Þann 16. maí árið 1985 birti vísindatímaritið Nature grein sem skelfdi lesendur: Þrír vísindamenn við British Antarctic Survey – bresku rannsóknarstofnunina á suðurskautinu – opinberuðu að þeir hefðu uppgötvað að magn gastegundarinnar óson yfir Suðurskautslandinu væri ógnvænlega lítið.
Þessi uppgötvun – þekkt sem gatið á ósonlaginu – var í fjölmiðlum kynnt sem augljós sönnun þess að mannkyn væri að eyðileggja lofthjúp jarðar. Ósonlagið er hluti af lofthjúpnum í 15-20 km hæð og inniheldur mikið magn af ósóni sem ver jörðina gegn hættulegum útfjólubláum geislum sólar.
Franskir eðlisfræðingar uppgötvuðu ósonlagið árið 1913. Þá greindu þeir að það magn geislunar sem sólin gefur frá sér, samsvaraði ekki því magni sem mátti mæla á jörðu. Frekari rannsóknir sýndu að ósonlagið í lofthjúpnum varði lífverur jarðar fyrir útfjólubláum geislum sólar.
Gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu uppgötvaðist fyrst af þremur breskum vísindamönnum árið 1985.
Loka átti gatinu í ósonlaginu
Eftir að breskir vísindamenn sýndu fram á gatið í ósonlaginu undirrituðu fyrst 46 og síðar 197 þjóðir samning hjá SÞ um að hætta að nota þær vörur sem skaða ósonlagið.
Samkvæmt sérfræðingum hefur samkomulagið falið í sér að ósonlagið er nú smám saman að ná sér aftur á strik. Sérfræðingar telja þó að þær gastegundir sem skemma ósonlagið, eins og t.d. gastegundir í ísskápum og úðabrúsum, munu ekki hverfa að fullu úr lofthjúpnum fyrr en upp úr 2060.