Dag einn í september árið 1900 reið fellibylur af fullum styrk yfir borgina Galveston sem er að finna á lágu sandrifi í Mexíkóflóa.
Vindmælar borgarinnar þoldu ekki álagið og brotnuðu fljótlega í spað en veðurfræðingar í dag álíta að um hafi verið að ræða 4. stigs fellibyl og að vindhraðinn hafi komist upp í u.þ.b. 210 km/klst.
Afleiðingarnar voru skelfilegar. Jörðin gekk í bylgjum í borginni, það grófst undan húsunum og mörg þeirra brotnuðu í spað.
Alls 8.000 manns létu lífið. Margir lentu úti í sjó en aðrir fórust þegar hús þeirra hrundu. Rösklega 3.600 hús eyðilögðust og um 30.000 manns misstu heimili sín.
Þrátt fyrir hörmungarnar héldu íbúarnir fjöldafund strax daginn eftir, þar sem sett var á laggirnar nefnd sem hafði það verkefni að liðsinna fólki í neyð og að gera áætlun sem komið gæti í veg fyrir viðlíka hörmungar í framtíðinni.
Nefndarvinnan leiddi af sér tvær djarfar tillögur þriggja verkfræðinga: að reisa steinsteypuvegg niðri við sjó og að lyfta borginni sem stóð svo lágt. Báðar þessar tillögur voru samþykktar og árið 1902 var hafist handa við byggingu múrsins.

Blautum sandinum var dælt með stórum rörum gegnum bæinn. Þegar sandurinn hafði þornað mátti nota hann sem nýjan jarðveg.
Ári síðar réðust verkfræðingar og heill her verkamanna í það erfiða verkefni að lyfta upp borginni. Fyrst var grafinn skurður sem gerði kleift að sigla pramma með sand lengst inn í borgina.
Sandinum var dælt af hafsbotni milli hafnargarðanna og inni í sjálfum bænum var honum dælt áfram út í einn af alls 16 hlutum. Umhverfis hvern hluta voru reistir varnargarðar sem héldu sandinum á sínum stað.
Sandurinn var rennblautur þegar honum var dælt upp en sjórinn lak fljótt af honum og eftir stóð þurrt undirlag. Með aðstoð stórra tjakka var alls 2.000 húsum lyft upp á nýja sandbotninn.
Nota þurfti alls 700 tjakka til að lyfta upp 3.000 tonna þungri kirkjunni. Á götunum varð að flytja til vatnsrör, leiðslur og sporvagnateina á meðan íbúunum var bent á að notast við tímabundnar gangstéttar hátt uppi.
Lægsta hluta borgarinnar var lyft upp um alls fimm metra og borgarbúar höfðu einnig upp úr krafsinu betrumbætt frárennsliskerfi því nú fékkst meiri halli á lagnirnar. Við þetta bættist að höfnin dýpkaði til muna og varð mun betri en áður.
Verkinu var lokið árið 1910 og árið 1915 reið yfir nýr fellibylur sem borgin stóðst með glans. Raunar flæddi einnig í þetta sinn en þess ber þó að geta að einungis átta manns misstu lífið.