Læknisfræði

Einn af hverjum ellefu þróar með sér óheilbrigt viðhorf til fæðu

Lífshættulegir átröskunarsjúkdómar breiðast út á meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Læknar eru oft ráðþrota en þessu getur ný meðhöndlun hugsanlega ráðið bót á: Ætlunin er að losa sjúklingana við áráttuhugsanirnar með segulmagni. Á undanförnum áratugum hefur orðið helmingsaukning þeirra sem greinast með átröskun.

BIRT: 17/10/2023

„Eins og beinagrind, ekkert nema skinn og bein.“ Þannig lýsti enski læknirinn Richard Morton óvanalegum sjúklingi sem hann annaðist árið 1684. Sjúklingurinn, 18 ára gömul stúlka, var skelfilega vannærð en virtist að öðru leyti vera heilbrigð. 

 

Morton vissi ekki sitt rjúkandi ráð og meðhöndlaði stúlkuna með öllu mögulegu, allt frá ilmjurtapokum yfir í móðursýkisvatn. Hún braggaðist í stuttan tíma en lést svo nokkrum mánuðum síðar.

 

Læknar nú á dögum telja að sjúklingur Mortons hafi verið elsta þekkta dæmið um átröskunarsjúkdóminn lystarstol.

Dánartíðni átröskunarsjúklinga er sjöfalt hærri en gengur og gerist.

Kvilli þessi er enn þann dag í dag lífshættulegur, líkt og var á 17. öld og sennilega sá geðsjúkdómur sem flesta dregur til dauða. Andstætt við það sem var á dögum Mortons er átröskun ekki lengur sjaldséð fyrirbæri. 

 

Lystarstol (anorexia nervosa), lotugræðgi (bulimia nervosa), og lotuofát (binge eating disorder) hrjá samanlagt allt að níu af hundraði allra sem er helmingi hærra hlutfall en fyrir bara 20 árum.

 

Þrátt fyrir ýmis tiltæk meðferðarúrræði verða margir læknar og fjölskyldumeðlimir að horfa hjálparvana upp á sjúklinga sem visna upp fyrir augunum á þeim. 

 

Þessu verður vonandi unnt að breyta í kjölfarið á ýmsum nýjum rannsóknum sem gerðar hafa verið og sem leitt hafa í ljós hvað á sér stað í höfðum þeirra sem í hlut eiga en niðurstöðurnar hafa rutt brautina fyrir ýmsum nýjum úrræðum þar sem bundnar eru vonir við að hægt verði að eyða kvillanum úr höfðum sjúklinganna með rafsegulmagni.

 

Covid leiddi til aukningar

Lystarstol sem felur það m.a. í sér að fólk sveltir sig, er sennilega sú tegund átröskunar sem hvað flestir kannast við en hún á við í tæplega tíu af hundraði allra tilfella. Hin 90 prósentin skiptast nokkurn veginn jafnt í tvo hópa sem einkennast af ofáti. 

 

Önnur gerðin nefnist lotugræðgi en hún einkennist af því að fólk kastar upp eftir máltíð, til þess að líkamsþyngdinni sé haldið nokkurn veginn í skefjum. Hin tegundin nefnist lotuofát (stundum kallað BED) en í því tilviki helst fæðan í maganum með tilheyrandi hættu á offitu eða mjög sveiflukenndri þyngd.

Átröskun er dauðans alvara

Læknar skipta átröskun iðulega í þrjár gerðir en margir sjúklingar eru raunar með blöndu einkenna og passa fyrir bragðið ekki inn í neinn einn flokkinn.

Lystarstol sveltir líkamann

Sjúklingarnir telja sig vera haldna offitu og bregðast við með því að svelta sig og hreyfa sig óhóflega til þess að brenna miklu magni hitaeininga. Þeir geta fyrir vikið orðið lífshættulega léttir. Tíðni: 0,6 prósent allra. Dánartíðni: sjöfalt hærri en ella.

