Þegar fyrir um 150.000 árum elskuðu manneskjur að skreyta sig með skarti. Það er niðurstaða teymis sérfræðinga frá hinum bandaríska University of Arizona sem á árunum 2014 til 2018 fann handfylli af skeljum sæsnigla í helli í Marokkó.
Búið var að bora göt á 33 skeljar svo að festa mætti þær í snúru. Samkvæmt sérfræðingum hafa skeljarnar líklega verið bornar sem eins konar hálskeðja eða festar á klæði til skreytingar.
Sniglaskeljarnar eru hver um 1,5 cm í þvermál og bera slitmerki sem sýna að þær hafa verið notaðar sem skart.
Skartgripir voru notaðir til að hafa samskipti
Fundur skeljanna er mikilvægur því hann sýnir að þessir fyrstu menn nýttu sér þróað form samskipta án tungumáls – t.d. með því að bera stöðutákn eins og skart eða íklæðast einhverjum sérstökum klæðnaði.
Fundurinn bendir einnig til að þessar fornu manneskjur hafi eftir öllum ummerkjum að dæma haft flóknara félagslegt samband en sérfræðingar hafa ætlað til þessa.
Sérfræðingarnir geta þó ekki sagt nákvæmlega við hvaða tækifæri þessar skeljar hafa verið notaðar í Marokkó. Ein upplýst ágiskun er sú að eigandinn hafi notað skeljarnar til að sýna hvaða ættbálki hann tilheyrði. Þörfin hefur líklega vaxið eftir því sem sífellt fleiri hópar manna settust að í Norður-Afríku fyrir einhverjum 150.000 árum.