erkiengils, 29. september. Í tilefni dagsins gáfu foreldrarnir honum nafnið Michelangelo.

 

Faðir drengsins, Fermo Merisi, var byggingarmeistari í Mílanó og starfaði fyrir Colonnafjölskylduna, áhrifamikla aðalsfjölskyldu.

 

Þessi tengsl tryggðu fjölskyldunni fastar tekjur og lítið hús þannig að framtíðin virtist björt. En framundan var mikill harmleikur. Íbúar í Mílanó fengu hita og illþefjandi kýli spruttu upp á likamanum áður en sjúklingarnir dóu sársaukafullum dauðdaga. Á aðeins tveimur mánuðum létust 10.000 manns úr pestinni.

Plágufaraldrar herjuðu reglulega í Evrópu á árunum 1347 til loka 18. aldar. Í þýsku borginni Augsburg hengdu yfirvöld viðvörunarskilti á hús smitaðra einstaklinga.

Merisifjölskyldan flúði til Caravaggio, bæjarins sem Michelangelo átti síðan eftir að kenna sig við: Michelangelo Merisi da Caravaggio. Þarna settist fjölskyldan að litlum jarðarskika og beið eftir að drepsóttin gengi yfir.

 

Það tók tvö ár en þá var líka margt breytt. Faðir Caravaggios, frændi hans og amma voru nú öll komin í kirkjugarðinn og án karlmanna til að sjá fjölskyldunni farborða voru kjörin kröpp. Caravaggio var nú orðinn 13 ára og hann tók saman pjönkur sínar og hélt aftur til Mílanó.

 

Drap mann á unglingsaldri

Í Mílanó tókst Caravaggio að komast á námssamning hjá listmálaranum Simone Peterzano. Á dögum Caravaggios gátu listmálarar haft góð laun fyrir vinnu sína. Kaþólska kirkjan, furstar og auðmenn keyptu mikið af trúarlegum málverkum og jafnvel miðlungsgóður málari gat haft ágætar tekjur.

 

Námssamningur Caravaggios var undirritaður 6. apríl 1584 og þar lofaði lærlingurinn því að næstu fjögur ár skyldi hann læra að „mála og æfa sig bæði dag og nótt“. Það er þó fátt sem bendir til að hann hafi tekið námið mjög alvarlega. Hann varði hins vegar miklum tíma í að kynna sér skuggalegri hverfi Mílanóborgar enda var þar margt að sjá.

Hið harkalega líferni rataði á strigann

Á þessum tíma var fegurðin í hávegum höfð en Caravaggio sýndi grimmdina í sögum Biblíunnar. Ofbeldi veruleikans þekkti málarinn allt of vel.

Kristur hýddur (1608)

Í Biblíunni er Jesús hýddur og barinn í andlitið en Caravaggio bætti ofbeldi götunnar við. Hann sýndi böðul sparka í Jesús meðan annar togar í hár hans.

Dauði Maríu (1606)

Málverkið af dauða Maríu meyjar vakti reiði kirkjunnar manna sem töldu hana hafa stigið til himins í fegurð sinni. Caravaggio fékk drukkna vændiskonu í hlutverkið og sýndi hana stífa og bólgna.

Davíð með höfuð Golíats (1607)

Blóðið drýpur úr hálsinum og andlitið enn grett af sársauka í túlkun Caravaggios á sögunni um Davíð sem felldi Golíat með valslöngu og hjó svo af honum höfuðið.

Píslarvætti Matteusar (1599)

Caravaggio hafði sjálfur drepið mann og lýsing hans á sögninni af morðinu á Matteusi dvelur við augnablikið áður en sverðinu er stungið í fórnarlambið. Striginn er uppfullur af heift og skelfingu.

Erkibiskupinn í borginni úthrópaði Mílanó sem „borg syndarinnar“ og reyndar varð þar varla þverfótað fyrir svikurum, melludólgum, vændiskonum og ofbeldismönnum. Fólk var rænt á götum úti og hvers kyns glæpastarfsemi blómstraði. Morðum fjölgaði líka stöðugt allan níunda áratug 16. aldarinnar.