Lotugræðgi þvingar matinn upp aftur

Sjúklingurinn vill grennast en missir á tímabilum stjórn og borðar mikið magn matar. Að því loknu bætir hann sér það upp með því að kasta upp eða að nota hægðalyf. Tíðni: 3,6% allra. Dánartíðni: tvöfalt hærri en ella.

Lotuofát eykur á þyngdina

Sjúklingurinn borðar iðulega mikið magn matar á stuttum tíma, m.a. til að hughreysta sjálfan sig eða halda upp á eitthvað. Hann bætir sér það ekki upp með uppköstum og verður fyrir vikið oft haldinn offitu. Tíðni: 4,8% allra. Dánartíðni: tvöfalt hærri en ella.

Átröskunarsjúklingum fjölgaði um rösklega helming á árunum milli 2000 og 2018. Hluta af aukningunni má sennilega skýra með aukinni meðvitund um sjúkdóminn en aðrir þættir eru einnig að verki. Suma fræðimenn grunar m.a. að aukin notkun samfélagsmiðla hafi í för með sér óraunhæfar hugmyndir um útlit sem svo leiði af sér átröskun af einhverju tagi.

 

Heimsfaraldurinn er talinn hafa valdið enn meiri aukningu í átröskunargreiningum. Veiran og öll þau höft sem hún hafði í för með sér olli kvíða og félagslegri einangrun hjá mörgum sem síðan leiddi til átröskunar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að alls 15 prósent fleiri greindust með einhvers konar átröskun á fyrsta ári heimsfaraldursins samanborið við næstu ár á undan.

 

Þess ber þó að geta að ekki öllum hættir í jafnmiklum mæli til að þróa með sér átröskun, t.d. eru konur í meiri hættu en karlar en þess ber að geta að um 90 af hverjum hundrað greindum sjúklingum eru konur. Hlutfall karla fer þó hækkandi. 

 

Hættan ræðst að sama skapi af tilteknum persónuleikaeinkennum. Þetta kom berlega í ljós í nýju tilraunaverkefni sem sænsku sálfræðingarnir Emma Forsén Mantilla og Andreas Birgegård stóðu fyrir.

46 prósent sjúklinga með lystarstol ná sér að fullu.

Vísindamenn hafa löngum vitað að samhengi ríkir á milli átröskunar annars vegar og geðrænna kvilla á borð við lágt sjálfsmat hins vegar. Hins vegar hefur leikið vafi á því hvort átröskun væri orsök eða afleiðing geðrænu kvillanna.

 

Sænsku sálfræðingarnir gátu staðhæft í þremur viðamiklum rannsóknum sem birtar voru á árunum milli 2015 og 2021, að framvinda sjúkdómsins væri að miklu leyti afleiðing af sjálfsmynd sjúklinganna. Vísindamennirnir fylgdust í níu ár með mörg þúsund konum sem þjáðust af átröskun og héldu nákvæma skrá yfir líkamlega og andlega heilsu kvennanna. 

 

Það sem mest kom á óvart var að hægt hefði verið að sjá fyrir framvindu sjúkdómsins næstu mörg árin með því að mæla sjálfsásakanir kvennanna á þeim tíma þegar þær greindust með átröskunina. Því meiri tilhneigingu sem þær höfðu til að ásaka sjálfar sig, þeim mun meiri voru líkurnar á að þær hefðu ekki losnað undan oki átröskunarinnar níu árum síðar.

 

Þetta gefur til kynna að miklar sjálfásakanir eigi þátt í átröskun og sé því ekki einvörðungu hluti af einkennunum. Á hinn bóginn virtust aðrir þættir sjálfsmyndar, svo sem eins og sjálfsstjórn, sjálfsöryggi og sjálfsvörn, engin sérstök áhrif hafa á það hvernig sjúklingunum leið síðar meir.

 

Spegilmyndin er brengluð

Sænska rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að lystarstol er alvarlegasta tegundin af átröskun. Kvilli þessi felur í sér ótta við að þyngjast og sjúklingunum finnst þeir sjálfir vera haldnir offitu, óháð því hvað spegilmyndin og baðvogin segir þeim. Niðurstaðan verður sú að lystarstolssjúklingar svelta sig í svo miklum mæli að lífi þeirra stendur ógn af og að meðaltali lifa þeir 10-20 árum skemur en aðrir.

