Fyrstur manna til að stökkva í fallhlíf var hinn franski Louis-Sébastien.
Hann dreymdi um að hanna búnað sem gæti bjargað fólki úr brennandi húsum og gerði tilraunir með að stökkva úr háum trjám með eins konar styrkta regnhlíf.
Þann 26. desember 1783 stökk hann síðan úr háum turni. Þá hafði hann útbúið fjögurrra metra breitt klæði sem gerði honum kleift að svífa til jarðar fyrir framan marga furðu lostna áhorfendur.
Nokkrum árum síðar þróaði landi hans, André-Jacques Garnerin fallhlífina enn frekar. Þann 22. október lét hann sig falla til jarðar úr loftbelg sem sveif yfir Parísarborg.
André-Jacques Garnerin sveif u.þ.b. 1000 metra árið 1797.
Undir belginn hafði hann fest körfu og í henni var sjö metra breið fallhlíf. Þegar hann var kominn í um 1 km hæð, skar hann á festingarnar og fallhlífin opnaðist.
Á leiðinni niður sveiflaðist karfan hressilega og féll til jarðar með miklum látum en Garnerin lifði fallið af.
Fyrir þetta afrek varð hann þjóðhetja en hann olli miklu írafári þegar hann hugðist taka kvenmann með sér í næstu ferð.
Lögreglan setti bann á slíkt athæfi og kvað kvenlíkamann of veikburða til að standast slíka þolraun.
En Garnerin fékk innanríkisráðuneytið til að hnekkja þessu banni og árið 1799 sveif fyrsta konan til jarðar í fallhlíf – án nokkurra vandkvæða.