 

Caravaggio virti þetta mannlíf fyrir sér af forvitni og dróst líka sjálfur inn í ýmislegt. Lögreglan var iðulega á hælum hans og dag nokkurn þegar ljóst var að hann kæmist ekki undan, dró hann upp hníf og drap einn af lögreglumönnum Mílanóborgar.

 

Sagnfræðingar vita ekki nákvæmlega hvernig þetta gerðist en listaverkasalinn Giulio Mancini sem þekkti Caravaggio og skrifaði ævisögu hans, segir að vændiskona hafi komið við sögu.

Caravaggio málaði margar útgáfur af sumum myndum, t.d. Júdit að hálshöggva hershöfðingjann Holofernes. Þessi óþekkta útgáfa komst aldrei á uppboð, heldur seldist fyrir ófafé áður en uppboðið hófst.

Óþekkt meistaraverk selt á meira 100 milljónir evra

Árið 2014 fannst áður óþekkt útgáfa af málverki Caravaggios af Júdit að hálshöggva Holofernes á háalofti í Toulouse í Frakklandi. Eigandinn fann málverkið þegar hann var að gera við þakið.

 

Málverkið var sett til sölu á uppboði og ásett verð var 100 milljónir evra (15 milljarðar kr.) En uppboðshaldarinn fékk aldrei að sveifla hamrinum, því óþekktur auðmaður keypti verkið fyrir órafé áður en uppboðið hófst.

 

Ekki fyrr en síðar komst upp að kaupandinn var listsafnarinn J. Tomlinson Hill, stjórnarmaður í „The Metropolitan Museum of Art“ í New York en safnið er eitt stærsta og tilkomumesta listasafn heims.

 

Hvort verkið verður einhvern tíma sýnt þar er óvíst en fyrsta útgáfan af þessu málverki Caravaggios er frá árinu 1600 og hefur lengi verið á Galleria Nazionale d‘Arte Antica í Róm.

Eftir morðið flúði Caravaggio til að byrja með til baka til heimabæjarins. Hann seldi eitthvað af eigum fjölskyldu sinnar og tókst þannig að skrapa saman peningum til að komast burtu úr hertogadæminu Mílanó sem heyrði undir þýsk-rómverska keisarann.

 

Caravaggio hæddi listaheiminn

Caravaggio hraðaði för sinni yfir í Kirkjuríkið, allstórt svæði á Mið-Ítalíu sem heyrði undir páfann. Flóttamaðurinn settist að í Róm sem var yfirfull af tækifærum fyrir þá sem vildu leggja fortíðina að baki og byrja upp á nýtt.

 

Í augum Caravaggios var stærsti kosturinn sá að yfirvöld í Mílanó gátu ekki skert hár á höfði hans. Ítalía var á þessum tíma eins og bútasaumsteppi sjálfstæðra ríkja og konungdæma. Ráðamenn ríkjanna háðu iðulega styrjaldir sín á milli og engum þeirra hefði komið til hugar að fallast á framsalskröfu frá nágrannaríki.

 

Þegar Caravaggio kom til Rómar 1592 var í borginni mikill fjöldi flóttamanna frá stríðshrjáðum ríkjum Ítalíuskagans. Caravaggio tók aftur upp fyrri hætti og heimsótti tíðum skuggahverfin.

 

Jafnframt leitaði hann sér að atvinnu og aftur hafði hann heppnina með sér. Hann fékk vinnu hjá Giuseppe Cesari sem var meðlimur í hinni virtu málaraakademíu borgarinnar, Accademica di San Luca.

Um 10 árum eftir dauða Caravaggios gerði málarinn Ottavio Leoni þessa mynd af hinum heimsfræga samlanda sínum.

Stjarna unga snillingsins reis hátt

Nú telst Caravaggio til merkustu listamanna allra tíma á Ítalíu og hann er nefndur í sömu andrá og Leonardo da Vinci (1452-1519) og Michelangelo (1475-1564). Á stuttum ferli (1596-1610) vakti byltingarkenndur stíll hans mikla athygli.

 

„Caravaggio taldi það sitt helsta afrek að láta reglur listarinnar ekki fjötra sig. Fyrir þessa nýsköpun ávann hann sér mikinn heiður,“ skrifaði málarinn Giovanni Pietro Bellori 1672.