 

Margir vísindamenn hafa lagt sig í líma við að öðlast skilning á því hvort fólk sem haldið er lystarstoli haldi virkilega að það sé feitara en gerist og gengur en niðurstöðum þeirra ber ekki saman. 

 

Árið 2019 gerði þýski sálfræðingurinn Ida Wessing tilraun sem fól í sér að láta alls 38 ungar konur þreifa á sjálfum sér en helmingur kvennanna þjáðist af lystarstoli og hinn hlutinn ekki. Síðan voru þær beðnar um að segja til um ummál upphandleggjarins, læris og mittis, með því að teikna hring sem hafði sama ummál. Að þessari æfingu lokinni tóku lystarstolssjúklingarnir úr hópi kvennanna þátt í margra vikna þjálfunardagskrá áður en þær undirgengust sömu æfingu aftur.

Lystarstol eykur hættuna á alls konar ótímabærum dauðsföllum. Algengasta dánarorsökin meðal lystarstolssjúklinga er sjálfsmorð.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að öllum konunum fannst þær vera feitari en raun bar vitni. Heilbrigðu konurnar voru raunsærri en hinar og þær mátu sig einungis vera 12% feitari en þær í raun og veru voru. Þær konur sem haldnar voru lystarstoli álitu sig vera 33% feitari en raun bar vitni. Sú tala lækkaði niður í 25% eftir meðferðina sem áður var getið.

 

Svipaðar rannsóknir hafa raunar leitt til eilítið frábrugðinna niðurstaðna. Í rannsókn einni sem gerð var á Ítalíu árið 2020 kom í ljós að átröskunarsjúklingar hafa mjög góða stjórn á raunverulegu líkamsástandi sínu en tilfinningalega séð finnist þeim þeir feitari en raun ber vitni.

 

Matur neyddur ofan í sjúklinga

Meðhöndlun þeirra sem þjást af átröskun felur gjarnan í sér fæðuleiðbeiningar með það fyrir augum að koma líkamsþyngdinni í eðlilegt horf, ásamt því sem nefnist tilfinningamiðuð kennsla sem gengur út á það að láta sjúklinginn horfast í augu við sjúkdóm sinn og skilja hvernig unnt sé að ráða bót á honum.  Við þetta bætist svo eiginleg sállækning, þar sem ráðist er á tilfinningarnar og vandamálin sem talin eru liggja til grundvallar sjúkdóminum.

 

Ef sjúklingurinn þjáist af lystarstoli er mjög brýnt að koma þyngdinni í samt lag eins fljótt og frekast er unnt en þetta kann að vera miklum annmörkum háð. Sjúklingarnir gera iðulega allt sem í þeirra valdi stendur til að komast hjá því að borða og streitast á móti ef t.d. foreldrarnir reyna að þvinga þá til þess. Síðan munu þeir að öllum líkindum kasta matnum upp aftur, áður en líkaminn nær að vinna úr fæðunni eða þá hreyfa sig af öllum lífs- og sálarkröftum til að brenna hitaeiningunum. 

 

Fyrir vikið er mjög brýnt að halda lystarstolssjúklingum undir nánast stöðugu eftirliti og í mörgum tilvikum fer þetta á þann veg að sjúklingurinn er lagður inn. Á sjúkrahúsum getur reynst nauðsynlegt að þvinga fæðu ofan í sjúklinga með sondu í því skyni að þyngja þá. Þó svo að hugsanlega takist að auka þyngdina og að koma andlegu ástandi í jafnvægi fer allt oft á verri veg aftur.

LESTU EINNIG

Í viðamikilli rannsókn sem gerð var árið 2017 rannsakaði bandaríski geðlæknirinn Sahib Khalsa alls 27 eldri rannsóknir sem fólu í sér meðferðarferli lystarstolssjúklinga. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að rösklega fjórðungi þeirra sjúklinga sem náð höfðu einhverjum eða fullkomnum bata eftir meðferðina, hrakaði aftur og hófu að svelta sig á nýjan leik. 

