Örlög milljóna gyðinga réðust í úthverfi Berlínar fyrir 80 árum.
Nokkrir háttsettir nasistaforingjar hittust á svonefndri Wannsee-ráðstefnu hinn 20. janúar 1942 til þess að ákveða með hvaða hætti væri best að framfylgja fyrirskipun Adolfs Hitlers um „endanlega lausn á evrópska gyðingavandamálinu“ en með því er átt við útrýmingu þeirra ellefu milljón gyðinga sem bjuggu í Evrópu.
Skipuleggjandi fundarins var Reinhard Heydrich en hann var í forsvari fyrir öryggislögregluna í Þýskalandi nasismans. Með honum voru ýmsir aðrir háttsettir SS-foringjar, svo og helstu embættismenn nokkurra ráðuneyta.
Markmið Heydrichs var að tryggja sér hollustu embættismannanna og að samræma viðmiðunarreglur sem unnið skyldi eftir í tengslum við þjóðarmorðið.
Háttsettir aðilar tóku þátt í Wannsee-ráðstefnunni
Reinhard Heydrich hafði boðið til ráðstefnunnar 15 fulltrúum allra þeirra yfirvalda sem áttu að taka þátt í gyðingaútrýmingunni. Þar var að finna ýmsa framámenn innan SS og háttsetta embættismenn úr m.a. innanríkis-, utanríkis- og dómsmálaráðuneytinu.
Reinhard Heydrich 1904-1942
Staða: Yfirmaður öryggislögreglunnar og leyniþjónustunnar innan SS. Hlutverk í gyðingaútrýmingu: Fékk það hlutverk að skipuleggja og samhæfa verklega framkvæmd útrýmingarinnar.
Heinrich Müller 1900-óþekkt
Staða: Yfirmaður Gestapo, leynilegu ríkislögreglunnar í Þýskalandi nasismans. Hlutverk í gyðingaútrýmingu: Var einn höfuðpauranna að baki gyðingaútrýmingunni og bar ábyrgð á að helförinni var hrint í framkvæmd.
Adolf Eichmann 1906-1962
Staða: SS-liðsforingi. Hlutverk í gyðingaútrýmingu: Hafði m.a. þann starfa að sinna brottvísun gyðinga yfir í gyðingahverfi og útrýmingarbúðir í þeim hluta Austur-Evrópu sem Þjóðverjar höfðu hernumið.
Otto Hofmann 1896-1982
Staða: Yfirmaður aðalskrifstofu SS á sviði kynþátta og búsetu. Hlutverk í gyðingaútrýmingu: Bar ábyrgð á að kynþáttaprófa íbúana á hernumdu svæðunum og að aðstoða Þjóðverja við að setjast að í Póllandi og Rússlandi.
Karl Eberhard Schöngarth 1903-1946
Staða: SS-liðsforingi innan öryggislögreglunnar SiPo og öryggisþjónustunnar SD. Hlutverk í gyðingaútrýmingu: Setti saman ýmsar dauðasveitir og bar ábyrgð á fjöldamorði liðlega 10.000 pólskra gyðinga.
Hitler tók ákvörðunina
Einungis ein fundargerð hefur varðveist frá ráðstefnunni og hún sýnir að nasistarnir höfðu fyrst aðeins í hyggju að reka gyðingana yfir til Austur-Evrópu. Þar var þeim svo ætlað að inna af hendi þrælkunarvinnu allt þar til allsherjar útrýming yrði gerleg.
Sumir sagnfræðingar eru þeirrar skoðunar að sjálf ákvörðunin um útrýmingu gyðinga hafi verið tekin í Wannsee. Af öllu að dæma hafði Adolf Hitler raunar tekið ákvörðun um þetta haustið 1941 og þjóðarmorðið hafi verið í þann veg að hefjast þegar ráðstefnan var haldin.
Þýskar dauðasveitir og aðgerðahópar, höfðu m.a. limlest austurevrópska gyðinga í hálft ár þegar þarna var komið sögu og í útrýmingarbúðunum „Chełmno“ voru nasistar byrjaðir að myrða gyðinga einum sex vikum áður en Wannsee-ráðstefnan var haldin.