Segulpólar jarðar hafa víxlast margoft.
Á síðustu 20 milljón árum hafa pólskipti orðið á um 200-300 þúsund ára fresti að meðaltali, en nú hafa pólskiptin látið bíða eftir sér.
Vísindamenn vita að liðin eru um 786.000 ár frá síðustu pólskiptum.
Ef við gætum ferðast 800 þúsund ár aftur í tímann myndi rauði endinn á nál áttavitans sem sagt benda á hinn landfræðilega suðurpól en ekki til norðurs.
Rafall í iðrum jarðar
Talið er að segulsviðið myndist umhverfis ytri kjarnann í hnettinum, en hann er gerður úr fljótandi járni.
Vegna smávægilegra frávika í hitastigi í þessum bráðna massa myndast í honum iðustraumar.
Hreyfingin skapar rafstraum, sem myndar segulsvið, sem aftur setur meira af hlöðnum járnjónum á hreyfingu. Fyrirbrigðið virkar þannig sem eins konar rafall í iðrum jarðar.
Síðustu 160 ár hefur afl segulsviðsins farið minnkandi og það gæti bent til yfirvofandi pólskipta, en vísindamennirnir Calo Laj og Catherine Kissel segja þó a.m.k. 500 ár þangað til.
Pólskiptin valda segusveiflum
Gögn vísindamannanna sýna að veiklun segulsviðsins í aðdraganda pólskipta gera jörðina veikari fyrir geimgeislun. Reiknilíkan í tölvu sýnir þó að segulsviðið hverfur aldrei alveg.
1. Fyrir pólskiptin
Bláar og rauðgular segullínur sýna segulsvið jarðar og eiga allar upptök í öðrum þeirra tveggja póla sem við þekkjum nú.
2. Við pólskiptin
Uppröðun segullínanna lendir í óreiðu og margir suður- og norðurpólar myndast. Segulsviðið veiklast en hverfur aldrei alveg.