 

Hættan á afturkipp er mest einungis þremur mánuðum eftir að meðferð lýkur og sömu sjúklingarnir eru oft á leið inn og út úr meðferð svo árum skiptir. Það er því ekki óalgengt að á sjúkrahúsum séu lystarstolssjúklingar sem eru búnir að vera þar viðloðandi í 10 til 30 ár.

 

Þörfin fyrir áhrifaríkari meðferðarúrræði er því einkar brýn. Þó svo að hefðbundin meðferðarúrræði hafi tekið miklum framförum á undanförnum árum eru margir vísindamenn farnir að hugsa dæmið alveg upp á nýtt. Eitt þeirra meðferðarúrræða sem gefið hafa góða raun felur m.a. í sér notkun öflugra rafsegla. 

Seglar vinna bug á þráhyggju heilans

Notað er nýtt meðferðarúrræði þar sem segulsviði er beitt til að örva sérlegar heilastöðvar í fólki sem haldið er átröskun. Örvunin breytir viðhorfi sjúklinganna til matar, svo og eigin líkama.

Hægt að hafa hemil á ofáti

Fremst í ennisblöðunum er að finna miðlæga hluta framheilabarkarins sem á þátt í að hafa hemil á hvötum okkar og ákvarðanatökum. Með því að örva svæðið styrkist geta sjúklinga með matgræðgi til að hafa hemil á hvötum sínum þannig að þeir borði ekki um of.

Sýn á fæðu breytist

Hliðlægi framheilabörkurinn á hlið ennisblaðanna á þátt í rökrænni hugsun og tilfinningastjórnun. Við örvun kemst sýnin á fæðu í eðlilegt horf og með því móti er unnt að vinna bug á öllum þremur gerðum átsröskunar.

Þráhyggjuhugsunum bægt á brott

Heilasvæðið sem nefnist eyja á þátt í sjálfsskynjun og meðvitund um mat og sult. Segulörvun svæðisins gerir það að verkum að þráhyggja um mat minnkar og ranghugmyndir um eigin líkama lagast.

Aðferðin sem kallast TMS (transcranial magnetic stimulation), tekur mið af því að átraskanir eigi sér uppruna í heilanum og felur í sér notkun rafsegulmagns sem hefur áhrif á heilastarfsemina í tilteknum heilastöðvum.

 

Árið 2018 beindu enskir vísindamenn segulsviðinu að tilteknu svæði í ennisblöðunum sem meðal lystarstolssjúklinga tengjast takmarkaðri getu til að vinna úr tilteknum tilfinningum. Tilraunin leiddi til bata margra lystarstolssjúklinga, þó einkum hvað snerti skapferli þeirra og almenn lífsgæði.

 

Þetta nýja meðferðarúrræði er engan veginn fullþróað en vísindamenn binda miklar vonir við það. Aðferðinni er nefnilega unnt að beita á tiltölulega einfaldan máta með litlu tæki sem rúmast í lófa og allt ferlið tekur ekki nema nokkrar mínútur. Þá má einnig geta þess að sjúklingurinn ber engan skaða af meðferðinni.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: GORM PALMGREN

© Shutterstock.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hvernig varð Rússland svona stórt?

Maðurinn

Svona gróa sár

Tækni

Gervigreindin getur nú spáð fyrir um líf og dauða

Maðurinn

Þannig þekkjast félagsblindir

Lifandi Saga

Dr. Kellogg rak út djöfulinn með kornflexi 

Maðurinn

Nú verða þessi börn hávaxnari en jafnaldrar þeirra

Maðurinn

4.000 ára gömul steinhella reyndist vera fjársjóðskort

Menning og saga

Hver átti hugmyndina að táknunum fyrir karla og konur?

Náttúran

Sjáið heiminn með augum hunda

Lifandi Saga

Raðmorðingi sigraði í sjónvarpsþætti

Náttúran

Apar þekkja gamla vini

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is