Í 18 milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðu eru mörkin milli útgeimsins og hinnar gríðarstóru gasbólu rafhlaðinna einda sem umlykur allt sólkerfi okkar.
Sjálf gasblaðran kallast sólhvolf eða sólvindshvolf og er blásin út af hinum öflugu sólvindum sem stöðugt bera eindir frá sólinni alla þessa leið og vernda okkur um leið fyrir geislun úr útgeimnum.
Aðeins tvö geimför hafa nokkru sinni komist alla leið út í gegnum þessi mörk og út í hinn óþekkta útgeim.
En nú hafa gögn frá alls þremur NASA-geimförum veitt betri yfirsýn yfir þessi ystu endimörk sólkerfisins. Og þau reynast ekki eins jöfn og óskipt og menn gerðu hálfpartinn ráð fyrir.
Skyndileg breyting á styrk sólvindsins
Í nýrri grein í vísindaritinu Nature Astronomy greina vísindamenn, m.a. hjá Princetonháskóla í BNA, frá niðurstöðum úr skoðun gagna frá NASA-gervitunglinu IBEX sem skotið var á loft 2009 til að rannsaka sólhvolfið.
Vísindamennirnir báru tölurnar saman við gögn frá tvíburageimförunum Voyager 1 og 2 sem náðu út fyrir sólvindsmörkin 2012 og 2018 eftir 35 og 41 árs ferðalag um geiminn.
Verndarskjöldur sólarinnar
- Sólhvolfið er sú bóla sem umlykur allt sólkerfið og er blásin út af stöðugum straumi rafhlaðinna einda frá sólinni.
- Sólvindsmörkin eru þar sem útgeimurinn tekur við af sólhvolfinu.
- Sólhvolfið er svo stórt að aðeins tvö manngerð geimför hafa farið út úr því: Voyager 1 og Voyager 2 sem báðum var skotið á loft 1977 og náðu 60.000 km hraða. Þau fóru út úr sólhvolfinu 2012 og 2018 eftir að hafa verið 35 og 41 ár á leiðinni.
Við samanburðargreiningar á gögnunum uppgötvuðu vísindamennirnir nokkuð skyndilega breytingu á styrk sólvindsins árið 2014 sem gerði kleift að fá gleggri mynd af mörkunum og lögun þeirra.
Víðáttumiklar bylgjur
Á sólvindsmörkunum, þar sem áhrif sólvindsins deyja út og útgeimurinn tekur við, mátti greina allmargar víðáttumiklar sveigjur eða bylgjur sem voru allt að tíu geimeiningar að stærð. Ein geimeining samsvarar fjarlægðinni milli jarðar og sólar.
Vísindamennirnir greindu líka mjög mismunandi fjarlægð út að sólvindsmörkunum. Það bendir til að lögun gasbólunnar sé ójöfn og taki stöðugt breytingum.
Stjörnufræðingar vonast eftir meiri þekkingu á fyrirbrigðinu eftir að NASA skýtur upp IMAP-gervihnettinum sem á að leysa IBEX af árið 2025. Um borð verða nýrri og betri tæki til að kortleggja þetta risastóra svæði.