 

Tækni byltingarmannsins unga varð að listastefnu og m.a. nýtt af hollenska gullaldarmálaranum Rembrandt (1606-1669) og Vermeer (1632-1675). Sjálfur Picasso sótti innblástur til Caravaggios.

 

Þegar Picasso vann árið 1937 að málverkinu „Guernica“ sem lýsir loftárás í spænsku borgarastyrjöldinni, leitaðist hann við að ná raunsæi Caravaggios.

 

Um hestinn í „Guernica“ sagði hann við kollega sinn, Salvador Dali: „Ég vil hafa hann raunverulegan eins og hjá Caravaggio. Maður á að geta fundið svitalyktina.“

Neðstur í virðingarstiganum fékk hann það verk að mála blóm og ávexti, leiðinlegustu vinnuna og þá sem var síst metin. Á nóttunni var honum ætlaður svefnstaður á hálmdýnu í horni vinnusalarins. Caravaggio leiddist vinnan þó ekki, því það var meðan hann vandaði sig við að gæða blómin og ávextina lífi og lit sem hann uppgötvaði hæfileika sína sem málari.

 

Hæstánægður með sjálfan sig hóf hann að gera tilraunir. Vísindamönnum nútímans hefur tekist að afhjúpa aðferð hans með nútíma tækni: Hann gerði engin frumdrög né vann aðra forvinnu, heldur málaði einfaldlega strax með pensli á strigann og þar birtist sú mynd sem hann hafði séð í huga sér.

 

Fyrri málarar höfðu dregið upp guðlega fagrar verur í fullkomnu umhverfi en verk Caravaggios sýndu tilveruna eins og hún leit út í raun og veru. Elsta þekkta málverk hans er af vínguðnum Bakkusi og það sýnir lágvaxinn, þéttbyggðan, svarthærðan mann með þykkar varir, sem sé Caravaggio sjálfan.

Caravaggio setti tvær þroskaðar ferskjur fremst á málverkið – til að hæðast að gagnrýnendum og rótgrónum málurum.

Caravaggio var fullljóst að hann ögraði listaheiminum en sú tilhugsun virðist honum hafa þótt skemmtileg. Í forgrunni sjálfsmyndarinnar málaði hann tvær fullþroskaðar ferskjur. Á slangurmáli samtímans var heiti ferskju notað um rassinn á ungum manni. Skilaboðin voru sem sagt skýr: Kyssið rassinn á mér!

 

Gekk í skrokk á þjóni

Skömmu eftir að Caravaggio hafði lagt síðustu hönd á sjálfsmyndina yfirgaf hann vinnustofu Cesari. En hann var svo heppinn að auðugur kardínáli, Francesco Maria del Monte, hreifst af myndum hans og bauð listamanninum unga að setjast að í höll sinni. Á endurreisnartímanum fylgdi því mikil virðing að hafa góðan listmálara á sínum snærum.

 

Stuðningurinn veitti Caravaggio tækifæri til að stunda tilraunastarfsemi. Þegar del Monte bað hann að mála málverk neðan í loft, sýndi Caravaggio hiklaust skynbragð sitt á sjónarhorn með því að mála rómverska guði séða neðan frá.

Listmálarinn myrti lögreglumann og flúði

Á fullorðinsárum var Caravaggio meira og minna á flótta eða í útlegð. Afbrot hans neyddu hann stöðugt til að leita skjóls í nýjum ríkjum eða konungdæmum.

1592 – 21 ára morðingi

Í fjögur ár var Caravaggio í læri hjá listmálara í Mílanó en svallaði í frítíma sínum. Aðeins 21 árs drap hann lögreglumann og flúði til Kirkjuríkisins 1592.

1606 – Banvænt einvígi leggur allt í rúst

Ofbeldi og slagsmál einkenndu líf hans í Róm en auðugir listunnendur komu honum úr fangelsi. Eftir annað manndráp – að þessu sinni í einvígi – flúði Caravaggio til konungdæmisins Napólí 1606.

1608 – Flýr frá Möltu

Caravaggio vildi umfram allt komast aftur til Rómar. Til að fá náðun páfa kom hann sér í mjúkinn hjá Jóhannítareglunni á Möltu en 1608 þurfti hann að flýja til Sikileyjar eftir slagsmál.

