Portúgalski taugalæknirinn Moniz áleit að andleg veikindi stöfuðu af óeðlilegum tengingum í taugabrautum ennisblaðsins. Lausn hans fólst í að skera á tengingar milli ennisblaðsins (fremsta hluta heilans) og annarra hluta heilans. Moniz hafði m.a. haft umsjón með hermönnum sem voru með skaddað ennisblað og höfðu auðsýnt „persónuleikabreytingar“.
Fyrsta skurðaðgerðin var gerð á 63 ára gamalli konu en samkvæmt geðlæknum varð hún afslappaðri og meðfærilegri fyrir vikið. Eftir um 40 slíkar aðgerðir ályktaði Moniz að inngrip hans væri „ævinlega örugg skurðaðgerð“ og „skilvirk meðferð“.
Meðan Moniz framkvæmdi fyrstu skurðaðgerðir sínar með því að bora í höfuðkúpuna og dæla inn vínanda, voru aðrir skurðlæknar að þróa skurðaðferð hans.
Framarlega í flokki fór Walter nokkur Freeman sem fann upp tækni til að ná inn að tengingum ennisblaðsins með grönnum prjóni sem hann stakk í gegnum táragöng augans.
Freeman hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1949 fyrir framlag sitt en smám saman minnkaði áhugi manna á aðferð hans, enda urðu margir sjúklingar fyrir heilaskaða eða hreinlega dóu. Upp úr 1970 var aðferðin bönnuð í flestum löndum.
Áður hafði þó heilinn í um 40.000 manns verið eyðilagður í BNA einum saman. Í Skandinavíu var gerður heilablaðsskurður á meira en 10.000 manns – þar af um 4.500 í Danmörku.
Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir gengust undir svona aðgerð hér á landi en hún var iðkuð á Landakoti og eins voru nokkrir Íslendingar sendir til Danmerkur í aðgerð.