El Ninjo merki piltbarnið og tengist öðru veðurfyrirbrigði, La Ninja, sem merkir stúlkubarnið. Hvort tveggja eru öfgakennd veðurfyrirbæri sem stafa af náttúrulegri hringrás veðurkerfa á hitabeltishluta Kyrrahafsins. Á El Ninjo-ári verður hafið 2-3 gráðum hlýrra undan vesturströnd Suður-Ameríku, en svalara á La Ninja-ári.
Svonefndir staðvindar blása að jafnaði yfir Kyrrahafið frá austri til vesturs við miðbaug. Heimsmynd okkar, t.d. skoðuð á heimskorti, sýnir Austur-Asíu lengst í austri en vesturströnd Ameríku lengst í vestri.
En jörðin er jú hnöttótt og á Kyrrahafi, hinum megin á hnettinum, snýst þessi heimsmynd við. Staðvindarnir á Kyrrahafi blása sem sagt frá vesturströnd Suður-Ameríku í austri, að Asíu í vestri. Skipaumferð nýtur góðs af þessu og ferðalag frá Suður-Ameríku til Asíu tekur styttri tíma.
Staðvindarnir mjaka heitu yfirborði Kyrrahafsins til vesturs og því streymir kaldari sjór upp á yfirborðið við vesturströnd Suður-Ameríku, en hlýtt yfirborðsvatn veldur regni í Indónesíu.
Regnið veldur uppstreymi lofts í veðrahvolfinu og þetta heldur staðvindunum við.
Birtist með óreglulegu millibili
En á nokkurra ára fresti dregur úr staðvindunum og þegar þeir ýta ekki lengur við yfirborði Kyrrahafsins, dregur hlýr yfirborðssjór sig til baka upp að ströndum Suður-Ameríku. Þetta leiðir af sér svokölluð El Ninjo-ár.
Tímabilið milli El Ninjo-ára getur verið talsvert mislangt. El Ninjo er í uppsiglingu 2023 en var síðast 2018-19. Á síðari hluta 20. aldar leið stundum aðeins eitt ár milli El Ninjo ára, þótt algengara væri að El Ninjo kæmi á 2, 3 eða 4 ára fresti. Oft hafa þó liðið 5, 6 eða 7 ár og El Ninjo gerði t.d. ekki vart við sig frá 1926 til 1941.
El Ninjo hefur mikil áhrif
El Ninjo hefur verulega mikil áhrif á svæðinu frá Ástralíu til Suður- og Norður-Ameríku. Í Ástralíu koma þurrkatímabil en veðurbrigðið veldur hins vegar flóðum í Suður- og Norður-Ameríku.
Árið 1997 var skaði af völdum El Ninjo metinn einhvers staðar á bilinu 36-92 milljarðar dollara, auk þess sem mörg þúsund manns létust ýmist úr hitaslagi eða af völdum flóða. La Ninja kemur stundum í kjölfar El Ninjo, en ekki alltaf.
La Ninja hefur líka áhrif á veðrið á þessu svæði, en þau felast ekki í neinum viðsnúningi í veðrinu heldur verða ríkjandi aðstæður öfgakenndari: enn minna rignir á þurrkasvæðum, en á svæðum þar sem mikið rignir að jafnaði verður úrkoman enn meiri en venjulega.
El Ninjo veldur þurrkum í Ástralíu.
Vísindamenn festa rafeindamæla við baujur til að fylgjast nákvæmlega með hitastigi í Kyrrahafinu og geta þannig greint þegar hlýr yfirborðssjór sígur til baka í austurátt frá Indónesíu til Suður-Ameríku. Spár eru ekki enn orðnar fullkomlega traustar, en til lengri tíma litið geta þær haft mikla þýðingu, t.d. fyrir landbúnaðinn.
Loftslagsbreytingar styrkja El Ninjo
Rannsókn kínverskra og bandarískra vísindamanna sýnir að loftsbreytingar geta haft styrkjandi áhrif á El Ninjo. Vísindamennirnir skoðuðu gögn frá 33 El-Ninjo-tímabilum og niðurstaðan sýnir á eftir 1978 færðust upptök El Ninjo vestar á Kyrrahaf, þar sem yfirborðshiti sjávar er hærri.
Eftir þessa tilfærslu hafa komið þrjú mjög öflug El-Ninjo-tímabil. Þetta voru El-Ninjo árin 1982, 1997 og 2015. Í öllum tilvikum urðu miklir skaðar og hitamet féllu.