1609 – Sefur með sverð við hlið

Málarinn fékk næg verkefni á Sikiley en var nú tekinn að haga sér undarlega. Hann svaf í fötunum og með sverðið við hlið sér. Árið 1609 sigldi hann til Napólí.

1610 – Deyr á leið til Rómar

Síðsumars 1609 kom Caravaggio aftur til Napólí. Árið eftir frétti hann að páfinn myndi nú loks náða hann og hélt af stað til Rómar en komst aldrei alla leið.

Árið 1599 bauðst honum svo stóra tækifærið. Prestarnir við San Luigi del Francesi-kirkjuna voru orðnir örvæntingarfullir. Kirkjan var gjöf frá Katarínu af Medici, Frakklandsdrottningu og því nær fullbyggð en nokkuð vantaði á grafarkapelluna sem átti að vera sérdeilis falleg. Verkið var á eftir áætlun og prestarnir þurftu nauðsynlega á hjálp að halda.

 

Del Monte stakk upp á því að leyfa hinum tiltölulega óreynda Caravaggio að spreyta sig.

 

Prestarnir þorðu ekki að andæfa svo valdamiklum manni sem kardínálanum og samþykktu þetta þótt þeim væri það þvert um geð. Fyrir Caravaggio sjálfan var líka mikið í húfi. Ef kirkjunnar mönnum mislíkaði verkið, mátti hann reikna með að þurfa að mála blóm og ávexti það sem eftir væri.

 

En málverkið féll í góðan jarðveg. Það sýndi þann atburð Biblíunnar þegar Jesús biður Matteus um að gerast lærisveinn sinn. Að Jesúsi einum undanskildum voru persónur á málverkinu líkastar því hvernig fólk leit út á tíma Carvaggios. Þetta skapaði áhorfandanum þá tilfinningu að hann væri sjálfur staddur í Biblíufrásögninni miðri.

 

Keppinautur Carvaggios, Giovanni Baglione, sagði hrósið sem málverkið fékk vera mjög yfirdrifið en nú streymdu pantanir til þessa nýfræga málara.

Meistari myrkursins umbylti listinni

Óhreinindi, blóð og samtímaklæðnaður voru meðal þess sem Caravaggio bætti við málaralist 17. aldar. Hann var ófeiminn við að láta myrkur hylja hálfan strigann, enda reyndust áhrifin mikil.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Framgangur Caravaggios fór í taugarnar á öðrum málurum. Einn keppinauta hans, málarinn Annibale Caracci fitjaði upp á nefið yfir raunsönnum stíl hans og fnæsti „Of raunverulegt“.

 

Caravaggio varð æfareiður yfir móðguninni og sór þess eið að hefna sín. Caracci og Caravaggio voru á þessum tíma álitnir merkustu listmálarar í Rómarborg og tilviljun réði því að þeir voru samtímis ráðnir til að mála hvor sinn vegginn í kapellu í kirkjunni Santa Maria del Popolo. Nú sá Caravaggio tækifæri sitt til að koma hefndinni fram.

 

Hann gerði mynd sína þannig úr garði að sá hestur sem var aðalmótefnið, sneri óæðri endanum að vegg keppinautarins.

 

Caravaggio var þó sjaldnast svo hæverskur í viðbrögðum sínum þegar hann varð fyrir móðgun. Árið 1600 særði hann málaliða með sverði sínu þegar slagsmál brutust út og hann réðist líka á ungan málara. Ofbeldi var útbreitt á Ítalíu og ryskingar viðurkenndar þegar maður þurfti að verja heiður sinn sem taldist mikilvægastur alls. En Caravaggio var óvenju skapbráður og árásargjarn.

„Umbreyting Páls“ er nafnið á veggmyndinni þar sem Caravaggio lét hestinn snúa óæðri endanum í átt að verkum keppinautarins Annibale Carracci.

Þegar keppinauturinn Giovanni Baglione hæddist að einu af málverkum Caravaggios, „Ástin sigrar allt“ veggfóðraði Caravaggio torgin í Róm með móðgandi plakötum. Í textum á þessum veggspjöldum var Baglione kallaður vesall kokkáll og nafn hans notað sem rímorð við coglione-eistu sem á þeim tíma var líka slangurheiti á algerum fávita.

