Blendingar – þar sem tvær ólíkar dýrategundir eignast afkvæmi – eru tiltölulega fágætir í náttúrunni. Meðal náskyldra fiska sem losa mikið magn af eggjum og svilum í vatni við æxlun, eru þeir nokkuð algengir – ótal dæmi um slíkt má finna í vötnunum Tanganyika og Malaví í Afríku.
Alla jafnan sjá þó atferli og búsvæði dýranna til þess að það borgar sig einfaldlega ekki fyrir tegundirnar að eyða orku í að makast. Þegar tvö náskyld dýr slysast samt til þess, eru líkur á frjóvgun ákaflega litlar.
Ljón (Panthera leo) og tígrisdýr (Panthera tigris) eru meðal þeirra dýra sem geta eignast afkvæmi saman enda eru tegundirnar náskyldar. Sé faðirinn ljón og móðirin tígrisdýr er afkvæmið nefnt liger á ensku.
Sumar tegundir eru svo náskyldar að þær geta eignast lífvænleg afkvæmi við blöndun en í náttúrunni eru þær oftar en ekki aðskildar af gríðarlegu landflæmi, jafnvel heilum heimsálfum. Í haldi manna geta náskyld dýr lifað hlið við hlið og þá er mögulegt að „ónáttúruleg“ mökun eigi sér stað.
Tígrisdýr og ljón eignast ... tigona
Einn þekktasti blendingurinn er múlasninn. Hann þykir afar gott burðardýr og er jafnframt meðfærilegur, enda hafa menn ræktað hann um aldaraðir. Múlasni er afkvæmi karlkyns asna og merar. Þetta getur þó verið vandkvæðum bundið því frjóvgun heppnast aðeins í þriðja hvert skipti. Múlasnar eru jafnan ófrjóir.
Í dýragörðum hafa menn blandað saman ljónum og tígrisdýrum. Afkvæmin eru kölluð liger eða tigon, þar sem nöfnum dýranna er splæst saman. Ef faðirinn er ljón nefnist afkvæmið liger en tigon ef faðirinn er tígrisdýr. Fjölmörg dæmi eru um sambærilega kynblöndun, m.a. milli zebrahesta og hesta.
Þá eru dæmi um að Íslendingar hafi veitt hval sem er talinn hafa verið blendingur steypireyðar og langreyðar. Hvort afkvæmið hafi verið frjótt er ekki vitað, enda var hann drepinn.
Mismunur á erfðamengi sumra tegunda sem hefur verið blandað saman þannig að afraksturinn verði lífvænlegt afkvæmi, getur numið meira en 10%. Munur milli simpansa og manna er aðeins um tvö til þrjú prósent og sé ekki tekið tillit til margvíslegra siðferðilegra álitamála, ætti möguleg blöndun þessara tegunda að vera fræðilega möguleg.