Eftir íslömsku byltinguna árið 1979 komst trúarleg ríkisstjórn til valda sem hefur sett strangar reglur um klæðnað og framkomu. Reglurnar lýsa m.a. því hvernig menn megi ekki vera með „vestræna“ klippingu, að menn og konur skuli viðhalda hæfilegri fjarlægð sín í millum og að konur eigi að hylja hár sitt og ganga í víðum klæðnaði.
Eftir byltinguna var þessum reglum fylgt eftir af svonefndum íslömskum byltingarnefndum sem virkuðu eins og trúarbragðalögregla. Árið 2005 tók hins vegar siðgæðislögreglan við þessu hlutverki og hún heyrir beint undir æðsta stjórnanda Írans, ayatollah.
Í raun hefur siðgæðislögreglan það verkefni að handtaka konur sem ganga um í „ólöglegum“ fötum, mála sig of mikið og bera ekki réttar höfuðskýlur samkvæmt fyrirmælum yfirvalda.
Starfsmenn siðgæslulögreglunnar geta veitt áminningar, sektir eða handtekið konur sem brjóta reglurnar um hvernig konum beri að klæða sig.
Dauði konunnar hefur leitt til óeirða
Siðgæðislögreglan vinnur jafnan í sendiferðabílum og fylgist með fjölförnum stöðum, t.d. skemmtigörðum og lestarstöðvum – og í henni er einnig að finna kvenkyns lögregluþjóna.
Samkvæmt Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna eru þær konur sem ekki framfylgja þessum reglum oft barðar með stöfum og þeim varpað inn í sendiferðabílana. Síðan er farið með þær í fangelsi eða á lögreglustöð.
Þessar konur eiga á hættu að þurfa að sitja allt að tvo mánuði í fangelsi ásamt því að fá háa sekt eða hýðingu en yfirleitt eru hinar handteknu konur áminntar um réttan klæðnað og þeim sleppt lausum sama dag.
Íbúar í Íran óttast siðgæðislögregluna enda getur hún gengið afar hart fram. Nú síðast hefur ofbeldi hennar leitt til mótmælaöldu í Íran eftir að unga konan Masha Jina Amini lést í varðhaldi þann 16. september 2022.
Samkvæmt lögreglunni lést konan úr hjartastoppi en sjónarvottar greina frá því hvernig hún hafi verið lúbarin og pyntuð af lögreglu. Áverkar á líki konunnar staðfesta þær frásagnir.