 

Í apríl 1604 bitnaði skapofsi Caravaggios á þjóni einum sem ekki kunni að útskýra hvernig ætiþistlarnir á diskinum hefðu verið matreiddir.

 

„Hann reiddist, tók diskinn og sló mig utanundir með honum, án þess að segja neitt. Svo stóð hann upp og þreif til sverðsins en ég náði að koma undir mig fótunum og flýja og fór beint til lögreglunnar til að leggja fram kvörtun,“ er haft eftir þjóninum í skýrslu yfirvalda.

 

Hugðist gerast riddari

Ásakanir um ofbeldi, skemmdarverk og slagsmál streymdu til lögreglunnar. Í fjölmörgum lögregluskýrslum má greina að ástæðurnar hafi í vaxandi mæli snúist um Lenu og Fillide – tvær vændiskonur sem Caravaggio átti í sambandi við og borgaði fyrir að sitja fyrir á málverkum.

Tvær vændiskonur sem komu Caravaggio í alvarleg vandræði: Vinstra megin Lena og hægra megin Fillide

Nafnið Ranuccio Tomassoni varð líka æ tíðara í skýrslunum vorið 1606. Margt bendir til að hann og Caravaggio hafi háð baráttu um hylli Fillide. Þessi átök náðu hámarki 28. maí þegar keppinautarnir háðu einvígi sitt á tennisvellinum í miðri Rómarborg.

 

Caravaggio beindi fyrstu stungu sinni beint í klof Tomassonis, eftir að hann hrasaði og féll og það var tæpast nein tilviljun. Málarinn hefur að líkindum viljað gelda andstæðing sinn. Á endurreisnartímanum á Ítalíu var það þekkt – en fremur lágkúruleg – aðferð til að losa sig við keppinaut. Caravaggio var svo óheppinn að skera á slagæð og blóðið fossaði úr Tomassoni.

 

Reiðin gagnvart Tomassoni var þó svo ofsaleg að Caravaggio lét þetta ekki stöðva sig, heldur lyfti sverðinu aftur. Annar einvígisvotturinn stökk til og hrinti Caravaggio frá. Þar með bjargaði hann fremsta listmálara Rómar frá dómi fyrir morð af yfirlögðu ráði. Tomassoni varð þó ekki bjargað og meðan honum blæddi út, hraðaði Caravaggio sér burt.

 

Samkvæmt lögum lá fyrir að hann yrði dæmdur friðlaus innan landamæra Kirkjuríkisins sem náði yfir um fjórðung Ítalíuskagans. Næðu ættmenni eða vinir Tomassonis honum, var þeim frjálst að drepa hann. Caravaggio flýði nú til konungdæmisins í Napólí.

Alof de Wignacourt var stórmeistari Jóhanníta á árunum 1601 til 1622. Á meðan Caravaggio dvaldi á Möltu var de Wignacourt verndari listamannsins.

Flóttinn frá Róm var alvarlegt áfall fyrir frama Caravaggios. Í Kirkjuríkinu var hann orðinn stórstjarna og þessi snjalli málari vildi því fyrir alla muni fá að snúa þangað aftur sem allra fyrst. Í Napólí gerði hann þess vegna áætlun sem átti að færa honum fyrirgefningu sjálfs páfans. Hann hugðist sigla til Möltu, lítillar eyjar milli Sikileyjar og Norður-Afríku.

 

Möltu réði regla Jóhanníta sem stofnuð hafði verið á dögum krossferðanna á 12. öld. Á 16. öld heyrði reglan undir kaþólsku kirkjuna og var mikils metin sem hersveit og útvörður í baráttunni við múslíma.

 

Með því að koma sér í mjúkinn hjá riddurum reglunnar hugðist Caravaggio sýna páfanum að hann væri frómur og iðrandi kaþólikki sem ætti skilið að fá fyrirgefningu.

 

Vel tekið á Möltu

Caravaggio fékk góðar viðtökur á Möltu og stórmeistari reglunnar, Alof de Wignacourt, dáðist að glæsilegum málverkum meistarans. Í júlí 1608 fékk Caravaggio gullkeðju og var þar með tekinn inn í Jóhannítaregluna.

