Dómsdagur vofir yfir jökli á Suðurskautslandinu

Hinn risastóri Thwaites-jökull á Suðurskautslandinu gæti verið mun nær endadægri sínu en vænst hefur verið. Þetta sýnir ný rannsókn en vísindamenn hafa nú sent vitkafbát niður á 700 metra dýpi við brún skriðjökulstungunnar.

BIRT: 19/02/2023

LESTÍMI:

2 mínútur

Thwaites-jökullinn er á stærð við Bretland, einn stærsti jökull veraldar og gæti hækkað sjávarborð um þrjá metra ef hann bráðnaði allur.

 

Í áratugi hafa loftslagssérfræðingar haft áhyggjur af þessum 192.000 ferkílómetra jökli sem skríður fram í Amundsenhaf á vesturhluta Suðurskautslandsins á um 2 km hraða á ári.

 

Hlýr sjór bræðir sig smám saman inn undir skriðtunguna og losni um jökulinn fyrir alvöru verða afleiðingarnar miklar.

 

Nú hefur sjávarbotninn við jökulröndina verið grandskoðaður í fyrsta sinn og sú rannsókn sýnir að dómsdagur jökulsins gæti orðið enn fyrr en menn hafa talið.

Thwaites-jökullinn tæmist í Amundsenhaf á Vestur-Suðurskautslandinu. Íshellan fyrir framan jökulinn virkar sem risastór tappi fyrir undirliggjandi ísflæði sem eitt og sér geymir nóg vatn til að hækka heimshöfin um 80 sentímetra.

Hafsbotninn getur leitt í ljós framtíðina

Sjávarjarðfræðingar frá BNA, Englandi og Svíþjóð sendu sjálfstýrðan, appelsínugulan dvergkafbát með hinu fornnorræna hafgyðjunafni, Rán, niður á 700 metra dýpi.

 

Í 20 klukkustunda leiðangri sínum kortlagði kafbáturinn um 1.700 ferkílómetra svæði framan við jökulröndina. Myndir í hárri upplausn gáfu vísindamönnunum færi á að grandskoða hvernig jökulröndin hefur hopað á sjávarbotninum – og um leið hvernig líklegt er að hún hopi í framtíðinni.

Sjáðu meira um flókið verkefni neðansjávarvélmennisins hér:

Myndirnar sýndu að á óþekktu hálfs árs tímabili einhvern tíma á síðustu 200 árum hefur jökulröndin hopað tvöfalt hraðar en hún gerði að meðaltali á árunum 1996-2009 og þrefalt hraðar en 2011-2017.

 

Þótt hægari samdráttur á seinni tímum kunni að hljóma vel, veldur uppgötvunin áhyggjum.

 

Þeir segja þetta fela í sér aðvörun um að ástand jökulsins geti breyst mjög hratt og að „ámóta hröð bráðnun gæti orðið í náinni framtíð“, eins og þeir komast að orði í skýrslu sinni.

Þegar Thwaites-jökullinn hefur hörfað hefur brún hans myndað samhliða hryggi á hafsbotni í takt við sjávarföll. Með því að skrá yfir 160 samhliða hryggja hafa rannsakendur kortlagt stóran hluta hafsbotnsins fyrir framan jökulinn. Litirnir gefa til kynna dýptarmun hafsbotnsins.

„Thwaites hangir eiginlega á fingurgómunum,“ segir Robert Larter, einn þeirra sem stóðu að rannsókninni og sjávarjarðeðlisfræðingur hjá British Antarctic Survey í fréttatilkynningu.

 

„Við getum vænst þess að sjá mjög miklar breytingar á skömmum tíma – jafnvel milli ára,“ heldur hann áfram.

 

Thwaites jökullinn nær út í Amundsenhaf og virkar þar sem einskonar hemill á gríðarlegt ísmagn inni á Suðurskautslandinu. Vísindamennirnir óttast að bresti þessi hemill muni öll ískápan á vesturhluta Suðurskautslandsins gefa eftir.

 

Gerist það gæti sjávarborð hækkað um 1-3 metra og kaffært strandborgir um allan heim.

BIRT: 19/02/2023

HÖFUNDUR: NANNA VIUM

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Shutterstock. © The University of South Florida. © Claus Lunau & NASA

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is