Á miklum hraða skapar kappakstursbíll í Formúlu I niðurþrýsting sem samsvarar 3,5 sinnum þyngdaraflinu.
Það er straumlínulögunin sem skapar þennan þrýsting eða „downforce“ eins og fyrirbrigðið er kallað á ensku. Flái að framan og vindskeið að aftan virka svipað og flugvélavængir.
Flugvélavængir skapa lyftikraft en þessi hönnun þrýstir bílnum niður og nánast límir hann við brautina til að styrkja veggripið.
180 km/klst dugar
Vindskeiðin klýfur loftið í tvo strauma og hún er formuð þannig að loftið fer hraðar fyrir neðan vindskeiðina en ofan. Það veldur meiri þrýstingi ofan á vindskeiðina og bíllinn þrýstist niður á brautina. Því hraðar sem ekið er, því meiri verður þrýstingurinn.
Stúdentar við Leicesterháskóla í Englandi reiknuðu út hve mikið þurfi til að hraðinn haldi formúlubíl á hvolfi. Niðurstaðan varð að 180 km hraði dygði til að yfirvinna þyngdaraflið og aka t.d. á veggjum eða lofti í veggöngum.
Hraðinn sogar bílinn upp í þakið
Fræðilega séð væri hægt að aka formúlubíl eftir loftinu í veggöngum – bara á nægilegum hraða.

1. Hröðun formúlubíls
Formúlubíl ekið inn í löng göng og hraðinn aukinn. Meðan bíllinn er á akbrautinni þrýsta þyngdaraflið (blátt) og loftþjöppunin (gul) honum niður.

2. Þyngdaraflið sigrað
Lögun bílsins og vindskeiðar – að aftan og framan – þrýsta bílnum að akbrautinni. Þegar 180 km hraða er náð er þessi þrýstingur sterkari en þyngdaflið og bíllinn kemst upp á hliðarvegginn.

3. Bílnum ekið á hvolfi
Þegar bílnum er ekið inn á loftið í göngunum toga þyngdaraflið og loftstraumsþrýstingurinn í gagnstæðar áttir. Sé farið í hámarkshraða er loftþrýstikrafturinn allt að 3,5 sinnum öflugri.
Bílarnir í Formúlu I ná meira en 360 km hraða en tilraun til að keyra slíkan bíl á hvolfi verður þó naumast gerð. Til þess þyrfti mjög löng göng, vél sem gengi ótrufluð á hvolfi – og svo afar hugrakkan ökumann.