 

Allt hafði sem sagt gengið samkvæmt áætlun en það stóð ekki lengi. Caravaggio gat ekki haft hemil á skapi sínu og hélt áfram að lenda í slagsmálum. Honum var útskúfað úr reglunni og varpað í fangelsi. Á einhvern furðulegan hátt tókst honum þó að flýja úr fangelsinu og frá Möltu. Hann fór nú til Sikileyjar en var nú haldinn ofsóknaræði, svaf t.d. alltaf í fötunum og með sverðið sér við hlið.

 

Jafnframt reyndi hann í örvæntingu að milda hinn vonsvikna stórmeistara reglunnar á Möltu, m.a. með því að senda honum málverkið „Salóme með höfuð Jóhannesar skírara á fati“. Efnið var sótt í Biblíuna en það gat ekki farið fram hjá neinum að málarinn var ekki síður að vísa til sinnar eigin aðstöðu.

Samkvæmt Biblíunni dansaði hin fagra Salóme það vel fyrir Heródes konung að hún fékk uppfyllta eina ósk. Stjúpdóttir Heródesar vildi fá höfuð Jóhannesar skírara á fati - og fékk það.

Haustið 1609 bárust listamanninum loksins góðar fréttir:

 

Colonnafjölskyldan, aðalsfjölskylda í Mílanó vann að því – gegnum sambönd sín við valdamikla kardínála í Róm – að fá páfann til að náða Caravaggio. Hann hélt nú vongóður til Napólí.

 

En það voru skuggahverfi víðar en í Róm. Á vertshúsinu „Osteria del Carriglio“ sem var vinsælt meðal listamanna réðist afbrotamaður á Caravaggio og rak hníf í andlitið á honum.

 

Afmyndaður í framan hélt Caravaggio til Rómar árið eftir og hafði þá fengið fregnir af því að páfinn hygðist náða hann. Þann 9. júlí 1610 lagði hann af stað norður á bóginn með skipi og í lestinni hafði hann allmörg málverk meðferðis.

 

Þegar skipið lagðist að bryggju í einni af höfnum Kirkjuríkisins, var Caravaggio handtekinn þar eð fréttir af fyrirhugaðri náðun höfðu ekki borist þangað. Þegar Caravaggio tókst loks að sannfæra yfirvöld um að hann fengi senn uppreista æru, var skipið farið og málverkin hans enn um borð.

 

Caravaggio hraðaði för sinni til Porto Ercole í Toscana til að ná skipinu. En er þangað kom var hann úttaugaður af þreytu og veikur í ofanálag.

Frægustu verk Caravaggios innihéldu blóð og ávexti

Á 17. öld voru viðburðir úr Biblíunni eitt helsta myndefnið og Caravaggio fékk ótal pantanir fyrir þessa tegund málverka. Hins vegar voru verk hans mun harðneskjulegri en verk annarra samtímamálara.

Jóhannes skírari hálshöggvinn (1608)

 

Margir listfræðingar kalla málverkið eitt merkasta verk evrópskrar menningar. Málverkið var það eina sem Caravaggio áritaði – hann notaði litinn úr blóðpolli spámannsins.

Júpíter, Neptúnus og Plútó (um 1597)

 

 Í sínu einasta loftmálverki vildi Caravaggio sýna fram á að hann hefði náð tökum á list sjónarhornsins. Rómversku guðirnir eru því sýndir neðan frá. Verkið má í dag sjá í Villa Aurora í Róm.

Bakkus (um 1596-97)

 

Andlitsmyndin af rómverska vínguðinum Bakkusi geislar af næmni og tvíræðri kynhneigð. Vöðvastæltur handleggir sýna að módelið er karlkyns, en plokkaðar og teiknaðar augabrúnir gefa til kynna kvenleika.

Ávaxtakarfa (um 1599)

 

Fallega uppsett blóm og ávextir þóttu auðveld lærlingsverkefni á tímum Caravaggios. Caravaggio endurbætti þessa stefnu og málaði epli með ormagötum og visnuðum laufum

Judith hálsheggur Holofernes (1599-1602)

 

Caravaggio lýsti í hræðilegum smáatriðum sögu Biblíunnar þegar kvenhetjan Judith myrti sýrlenska hershöfðingjann Holofernes til að bjarga gyðingum. Caravaggio notaði vændiskonuna Fillide Melandroni sem Judith í málverkinu.

