Framleiðsla sólþilja gerist í mörgum áföngum og framleiðslan þarf bæði rafmagn og gefur frá sér koltvísýring. Grundvallarefnið í sólþiljum er yfirleitt kísill sem er hálfleiðari og unninn úr steinefninu kísildíoxíði. Hálfleiðari er rafleiðandi efni sem m.a. er notað í tölvuflögur.
Auk losunar við sjálfa framleiðsluna verður umhverfið fyrir áhrifum vegna flutninga, uppsetningar og hreinsunar sólþiljanna.
Til framleiðslu þarf straum og þungar vélar
Áður en sólþiljan er sett upp á þakinu hjá þér hefur framleiðslan haft veruleg umhverfisáhrif.
1. Kísildíoxíð unnið í námu
Meginefnið, kísildíoxíð er grafið upp með stórvirkum vinnuvélum sem losa mikið. Kísillinn verður til í 2.000 gráðu hita og ofninn þarf mikinn straum.
2. Orkufrek forvinnsla
Kísillinn er steyptur í bita og þannig myndast kristallabyggingin. Bitinn er skorinn í þunnar skífur. Hvort tveggja þarfnast orku.
3. Þiljunum raðað saman
Rafóður til að leiða strauminn eru settar á kísilskífurnar og bætt við lagi sem kemur í veg fyrir að ljósið endurkastist. Skífunum er svo raðað saman í sólþilju.
Heildaráhrifin ráðast af mörgum þáttum.
Einn þessara þátta er orka til framleiðslunnar. Kemur hún frá endurnýjanlegum orkugjöfum eða jarðefnaeldsneyti. Þetta fer mjög eftir framleiðslulandi.
Fjöldi sólskinsstunda skiptir líka miklu. T.d. samsvarar heildarlosun á líftíma sólþilju 38 grömmum af CO2/kWh á sólskinseyjunni Kýpur en 89 grömmum hér á Íslandi, þar sem sólskinið er talsvert minna.
Árið 2050 er þess vænst að þessar tölur verði komnar niður í 10 g CO2/kWh að meðaltali í heiminum þar eð rafmagnsframleiðsla verði þá almennt orðin mun vistvænni.
Þriðji þátturinn kallast EPBT (Energy PayBack Time), sem sagt hve langan tíma sólþiljan þarf að starfa til að framleiða jafnmikið rafmagn og það sem fór í gerð hennar. Greiningar hafa sýnt að í Norður-Evrópu er þessi tími um 1,2 ár en nær óvíða einu ári í Suður-Evrópu.
Meðallíftími sólþilju er að lágmarki 25 ár og hún framleiðir því að lágmarki 20 sinnum meiri orku en fór í framleiðslu hennar sjálfrar.