Ofþyngdar- og offitutilvikum hefur síðustu 25 árin farið fjölgandi nánast á sprengihraða og það er almennt viðurkennt að of há BMI-tala (Body Mass Index) geti verið meðal ástæðna ýmissa hjarta- og æðasjúkdóma.
En bandarískar rannsóknir benda nú ekki til að of há BMI-tala beinlínis auki dánartíðnina.
Ofþyngd ekki eina ástæðan
Það eru vísindamenn hjá Rutgersháskóla í Bandaríkjunum sem rannsakað hafa þessi tengsl og boðskapur þeirra er skýr:
„Rannsókn okkar styður þá skoðun að maður þurfi að varast að líta bara á BMI-töluna. Það er ekki skýrt samband milli þyngdar og dánartíðni almennt, þegar BMI-tölur eru skoðaðar í víðara samhengi. Það þýðir þó alls ekki dánartíðnin sé sú sama í öllum BMI-flokkum,“ segja vísindamennirnir tveir, sem gerðu rannsóknina, Aayush Visaria og Soko Setoguchi.
Rannsókn á 500.000 manns
Flestar bandarískar rannsóknir á þessu sviði byggjast á gögnum frá sjöunda áratug síðustu aldar og fram yfir 1990. Þessar rannsóknir náðu einkum til hvítra Bandaríkjamanna, sem ekki voru af suður-amerískum ættum. Vísindamennirnir hjá Rutgersháskóla víkkuðu það sjónarhorn í rannsókn sinni.
Þeir greindum heilsufarsgögn 554.332 fullorðinna einstaklinga sem tekið höfðu þátt í stórri rannsóknabandarískra heilbrigðisyfirvalda, „National Health Interview Survey“ (1990-2018). Til viðbótar voru sóttar upplýsingar í opinberar andlátsskrár (National Death Index).
Meira en þriðjungur var í ofþyngd
BMI-tölur þátttakenda voru reiknaðar á grundvelli upplýsinga þeirra sjálfra um hæð og þyngd og þátttakendum síðan skipt upp i 9 BMI-flokka. 35% þátttakenda voru með BMI-tölu á bilinu 25-29,9, sem flokkast sem ofþyngd og 27,2% höfðu BMI-töluna 30 eða hærri, sem flokkast sem offita.
Þegar bornar voru saman dánartölur fólks sem fylgst hafði verið með í langan tíma, 9-20 ár, reyndist ekki neinn áberandi munur á dánartíðni eftir BMI-flokkum.
Hjá eldri þátttakendum var enginn marktækur munur á dánartíðni á BMI-rófinu 22,5-34.9. Og hjá yngri þátttakendum reyndist heldur ekki marktækur munur á BMI-rófinu 22,5-27,4.
Meðal þeirra sem voru allra efst á BMI-kvarðanum var dánartíðnin þó talsvert hærri en almennt, eða 21-108% hærri.
Vísindamennirnir telja óhætt að draga þá ályktun að BMI-tala á bilinu 25-29,9, sem sagt ofþyngd leiði ekki sjálfkrafa af sér auka dánarlíkur.