Hann var lagður í rúmið með illskeytta hitasótt. Þar var hann látinn einn og fáum dögum síðar dó hann jafn aumingjalega og hann hafði lifað,“ skrifaði málarinn og keppinauturninn Giovanni Baglione.

 

Beinin sýna dánarmeinið

Carvaggio lést 29. september 1610, nokkrum dögum áður en fregnir af opinberri náðun páfans bárust. Margir hafa síðan velt því fyrir sér hvað það var sem lagði hann í gröfina 38 ára að aldri.

 

Árið 2010, 400 árum eftir dauða listamannsins, fundu fornleifafræðingar við uppgröft bein sem „með 85% vissu eru jarðneskar leifar Caravaggios,“ sögðu vísindamennirnir.

 

Rannsóknaniðurstöður voru birtar í breska vísindaritinu The Lancet og þar var því slegið föstu að Caravaggio hefði að öllum líkindum dáið úr sýkingu með bakteríunni Staphylococcus aureus.

 

Sýkingin hefur líklegast orsakast af sárinu sem Caravaggio hlaut í Napólí. Ofsafengið skaplyndi hans og ást á vafasömum knæpum höfðu þannig á endanum hefnt sín.

Lestu meira um Caravaggio

Charles Nicholl: Caravaggio: A Life Sacred and Profane, Penguin, 2010

 

Annabel Howard: This is Caravaggio, Laurence King Publishing, 2016

 

Robert Cumming: Great Artists Explained, Dorling Kindersley, 2007

 

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Else Christensen

© Museu de Belles Arts de València, © Deutsches Historisches Museum, Berlin, © National Museum of Capodimonte, © Louvre Museum, © Kunsthistorisches Museum, © San Luigi dei Francesi Church, © Galleria Borghese, © Shutterstock, © Contarelli Chapel, Church of San Luigi dei Francesi, © Santa Maria del Popolo, © Billedcollage: Galleria Nazionale d’Arte Antica & Basilica of Saint Augustine in Campo Marzio, © Musée de l’Armée, © Caravaggio/Palacio Real de Madrid, © St. John’s Co-Cathedral, © Casono Boncompagni Ludovisi, © Uffizi Gallery, © Pinacoteca Ambrosiana, © Galleria Nazionale d’Arte Antica,

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Alheimurinn

Mistök geta verið banvæn fyrir geimfara 

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

Saga

Af hverju ráða Bandaríkin yfir Guantanamo?

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Alheimurinn

Mistök geta verið banvæn fyrir geimfara 

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

Saga

Af hverju ráða Bandaríkin yfir Guantanamo?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Hve lengi höfum við fengið sumarfrí?

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

Vinsælast

1

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

2

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

3

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

4

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

5

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

6

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

1

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

2

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

3

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

4

Maðurinn

Með skönnun má spá fyrir um þunglyndi

5

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

6

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Náttúran

Hjarta steypireyðar slær bara tvisvar á mínútu

Menning

Hvers vegna varð kvikmyndin „Casablanca“ svona vinsæl?

Maðurinn

Einvígið: Er rafmagnstannbursti betri en venjulegur?

Maðurinn

Getur dáleiðslan komið í stað fyrir lyf? 

Jörðin

Evrópsk ofureldstöð virðist undirbúa gos

Maðurinn

10 óvanalegar tegundir af fælni

Náttúran

Loftslagsfyrirbrigði gæti aukið bráðnun í norðri

Maðurinn

Mjúki maðurinn gengur í arf

Maðurinn

Nátthrafnar deyja fyrr en morgunhanar. En ástæðan kemur á óvart.

Alheimurinn

NASA: 50 metra stór loftsteinn getur skollið á jörðina árið 2046

Heilsa

Kynin bregðast ekki eins við yfirvofandi áfalli

Maðurinn

Í fyrsta sinn: Vísindamenn leiða í ljós hvað gerist í heilanum þegar við deyjum

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Í spænsku borgarastyrjöldinni lifði hermaður nokkur það af, líkt og fyrir kraftaverk, að fá byssukúlu gegnum heilann. Eftir þetta gat hermaðurinn lesið dagblöðin á hvolfi. Atburðurinn veitti vísindamönnum nýja innsýn í starfsemi heilans.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is