Er botnlanginn í raun óþarfur?

Vísindamenn hafa löngum velt vöngum yfir botnlanganum og margir álíta hann vera leifar frá fortíðinni. En fær það staðist að botnlanginn gegni í raun engu hlutverki?

BIRT: 23/02/2023

LESTÍMI:

< 1 mínúta

 

Hvað er botnlanginn?

Botnlanginn er um það bil 5-10 cm löng tota á þörmunum. Hann tengist inn í botnristilinn sem er fyrsti hluti digurgirnis. Vísindamenn hafa löngum undrað sig á tilvist hans og margir eru þeirrar skoðunar að um sé að ræða leifar úr fortíðinni, sem misst hafi hagnýtan tilgang sinn.

 

Rannsóknir leiddu svo í ljós fyrir nokkrum árum að botnlanginn kann að hafa áhrif á þróun ónæmiskerfisins, einkum í fóstrum.

 

Botnlangann er að finna á fyrsta hluta digurgirnisins og líkt og heitið gefur til kynna tengist hann botnristlinum.

Botnlanginn gagnast þarmagerlum

Nýlegar bandarískar rannsóknir gefa nú til kynna að botnlanginn kunni að gegna hlutverki öruggs afdreps fyrir þarmagerla sem gagnast okkur við að melta fæðuna og koma í veg fyrir að skaðlegar örverur dreifi sér.

 

Gerlarnir mynda slímkennt lag, svonefnda sýklaskán, á innra yfirborði botnlangans og virðast gagnast ónæmiskerfinu á virkan hátt með því að mynda þessa sýklaskán og viðhalda henni. Sýklaskán uppgötvaðist aðeins fyrir skemmstu í þörmunum og í ljós hefur komið að langstærstan hluta hennar er einmitt að finna í botnlanganum.

 

Vísindamenn telja að gerlar í botnlanganum geti losað sig við þarmaflóruna í meltingarveginum og endurmyndað nýja flóru þegar þarmarnir hafa hreinsast út í kjölfarið á matareitrun.

 

Með auknu hreinlæti, líkt og viðgengst í mörgum löndum í dag, hefur hlutverk botnlangans orðið sífellt minna og fyrir vikið spjarar nútímafólk sig flest mætavel án hans.

BIRT: 23/02/2023

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.